,,Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum"

Heiðar Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri hjá Novator, og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands skrifa mjög athyglisverða og ítarlega grein um gjaldmiðla og gengismál sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni, sem ber yfirskriftina ,,Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum" færa þeir Heiðar Már og Ársæll rök fyrir því að Ísland geti tekið einhliða upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar og að sú leið sé ódýrari og áhættuminni fyrir íslenska ríkið en að setja krónuna á flot og ráðast í gríðarlegar lántökur.

Mér finnst ástæða til að birta greinina hér, hafi hún farið framhjá þeim sem þessa síðu lesa, en hún er svohljóðandi:

,,Í núverandi árferði er mikilvægt að búa til festu. Hún fæst ekki með óbreyttu gengisfyrirkomulagi. Ætlun Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) er að setja krónuna aftur á flot, en til þess þurfa þeir að stórefla gjaldeyrisforðann. Í því skyni er ætlunin að Seðlabankinn fái sex milljarða dollara lán. Ekki hefur komið fram til hve langs tíma lánið er. Lán þarf að endurgreiða. Í ætlun Seðlabankans og IMF felst ákveðin áhætta. Áhættan felst í því að ef ekki tekst að endurvekja traust á krónunni munu þeir, sem eiga krónur, reyna að skipta þeim eins hratt og mögulegt er fyrir gjaldeyri en ekki vilja skipta gjaldeyri aftur yfir í krónur. Þá sæti ríkið eftir skuldsett og áfram með ótrúverðugan gjaldmiðil.

Önnur leið

Einn valkostur er þó til staðar í núverandi stöðu. Það er einhliða upptaka á mynt. Þá leið er hægt að framkvæma með mun minni gjaldeyrisforða. Sá forði sem nú er í Seðlabankanum er um það bil tveir milljarðar evra (gert er ráð fyrir tapi af láni til Kaupþings með veði í FIH í Danmörku og svo útstreymi síðustu vikna). Sá forði ætti að duga vel fyrir skiptunum. Að framansögðu gefnu myndi við skiptin jafnvel losna um dágóða fjárhæð, gróft áætlað um 100 milljarða íslenskra króna, sem sæti eftir í kassa ríkissjóðs.

Fordæmi fyrir einhliða upptöku

Einhliða upptöku annars gjaldmiðils er oft ruglað saman við fastgengisstefnu (currency board). Með fastgengisstefnu er átt við að þjóðríkið viðhaldi eigin gjaldmiðli áfram og miði verðmæti gjaldmiðilsins við gjaldeyrisforða. Sú leið var farin í Argentínu og árangur hennar umdeildur. Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka. Útgáfu innlendrar myntar er þar með hætt. Sú leið var farin í El Salvador og Ekvador árið 2000-2001. Í heild eru það níu sjálfstæð ríki í heiminum sem nota bandaríkjadollar sem lögeyri. Þess má einnig geta að utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil.

Fræðilega má segja að á Íslandi sé til fordæmi fyrir því að skipta út öllum seðlum og mynt í umferð. Það var gert þegar slegin voru af þrjú núll í byrjun níunda áratugarins. Það var mun flóknari aðgerð en sem felst í einhliða upptöku á gjaldmiðli. Ástæðan er að íslenskt fjármálakerfi er mjög rafvætt og lítið af seðlum og mynt í umferð. Íslenska bankakerfið og fjármálakerfið er mjög sjálfvirkt og sumir hagfræðingar hafa rætt þann möguleika að sleppa pappír og mynt í kerfinu með öllu.

Hvernig eru skiptin framkvæmd?

Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt.

Fyrst þurfti að sjá til þess að nóg framboð væri af seðlum og mynt í hinum nýja gjaldmiðli. Að lokum var haft samband við IMF og honum tilkynnt um skiptin. Þetta var undirbúningsferlið og tók nokkrar vikur. Síðan var ákveðinn dagur og stund. Eftir þann tíma yrði allt bankakerfið skipt yfir í hina nýju mynt á föstu gengi. Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutingsgreinum. Síðan var ákveðið að skuldaviðurkenningar til skamms tíma (t.d. ávísanir) yrðu gildar í 3 mánuði frá skiptunum í hinni eldri mynt en seðlar og aurar í allt að 6 mánuði. Lögskipað var að öll verð í landinu væru birt í nýju og gömlu myntinni í 6 mánuði eftir að skiptin hófust. Bankar fengu 3ja mánaða frest til að laga vaxtatöflur sínar að hinni nýju grunnmynt og vaxtastigi hennar.

En hvað kosta skiptin?

Í umræðu um upptöku gjaldmiðils er oft nefnt að kaupa þurfi svo mikið af hinni nýju mynt að það skapi vandamál. Hið rétta er að flestir seðlabankar heims eiga miklum mun meira af gjaldeyrisforða en nemur grunnmynt samfélagsins. Í tilfelli Íslands er það svo að seðlar og mynt í umferð eru lítið brot af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Grunninnstæður eru aðeins um helmingur af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Skv. útreikningum Manuel Hinds í október 2007, hefði Seðlabanki Íslands átt eftir um 700 milljónir evra af forða sínum eftir að hafa skipt út öllum seðlum og mynt og grunninnistæðum bankakerfisins. Grunninnistæður skipta hér einungis máli því bankakerfi viðkomandi lands sér um að margfalda peningana í umferð. Til útskýringar:

Einstaklingur A leggur inn í banka 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi B.

Einstaklingur B kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi C.

Einstaklingur C leggur inn 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi D.

Einstaklingur D kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi E

o.s.frv.

Það þarf því ekki að skipta út heildarumsvifum bankakerfisins, heldur aðeins grunninum, því margföldunin á sér stað með framangreindum hætti.

Skiptin á Íslandi kalla því ekki á 6 milljarða dollara lán heldur skila í raun afgangi af núverandi gjaldeyrisforða eins og Hinds bendir á.

Pólitísk viðbrögð

Í EES-samningnum er einungis kveðið á um að ríkin skuli halda hvert öðru upplýstu um breytingar á peningamálastefnu sinni en í næstu grein er sérstaklega tiltekið að slík mál falli utan samningsins. Einhliða upptaka annars gjaldmiðls brýtur því ekki EES-samninginn. Betra er þó að hafa IMF og viðeigandi seðlabanka með í ráðum. Formlegt samþykki þeirra er ekki nauðsynlegt því að gjaldeyrir sem íslenska ríkið hefur keypt á markaði er eign þess. Enginn getur bannað Íslendingum að nota hann í viðskiptum innan landsins.

Hagfræðikenningar í fortíð og nútíð

Þegar hagfræðingar ræða kosti þess að hafa sjálfstæða peningastefnu, eru oftast þrjár ástæður gefnar. Í fyrsta lagi viðskiptalegar, þ.e. hægt er að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils til að hygla útflutningi og hamla innflutningi og þannig tempra hagsveiflur út af ytri áföllum. Í öðru lagi eru fjármálalegar ástæður og þá helst möguleiki Seðlabanka til að prenta peninga og ákveða sjálfur verð þeirra. Peningaprentun býr til tekjur fyrir ríkið (verðbólguskattur) samkvæmt þessum kenningum en á einnig að tryggja greiðsluhæfi fjármálakerfisins innanlands ef snögglega dregur fyrir fjárstreymi erlendis frá. Með þessu getur seðlabanki viðkomandi lands orðið verndari fjármálakerfisins (lender of last resort) og leyst úr lausafjárvanda innlendra fjármálastofnana.

Margar hagfræðikenningar sem enn er stuðst við í peningamálum, svo sem þær sem minnst er á hér að ofan, eiga oft upptök sín hjá Keynes eða eru eignaðar honum. Á tíma Keynes voru viðskipti með gjaldeyri nánast eingöngu vegna vöruviðskipta. Þá þurfti mikið að hafa fyrir gjaldeyrisviðskiptum og höft ríktu í milliríkjaviðskiptum. Engar alþjóðlegar fjármálastofnanir, eins og við þekkjum í dag, voru þá til.

Eftir seinna stríð var reynt að einfalda og samræma gjaldeyrismarkað og voru peningar bundnir við gull í svokölluðu Bretton Woods samstarfi. Það samstarf leið undir lok í forsetatíð Richard Nixon, því verðmæti bandaríkjadals gagnvart gulli féll þegar Bandaríkin prentuðu seðla til að fjármagna Vietnam stríðsreksturinn.

Við tók að gjaldeyrir var keyptur og seldur á mörkuðum og verðmæti hans ákvarðað af markaðsaðilum. Vöxtur fjármálakerfisins og framþróun í tölvu- og upplýsingatækni jók umfang viðskipta með gjaldeyri og viðskiptakostnaður hefur lækkað stórkostlega. Nú geta flestir átt viðskipti með gjaldeyri, skuldsett sig í mismunandi myntum og fjárfest óháð myntum. Hraði þessara viðskipta hefur margfaldast með tilkomu rafrænna viðskipta. Í dag er agnarsmár hluti af 3200 milljarða dollara daglegri veltu á gjaldeyrismörkuðum tengdur vöruviðskiptum, ólíkt því sem áður var. Eðli markaðarins hefur því breyst.

En hver hefur reyndin verið á núverandi fyrirkomulagi gjaldeyrisviðskipta í ljósi framangreindra hagfræðikenninga? Fyrstu rökin, um að með gengisfellingu væri hægt að rétta úr hagkerfinu eftir ytri áföll, hafa verið gagnrýnd. Gagnrýnin felst í því að í nútíma hagkerfi eru fjármálakerfi mun þýðingarmeiri en áður var. Gengisfellingar hafa vissulega áhrif á einstaklinga og fyrirtæki viðkomandi lands, en áhrifin sem gengisfellingar hafa á fjármálakerfið eru enn meiri. Ávinningur gengisfellinga í sögulegu ljósi er því mjög takmarkaður og mögulegt tap fjármálakerfisins er meira en ávinningur útflutningsgreina. Gengissveiflur búi ennfremur til kostnað vegna þess að með gengissveiflum verði áætlanir erfiðari. Gengissveiflur geta einnig dregið úr vilja fjármálastofnana til að veita lánsfé til langs tíma.

Seinni rökin, um að seðlabanki viðkomandi lands gæti varið landið fjármálakreppum með prentun seðla, hafa einnig sætt gagnrýni. Vegna alþjóðavæðingar fjármálakerfisins eru bankar, fyrirtæki og einstaklingar með skuldbindingar og eignir í öðrum myntum og því er erfiðara að bjarga þeim með innlendri peningaprentun. Svo lengi sem fyrirtæki og stofnanir viðkomandi lands geta ekki fjármagnað sig alþjóðlega í eigin mynt er hætta á óstöðugleika sem innlend seðlaprentun getur ekki bjargað.

Þriðju rökin, sem snúa að skattheimtu ríkisins af peningaprentun, mega sín lítils í dag. Þessi skattheimta er alla jafna brot úr prósenti af landsframleiðslu hvers árs. Skattheimta af útlendingum sem nota peningana er léttvæg nema þegar um stærstu myntir heims er að ræða.

En hvað með hagstærðirnar?

Með upptöku annars gjaldmiðils er verið að tengja land inn á efnahagssvæði gjaldmiðilsins. Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera enga ábyrgð á verðlagi. Til skýringar þá kemur engum til hugar að velta því fyrir sér hvort Selfoss sé með jákvæðan eða neikvæðan viðskiptahalla innan efnahagssvæðisins Íslands.

Klassískar hagfræðikenningar um gjaldmiðla sem smíðaðar voru í hálflokuðum kerfum fortíðar hafa sætt gagnrýni fyrir að lýsa illa opnum hagkerfum nútímans. Nóbelsverðlaunahafinn Robert Mundell hefur velt þeirri spurningu upp hvort hagkvæmasta framtíðarskipan gjaldmiðla felist í því að í heiminum verði einungis til þrír gjaldmiðlar, Asíumiðill, Ameríkumiðill og evrumiðill.

Hvort sem lán fæst hjá IMF eður ei er upptaka gjaldmiðils einfaldur, ódýr og raunhæfur kostur sem hafa ber í huga við núverandi aðstæður."

Þau sjónarmið sem þeir Heiðar Már og Ársæll setja fram í þessari grein sinni eru allrar athygli verð og hljóta að koma til skoðunar við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir þetta. Held að dollarinn sé málið. Henda ekki meiri pening á eftir þessari handónýtu krónu. 

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:44

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Dollarinn málið????? Eruð þið ekki með öllum mjalla? Dollarinn er fiat mynt, sem er gersamlega sprungin og mun hreinlega hrynja á allra næstu vikum.  Bandaríkin eru tæknilega gjaldþrota fyrir löngu og nú prentar Bernanke platpeninga á fullu til að ausa botlausa tunnuna og rýra gjaldmiðilinn auk þess að koma af stað óðaverðbólgu, sem mun gera Weimar lýðveldið að brandara.

Það er verið í óða önn að henda peningum á eftir ónýtum dollar. Okkar tiltæki eru peanuts miðað við það. 

Þetta eru engar ýkjur.  Allur markaðurinn hrópar í dag: "Get out of the dollar now!"

Fylgjast menn ekki með?  Í hvaða blöðru búið þið?

Kínverjar og Rússar eru í óða önn að reyna að tryggja sína gjaldmiðla og undirbúa gulltengingu.  Ef við ættum að treysta á eitthvað, þá væri næstum best að taka upp Indverska mynt. Þeir eiga stæsta gullforða í heimi. Annar kostur er hugsanlega að setja okkur undir Svissnensak eða Norska seðlabankann.

Dollarinn er sjálfsmorð. Ef Stjórnmálamenn eru ekki upplýstari um þessi mál en þetta, þá guð hjálpi okkur. (og ég er trúfrjáls)

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 01:13

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég var í Svartfjallalandi (e.Monenegro) í október árið 2007 að vinna að stjórnsýsluúttekt á vegum Alþjóðatollastofnunarinnar. Það bar evruna að sjálfsögðu á góma, en hún var innleidd þar árið 2002. Áður höfðu Svartfellingar notað þýska markið. Svartfellingar eru aðeins fleiri en við og eru um 500.000 íbúar, en efnahagskerfið er að sjálfsögðu mikið minna en hér.

þeir, sem ég ræddi við, sögðu evruna hafa reynst vel og þeir væru mun betur staddir en nágrannalöndin, sem væru með eigin myntir. Þar ríkti óðaverðbólga og gengisfellingar, sem við óneitanlega könnumst við. Á þessum tíma fannst mér þetta arfavitlaus hugmynd, en rök þeirra eiga við í því ástandi, sem hér ríkir í dag!

þetta er því eitthvað, sem við eigum að skoða mjög vel. Ef við tækjum t.d. upp evruna á þennan hátt gætum við skoðað reynsluna af þessu í 1-2 ár og séð til, hvort nokkur ástæða er til að ganga í ESB. Aðalvandamál okkar er gjaldmiðillinn, þar sem við erum í sæmilegum málum með EES samninginn.

Getur ESB nokkuð bannað okkur þetta? Er þetta nokkuð andstætt EES samningnum og veldur þetta erfiðleikum við inngönguna í ESB ef við kjósum það síðar?

Svartfellingar bíða nú inngöngu í ESB og ég gat ekki heyrt að þetta hefði tafið eitthvað fyrir þeim?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.11.2008 kl. 12:35

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Dollar eða Evra finnst mér ekki endilega vera aðalmálið. Bara ekki krónan áfram. Ég sem venjulegur Íslendingur hef enga trú á krónunni og ég reikna með því að trú útlendinga sé enn minni.

Í augnablikinu stafar okkur mesta hættan af stjórnvöldum og þeim arfavitlausu ákvörðunum sem þeir taka aftur og aftur.

Ríkistjórnin er algjörlega rúin öllu trausti, bæði hér heima og erlendis og því þarf hún að víkja. 

Þóra Guðmundsdóttir, 9.11.2008 kl. 14:45

5 Smámynd: Egill Jón Kristjánsson

Þetta er mjög svo athyglisvert. Þeir sem enn hafa trú á að það sé hægt að bjarga krónunni og kom henni til vegs og virðingar fer ört fækkandi og fer að nálgast það að þeir verði auð teljanlegir. Þetta er tillaga sem þú Sigurður Kári átt að taka upp á þingi. Nú þurfum við lausnir ekki upptalningu á vandamálum.

Egill Jón Kristjánsson, 9.11.2008 kl. 15:55

6 identicon

Mjög athyglisverð grein og líka mörg comentin hér að ofan.

Ég hef verið eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að ESB og er það svo sannarlega ennþá. En ég viðurkenni að okkar litli gjaldmiðill krónan er og verður sjálfsagt talsvert vandamál hjá okkur.

Þessvegna finnst mér þessi röksemdar færsla um einhliða upptöku einhvers gjaldmiðils einkar áhugaverð og mér finnst að allir stjórnmálaflokkar landsins eigi nú að skoða þetta mjög alvarlega og fordómalaust. Þá á ég við ekki sama sönginn og svo oft hjá ESB sinnum að alls ekki sé hægt að gera þetta og ekki komi til greina að taka upp Evru án þess að ganga fyrst í Bandalagið. Gera lítið úr öllum tillögum um hugsanlegt myntbandalag við aðrar þjóðir.

Einnig meigum við ESB andstæðingar ekki útiloka það fyrirfram að eftir ítarlega skoðun yrði niðurstaðan sú að hagstæðasta myntin fyrir okkur yrði upptaka Evru. Einnig mega Vinstri sinnar í hópi okkar ESB andstæðinga ekki fyrirfram setja fyrir sig inngróna Bandaríkja óvild sína til þess að útiloka með öllu Bandaríkja dollar ef það yrði talinn hugsanlega besta niðurstaðan.

Athyglisvert er að sjá Sigurð Kára Kristjánsson eiganda þessarar bloggsíðu taka þessu með opnum huga og eins sá ég áðan að Jón Bjarnason þingmaður VG talaði á svipuðum nótum á bloggi sínu.

Ég er því miður ekki viss um að þeir hörðustu í hópi ESB trúboðsins á Íslandi verði eins víðsýnir og þessir tveir þingmenn, sem þó eru á sitthvorum kanti Íslenskra stjórnmála. Það hefur marg sýnt sig að hjá þeim helgar tilgangurinn einn meðalið. En við skulum vona að skynsamari hluti ESB sinna sé nú tilbúinn að skoða þetta fordómalaust.

velarogtaeki@hotmail.com (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 16:26

7 identicon

Hér er að nokkru að hyggja, Sigurður Kári.

Almennt er það ekki til farsældar að taka stórar ákvarðanir í taugaveiklun. Jafnframt er sjálfsagt að kannast við að tímarnir núna eru sérstakir og gætu kallað á lausnir sem við höfum ekki áður látið okkur detta í hug.

Grein þeirra félaga er lesin og endurbirt vegna þess að við óttumst að um leið og gjaldeyrisviðskipti verða frjáls munum við sem þjóð selja allar okkar krónur og kaupa gjaldeyri á nánast að hvaða verði sem er.

Mér finnst það heldur ólíklegt. Þótt hugsýkin sé nokkuð áberandi í umræðu á torgum og fjölmiðlum vitum við að það voru bankarnir sem hrundu en ekki atvinnulífið í heilu lagi. Útgerðin skilar áfram verðmætum, tæknifyrirtæki eins og Marel og Össur eru í ágætu standi og álbræðslan mallar.

Annað sem þeir félagar nefna ekki, og það grunsamleg þögn, er að með sveigjanleika krónunnar komumst við að öllum líkindum hjá víðtæku og langvinnu atvinnuleysi. Útlendur miðill, dollar eða evra, myndi nánast tryggja viðvarandi atvinnuleysi hér á landi.

Flýtum okkur hægt, ágæti Sigurður Kári.

Páll Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 17:44

8 identicon

Tek undir með það þurfi að skipta yfir í aðra mynt og það strax.  Auðvitað er evran langbesti kosturinn og dollarinn ekki boðlegur í raun.

Ég er farinn að vona við fáum alls ekki þetta lán frá IMF- ef það á virkilega að gambla með þá peninga við vonlausa tilraun til að koma krónunni á flot.  

Krónan hefur verið jarðsett alls staðar erlendis fyrir löngu síðan og hér heima líka núna nema kannski í krónuvinafélaginu.  Það má alls ekki láta þessa peninga brenna þar upp á nokkrum dögum.  Við þolum ekki fleiri mistök og niðurlægingar í tengslum við krónulufsuna og Sjálfstæðismenn sem og aðrir verða að skilja það.  Það er alveg klárt og í því er engin taugaveiklun fólgin heldur dýrkeypt reynsla síðustu mánaða og ára.

Socrates (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 19:03

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég segi eins og vél og tæki, ég er andstæðingur ESB aðildar, en við höfum ekki efni á að skoða alla möguleika og afleiðingar allra hugsanlegra aðgerða. Þar á meðal upptöku annars gjaldmiðils. Það verður auðvitað að gerast í sátt við viðkomandi seðlabanka, hvort sem það yrði ECB, sá norski eða einhver annar.

Villi Asgeirsson, 9.11.2008 kl. 20:59

10 identicon

Ágæti Sigurður,

Ef þú berst fyrir þessu væri það væntanlega eitt það fyrsta sem þú gerðir af viti sem stjórnmálamaður.

Eins og staðan er í dag er allt í óvissu og ekkert er verra en hún. Enginn veit hvað hann í raunininni skuldar (myntkörfulán) og hvað hann kemur til með að skulda (verðtryggðu lánin). Ef krónan er sett á flot eru miklar líkur á að hún falli enn frekar með tilheyrandi verðbólgu og gjaldeyrisþurrð sem afleiðingu af björgunaraðgerðum fyrir krónuna. Þar með aukast miklar skuldir heimila og fyrirtækja enn meira og þar með gjaldþrot, atvinnuleysi og örbyrgð.

Með því að henda krónunni strax fyrir "erlendan" gjaldmiðil fáum við:

a) Raunverulega skuldastöðu á erlendum lánum einstaklinga og fyrirtækja og þar með raunsæja mynd á greiðslugetu gagnvart þeim lánum.

b) Verðtryggð lán í krónum verða að "erlendum" lánum, en í sömu mynt og tekjur skuldara og verðtrygging leggst sjálfkrafa af og þar með minni verðbólguþrystingur. Raunsæ mynd af skuldastöðu og greiðslugetu.

c) "Skynsamlegir stýrivextir", 1-7% eftir því hvaða gjaldmiðill yrði tekinn upp (væntanlega evra 3,75%) í stað verðbólguhvetjandi 18% (og engin trygging er að þurfi ekki að hækka enn frekar í krónuhruni).

Auk þess að henda krónunni er skynsamlegt að skoða erlent eignarhald að hluta á íslensku bönkunum og janfnvel bjóða eignarhlut í þeim í stað "Icesave" skulda. Þannig má auka traust og tiltrú erlendra skuldunauta okkar og þeim jafnframt gefinn kostur á að fá eitthvað af "ætluðu" tapi til baka í formi framtíðar arðgreiðslna. lagaramma í kringum bankana þyrfti svo að laga m.t.t. til þjóðaveða sem ínn í þeim liggja eins og t.d. kvótar/veriðiheimildir.

Eyðum óvissunni - gerum þetta strax!

Kristinn (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 21:42

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Leið sú sem Ársæll Valfells og Þórólfur Mattíasson ræða í Silfri Egils er hin skynsamlegasta í stöðunni. Einhliða upptaka annarar myntar á neyðarforsendum.  Klippa á viðræður við IMF og hætta við lánin. Dollarinn má alls ekki vera inni í myndinni og Evran er vafasöm eins og stendur en ekki slæmur kostur. Aðrir gjaldmiðlar eru einnig inni í myndinni eins og Norsk Krína, Svissnenskir Frankar etc. Það er reynsla á þessu í a.m.k. 6 smáríkjum eins og Andorra, Svartfjallalandi og San Marino.

Það er öruggt að þessi lán munu brenna upp um lið og krónunni verður sleppt lausri, því hún hefur minna en ekkert traust og menn vilja losna við hana sem fyrst. Eftir sitjum við með tvöfalt hærri halla og algert úrræðaleysi.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Helstu sérfræðingar heims taka undir þetta úrræði. Nú er lag.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband