Föstudagur, 7. nóvember 2008
Hverjir eiga að bera byrðarnar?
Nú þegar ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um að leita aðstoðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi blasir við ný staða hér á landi. Staða þjóðarbúskapsins er allt önnur og verri en hún var fyrir ekki lengri tíma en mánuði síðan. Allar áætlanir í rekstri ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og fjölskyldna eru í uppnámi.
Nú er nauðsynlegt að stokka spilin upp á nýtt og taka ákvarðanir um það hvernig leysi beri úr þeim vanda sem við blasir og hvernig haga eigi því uppbyggingastarfi sem framundan er.
Hamfarir
Hagfræðiprófessorarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson bentu á í grein sinni í Morgunblaðinu á mánudag að líkja megi þeim ósköpum sem hér hafa dunið yfir á síðustu vikum við náttúruhamfarir. Undir þá lýsingu er óhætt að taka. Fjármálakerfið er hrunið. Gengi gjaldmiðilsins er hrunið. Vextir eru himinháir. Verðbólga líka. Eignir Íslendinga brenna upp. Sparnaður hefur tapast. Fasteignaverð fellur. Viðskipti okkar við önnur lönd eru í uppnámi. Ísland á í milliríkjadeilu við Breta. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna. Námsmenn eru í kröggum og svo mætti lengi telja. Allt hefur þetta gerst á ógnarskömmum tíma.
Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis.
Erfiðir tímar framundan
Það eru erfiðir tímar framundan og engin ástæða til að leggjast í sjálfsafneitun og loka augunum fyrir vandanum eins og hann er.
Á næstu misserum og árum er fyrirséð að þær byrðar sem þjóðin þarf að bera verða þyngri en áður. En þær byrðar eiga fólkið í landinu og fyrirtækin ekki að bera ein. Ríkið og sveitarfélögin þurfa ekki síður að leggja sitt af mörkum.
Þó svo að halda megi því fram með góðum rökum að ýmsir aðilar hafi gengið of hratt um gleðinnar dyr í góðærinu þá eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa tekið þátt í gleðinni.
Aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kallar á nýja efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisfjármál þarf að endurskoða nánast frá grunni. Tekjur ríkisins munu dragast verulega saman. Því er ljóst að til aðgerða þarf að grípa til þess að endar nái saman í ríkisfjármálum.
Tvær leiðir
Þar eru tvær leiðir einkum nefndar. Önnur er sú að hækka skatta á fólk og fyrirtæki til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs. Hin er sú að draga úr útgjöldum ríkisins.
Skattahækkanir?
Sjálfum hugnast mér síður að við fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs verði brugðist með því að hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Ég fæ ekki séð að það sé mögulegt að bæta aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki ofan á yfirvofandi tekjufall, atvinnuleysi, gjaldþrot, háa vexti og verðbólgu. Nóg er nú samt. Og það má halda því fram með góðum rökum að sú kjaraskerðing sem þegar hefur orðið vegna verðbólgu feli í sér ígildi skattahækkunar.
Niðurskurður ríkisútgjalda
Að mínu mati væri miklu skynsamlegra að draga verulega úr ríkisútgjöldum á flestum eða öllum sviðum. Eins og áður segir eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa verið þátttakendur í góðærinu. Þó verður að halda því til haga að ríkið greiddi upp skuldir sínar meðan vel gekk, sem er lofsvert. Engu að síður hefur opinberum starfsmönnum fjölga og stjórnsýslan þanist út. Laun hafa hækkað og ráðist hefur verið í ýmis kostnaðarsöm gæluverkefni. Ofan af þessu þarf að vinda. Það þarf að draga saman í ríkisbúskapnum á flestum eða öllum sviðum og forgangsraða útgjöldum með skynsamlegum hætti í þágu þeirrar grunnþjónustu sem veita þarf almenningi og þeirra grunnstoða sem byggja skal þjóðfélagið á til framtíðar. Lúxusinn þarf hins vegar að setja á ís.
Ég tel að niðurskurður útgjalda ríkisins eigi að bera það með sér að ríkið ætli að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna með afdráttarlausum hætti að það ætli að skera niður í eigin ranni svo fólkið og fyrirtækin í landinu sjái svart á hvítu að því verður ekki einu ætlað að bera allar byrðarnar. Þar á ekkert að vera undanskilið og skilaboðin verða að vera skýr. Að mínu mati á til dæmis að fækka ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Starfslið hins opinbera má ekki vera fjölmennara en nauðsyn krefur. Alþingismenn sem hafa ráðið sér aðstoðarmenn verða að sætta sig við að sjá á bak þeim. Auka þarf sveigjanleika á opinberum vinnumarkaði og veita yfirmönnum fyrirtækja ríkisins og stofnana aukið aðhald. Launakjör og önnur réttindi opinberra starfsmanna, hvort sem er í stjórnsýslunni, hjá fyrirtækjum ríkisins eða stofnunum þurfa að taka mið af efnahagsástandinu. Risnukostnað ríkis og sveitarfélaga og öll hugsanleg fríðindi starfsmanna þeirra þarf að skera við nögl. Það þarf með öðrum orðum að skera alla þá fitu sem fyrirfinnst í ríkisrekstrinum burt.
Þar fyrir utan er auðvitað nauðsynlegt að endurskoða umfang verkefni og umsvif ýmissa ráðuneyta. Utanríkisþjónustuna þarf að endurskipuleggja. Ríki sem þarf á aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að halda er ekki aflögufært um að veita öðrum ríkjum þróunaraðstoð. Við höfum ekki efni á því nú um stundir að bora jarðgöng víðs vegar um land og verðum að fara varlega í að ráðast í rándýrar byggingaframkvæmdir. Byggingu hátæknisjúkrahúss þarf að fresta. Mýmörg önnur dæmi má nefna.
Niðurskurður eins og sá sem hér er nefndur verður ekki sársaukalaus. Hann verður mjög erfiður. En hjá honum verður ekki komist. Hið opinbera verður að sníða sér stakk eftir vexti við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við höfum því miður ekki efni á öðru.
Atvinnustarfsemi, auðlindir og nýsköpun
Samhliða þessum niðurskurðaraðgerðum er mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að þeim atvinnurekstri sem eftir stendur eftir hrun fjármálakerfisins. Hinar krafmiklu útflutningsgreinar þjóðarinnar, sjávarútvegur og stóriðja, ásamt ferðaþjónustu, munu gegna lykilhlutverki við að afla þjóðarbúinu tekna í framtíðinni. Þær þarf að vernda. Jafnframt þarf að auka framleiðslu innanlands til að afla aukinna tekna og leita allra leiða til þess að efla erlenda fjárfestingu í landinu. Það verður meðal annars gert með því að nýta þær auðlindir landsins sem í dag standa ónýttar svo þær skili þjóðarbúinu tekjum. Það þarf að virkja þann sköpunarkraft og þekkingu sem býr í fólkinu í landinu og efla nýsköpun til nýrrar atvinnusóknar á öllum sviðum.
Meginverkefnin
Nú er mikilvægt að halda vel á spöðunum og ígrunda vel og vandlega með hvaða hætti stjórnvöld eigi að leysa úr þeim viðfangsefnum sem við blasa. Meginverkefnið hlýtur að vera að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem hér starfa, endurreisa fjármálakerfið, koma á eðlilegum viðskiptum við önnur lönd, standa vörð um hag almennings, verja heimilin, efla verðmætasköpun í landinu, verja störf og koma í veg fyrir að ungt og vel menntað fólk finni kröftum sínum farveg í öðrum löndum. Slíkt verður ekki gert með því að hækka skatta á fólkið okkar og fyrirtækin okkar.
Lánist þjóðinni að standa samhent í því að leysa úr þessum viðfangsefnum munum við komast standandi út úr þeim þrengingum sem nú dynja yfir og getum litið bjartsýnum augum til framtíðarinnar.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu hinn 5. nóvember sl.
Sigurður Kári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh
Athugasemdir
Svíþjóðarferðin því var nú ekki alveg í þessum anda eða hvað voru dagpeningarnir þínir háir
Bjarnveig Ingvadóttir, 7.11.2008 kl. 22:55
Niðurlag hjá þér Sigurður hlýtur að vera toppurinn á ferlinum hjá þér. ''Nú er mikilvægt að halda vel á spöðunum og ígrunda vel og vandlega með hvaða hætti stjórnvöld eigi að leysa úr þeim viðfangsefnum sem við blasa.''
Bara svona ein spurning að lokum. Trúir þú því að þú og þinn flokkur verði hafðir með í ráðum þegar kemur að uppbyggingu íslands eftir hrun Ný frjálshyggjunnar hjá ykkur?.
Ef þú spyrðir mig þá væri svar mitt '' nei ykkar tími er liðinn sem betur fer''
Páll Höskuldsson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 23:08
Hvernig væri að bæta þarna inn í að draga verulega úr yfirbyggingu stjórnsýslunnar? Dregið verði úr fríðindum og styrkjum innan hennar, sendiráðum lokað eða dregin saman og húsnæði selt. Hitt sem þú nefnir er svo augljóst að varla tekur að nefna. Þú hefur langt mál um lítið og minnir þetta einna helst á stílæfingu meenntskælings, með fullri virðingu annars.
Það er ljóst í stórum dráttuma hvað ber óhjákvæmilega að gera í stöðunni. Nú er að byrja á að gera eitthvað. Aðgerðarleysið er að grafa undan framtíðarhorfum og dýpka allar afleiðingar kreppunnar, rétt eins og í hinni rómuðu Finnsku leið, sem raun var mónúmental fíaskó.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 23:31
Já, ég vil taka ofan fyrir þér fyrir að hafa opið athugasemdakerfi þitt. Það er virðingavert og ég vona að fólk virði það og hemji skiljanlega biturð og reiði. Þetta er meira en flestir aðrir hafa kjark í. Stjórnmálamenn, sem þykir vænna um að hlusta á sjálfa sig tala en að hlusta á fólkið.
Mig langar því að nota tækifærið til að bera þér bón, eða koma með tillögu til hugsanlegrar lausnar á IMF dilemmanu. Sú lausn felst í því að Joseph Stiglitz verði fengin hér hið snarasta til að verja hagsmuni landsins í þeirri rimmu og til ráðgjafar gagnvart kröfum sjóðsins.
Hann er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og hefur gert skýrslu fyrir seðlabankann árið 2000
Hann starfaði sem ráðgjafi á vegum IMF og WB en var rekinn fyrir harða gagnrýni á misbeitingu þessara stofnana og er einn harðasti aðhaldsmaður í síðu þeirra í dag. Maður sem veit hvað hann syngur af því að hann er einn af hönnuðum þessa alþjóðahagkerfis ef svo má segja.
Það er því strategískt rétt að hafa hann í liði með sér auk þess sem hann getur örugglega komið með skynsamlegri ráð en IMF.
Þið verðið að fara að vakna upp við það að Globalisminn er ekki það sem ykkur var sagt að hann væri. Hann er nú ástæða eymdarinnar og er misbeitt að gerspilltum corporative Capitalisma, sem nær með klærnar inn í þessar stofnanir. Þú veist orugglega hvað ég meina þar.
Drífið í þessu. Hér vantar verkfæri. Stiglitz er það sem þið þurfið.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 23:48
Sigurður þetta er tímamóta grein hjá þér. Tek undir nánast allt er þú segir, og ef þú heldur við þetta heygarðshornið, þá styð ég þig heilshugar ti góðra verka.
haraldurhar, 8.11.2008 kl. 00:44
Æ, æ og ó, ó veistu það minn kæri Sigurður, að framsetning stjórnmálamanna á því sem þeim liggur á hjarta er yfirleitt sett fram á afar svæfandi hátt. Ég var búin að lesa nokkrar línur í pistlinum þínum og strax farin að dotta, en komst á hörkunni í gegnum hann. Af hverju þurfa alþingis- og embættismenn að notast við svona ömurlega leiðinlega framsetningu, orðaforðinn, klisjurnar og alles, afar svæfandi. Þetta veldur því að maður nær ekki megininntakinu. Sem er náttúrulega að draga úr útgjöldum og blabla, gott ef stendur ekki þarna einhvers staðar að standa saman. Svona framsetning er ekki til að vekja aftur traust á stjórnmálamönnum. Eitt ráð til þín; hættu að vera svona rosalega vel upp alinn og talaðu bara út frá hjartanu. Talaðu. Notaðu röddina og komdu þér á framfæri út á hana og bættu húmor við, mannkærleika. Ef þig vantar erfiða reynslu í líf þitt, taktu þá þátt í þeim kimum samfélagsins þar sem bráðgáfað fólk eins og þú hefur orðið undir vegna ýmissa sjúkdóma og getur ekki stundað vinnu sína lengur. Í Fjölskylduhjálpinni, í fatabransanum hjá Rauða krossinum, spjalla við presta út af Bónusúttektarmiðum, í athvörfum á vegum Rauða krossins, á atvinnuleysisskrifstofum o.s.frv. o.s.frv.
Nína S (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 05:37
Fín grein Sigurður, vonandi verður farið í að lagfæra það sem hefur farið úrskeiðis síðustu ár og þar þurfa stjórnmálamenn virkilega að taka sig á. Þar væri eitt ráðið að setja ekki atvinnulífinu þrengri skorður, eins og hugmyndir eru um, heldur stjórnmálamönnum, ríki og seðlabanka.
Það er sorglegt að ríkið hafi þanið sig svo mikið út í góðærinu, eytt svo miklum pening í vitleysu og illa tímasettar fjárfestingar, að staðan sé nú sú að skera þurfi niður eða hækka skatta. Nú ætti að vera tíminn til að auka fjárfestingar og lækka skatta. Svona aðgerðir stjórnvalda auka á sveiflur í efnahagslífinu, ýkir þenslu og gerir samdrætti verri. Ætla stjórnmálamenn framtíðarinnar að læra af þessu?
Frjálshyggjumenn eins og Milton Friedman, Ludwig von Mises og Friedrich Hayek segja allir í bókum sínum að það ástand sem ríkti í þjóðfélaginu síðustu ár(lánaþensla og verðbólga) gæti bara endað með samdrætti. Joseph Schumpeter segir að í góðærinu séu rætur næsta samdráttar. - Mér finnst að (ný)frjálshyggjumenn hefðu átt að muna eftir þessu.
Lúðvík Júlíusson, 8.11.2008 kl. 10:53
Flott grein.
Það verður að nota allar okkar auðlindir hvort sem er orku, mannauð,
eða auðlindir hafsins. Við verðum að hefja nú þegar hvalveiðar af fullum þunga samkvæmt tillögum Hafrannsóknarstofnunar þar sem markaðir eru að
opnast víða um heim. Það væri hægt að auka kvóta í bolfiski um ca 30 til 50 þúsund tonn strax í framhaldi af auknum hvalveiðum vegna afráns hvala.
Þetta gæti gefið verulegar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið strax án nokkurra fjárfestinga sem kosta erlendan gjaldeyri þar sem atvinnutækin eru til.
Karl Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 14:13
Þetta er ágætt yfirlit hjá þér Sigurður Kári. Hins vegar má benda á, að þegar verið dregið mjög úr útgjöldum ríkisins til ýmissa málaflokka t.d. til velferðar- og heilbrigðismála. Ætla menn t.d. að skerða rétt öryrkja og sjúklinga frekar en gert hefur verið? Á að auka "kostnaðarvitund" sjúklinga enn frekar? Margir öryrkjar og sjúklingar lepja þegar dauðann úr skel og hafa ekki efni á því að fara til læknis eða borga fyrir rannsóknir. Hvar á að skera niður?
Hverjir eiga að borga meira og hverjir eiga að borga hærri skatta?
Menn verða að tala skýrt mál.
Júlíus Valsson, 8.11.2008 kl. 17:54
Verndum velferðarkerfið.
Afnemum luxuseftirlaun ráðamanna eins og fyrrum ráðherra og byrjum t.d. á fyrrum ráðherra og núverandi seðlabankastjóra.
Afnemum ráðningar aðstoðarmanna og "umboðsmanna" alþingismanna. Það stingur í augun og kemur við pyngjuna. Sérstaklega stingur í augun slíkt bruðl til "óþekkta þingmannsins".
Hættum að eyða peningum samfélagsins í að handtaka unga pilta sem hafa uppi mótmæli við óréttlætið í samfélaginu og draga Bónusfána að húni Alþingishússins, og handtökum heldur hina raunverulegu glæpamenn sem hafa sett þjóðina á vonarvöl og rænt hana auðævum sínum. Menn sem hafa stungið undan miljörðum þjóðarinnar.
Allt, sem snýr að kjötkötlunum. Allt nema skera niður velferðarþjónustu til almennings, almennings sem þarf á þeirri þjónustu að halda sem aldrei fyrr.
Viðar Eggertsson, 8.11.2008 kl. 18:21
Sæll Siggi minn. Nú talar þú eða skrifar þannig að ég get verið þér sammála í mörgu, sem fram kemur í greininni,ef ég skil þig rétt. En ef til vill ertu jafnaðar og réttlætismaður þegar á reynir og því og hef ég reyndar alltaf túað. Það stjórnmálauppeldi sem þú fékkst hefur ekki orðið til þess að fyrra þig sjálfstæðri hugsun og er það vel.
Þær hugmyndir sem þú nefnir í grein þinni eru jú hverjum manni augljósar og margt fleirra mætti nefna. Ég nefni eftirlaunafrumvarpið, verðtryginguna, ofurlaun bankastjóra sem eru algjöa óásættanleg við þær aðstæður sem ríkja í dag og einnig þó svo ekki væri. Óþolandi og óskiljanlegt að ekki einn einasti þingmaðr láti þetta til sín taka af einhverri alvöru, að maður nefni nú ekki ráðherra. Það er lélegt að skýla sér á bakvið bankráð.
Öll þessi fyrra er mannanna verk og það er líka þannig að það verða verk mannsins sem munu og verða að leysa okkar vandamál nú sem áður.
IGÞ, 9.11.2008 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.