Kaupþing og lífeyrissjóðirnir

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Markaðarins, skrifar áhugaverðan pistil á heimasíðu sína í dag.

Þar segir hann: 

 ,,Viðskiptaráðherra skýrði frá því í morgun að Fjármálaeftirlitið hafi hafnað tilboði lífeyrissjóðanna í hluta af rekstri og eigum Kaupþings. Af þeim sökum sé líklegt að Nýja Kaupþing verði stofnað í næstu viku, eins og gert var í tilfelli Landsbankans og Glitnis, og starfsfólki væntanlega sagt upp í stórum stíl.

Þetta kemur mjög á óvart. Nú er vitað að verkalýðshreyfingin var fremur hlynnt þessari hugmynd. Hún naut mikils stuðnings í atvinnulífinu, enda töldu menn afar mikilvægt að allavega einn einkabanki yrði starfandi hér til framtíðar, þar sem ljóst er að ráðast verður í gríðarlega enduruppbyggingu á öllum sviðum.

Ríkisstjórnin virtist þessu mjög fylgjandi, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og ráðherra bankamála höfðu allir fagnað þessum þreifingum. Ég veit til þess að margir ráðherrar aðrir voru sömu skoðunar.

En svo skilst mér að Jón Sigurðsson, formaður Fjármálaeftirlitsins, hafi verið alveg þversum í málinu. Og þar við situr að því er virðist.

Þess vegna er ekki að undra þótt spurt sé. Hver ræður hér ferðinni? Er það Jón Sigurðsson"

Ekki ætla ég að fabúlera um völd eða áhrif Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, á þá atburðarrás sem nú á sér stað varðandi íslensku bankana.

Hitt er annað mál að ég get ekki nefnt einn einasta sjálfstæðismann, innan þings sem utan, sem ekki er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að leggja allt í sölurnar til að tryggja að einn af stóru viðskiptabönkunum verði í eigu annarra en ríkisins. 

Skynsamlegasta hugmyndin sem fram hefur komið í því sambandi er sú að lífeyrissjóðirnir eignist ráðandi eignarhlut í Kaupþingi.

Ég hef ekki orðið var við annað en að sú hugmynd njóti yfirgnæfandi stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins.

Íslenska fjármálakerfið, lífeyrissjóðirnir og þjóðin öll hefur gríðarlega hagsmuni af því að þeirri hugmynd verði hrint í framkvæmd.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef gert þá tillögu á blogginu mínu að lífeyrissjóðirnir fái Kaupþing hreinlega afhent án endurgjalds.  Lífeyrissjóðirnir eru líkt og ríkið að þjóna almenningi og það er því ekki mikill munur á því að almenningur njóti ávaxtana af rekstri og sölu Kaupþings í gegnum framlög til ríkissjóðs eða í bættum lífeyrisréttindum.  Endanleg ákvörðun um örlög Kaupþings verða í höndum Alþingis, ekki FME eða Jóns Sigurðssonar, og því getur þú, Sigurður, alveg gert tillögu um þetta á þingi.

Með því að afhenda lífeyrissjóðunum Kaupþing endurgjaldslaust gæfist ríkinu auk þess færi á að efna þau loforð sem gefin voru, um að lífeyrisréttindi yrðu varin.

Marinó G. Njálsson, 17.10.2008 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband