Við ystu mörk

Ég átti þess kost á dögunum að fara til borgarinnar Fairbanks í Alaska á vegum Alþingis.

Heimamenn taka stundum þannig til orða að staðurinn sé á ystu mörkum hins frjálsa heims, en tilgangur ferðarinnar var sá að sækja þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál, en ég gegni formennsku alþjóðanefndar Alþingis sem hefur með þá ráðstefnu að gera, en hana sækja þingmenn frá þjóðþingum Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Rússlands og Kanada, auk þess sem þingmenn af Evrópuþinginu hafa þar seturétt.

Með mér í för í þetta skiptið voru Gunnar Svavarsson og Karl V. Matthíasson, þingmenn Samfylkingarinnar, og Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, ásamt þeim Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Guðna Jóhannessyni, orkumálastjóra, en báðir héldu afbragðsgóð erindi á ráðstefnunni.

x x x

d001_188Ferðalagið til Fairbanks var eins og gefur að skilja langt og strangt.  Til þess að komast á áfangastað þurftum við fyrst að fljúga frá Keflavík til Minneapolis og þaðan til Fairbanks með millilendingu í Anchorage, stærstu borg Alaskafylkis.

En þó ferðalagið hafi verið óhemjulangt bar margt fyrir augu á leiðinni.  Það er til dæmis mjög fallegt að fljúga í góðu skyggni þvert yfir Grænland, en það merkilegsta sem bar fyrir okkar eigu var að mínu mati hið stórfenglega Mt. McKinley fjall sem við flugum meðfram.

Mt. McKinley er hæsta fjall Norður-Ameríku og er engin smásmíði, 6.193 metrar á hæð og ótrúlega fallegt í lögun.

x x x

Sá hluti Alaskaríkis sem við heimsóttum er að flestu leyti mjög ólíkur öðrum stöðum í Bandaríkjunum sem ég hef heimsótt.  Vissulega eru þar þekktar skyndibitakeðjur á hverju strái, en að öðru leyti er þetta allt annar heimur en ég hef áður kynnst þar vestra, enda liggur Alaska að Norðurheimskautinu og sækir menningu sína og sögu að miklu leiti til frumbyggja svæðisins.  Sem dæmi má nefna að íbúar fylkisins stunda hval- og selveiðar af miklum móð, sem er nokkuð sem varla má nefna annarsstaðar í Bandaríkjunum.

x x x

Þingmannaráðstefna um Norðurskautsmál er um margt merkilegur samráðsvettvangur stjórnmálamanna í norðri þar sem rædd eru málefni sem varða gríðarlega hagsmuni fyrir ríkin sem í hlut eiga og íbúa þeirra.  Á ráðstefnunum eru til að mynda rædd málefni tengd menntun og heilbrigði íbúanna og orku-, auðlinda- og loftslagsmál.

Síðan ég tók við formennsku í þessu alþjóðasamstarfi fyrir Íslands hönd árið 2005 hef ég lagt þunga áherslu á öryggis-, varnar- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum og reynt eftir fremsta megni að gera Ísland að forysturíki við stefnumótun á því sviði.

x x x

Upphafleg tildrög þess að ég fór að leggja svo mikla áherslu á þennan málaflokk í samskiptum þessara ríkja var brottför Bandaríkjahers af Miðnesheiði.  Í opinberri umræðu um varnar- og öryggismál hefur það vilja gleymast að meðan Bandaríkjaher hafði viðveru á Íslandi annaðist herinn mikinn öryggis- og björgunarviðbúnaði á hinu gríðarlega víðfema hafsvæði í kringum landið. 

Ég hef áður bent á það að þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hefði uppi metnaðarfull áform um að bæta tækjakost Landhelgisgæslunnar á næstu árum og hefði stigið stór skref í því sambandi myndu Íslendingar einir aldrei geta sinn því hlutverki sem Bandaríkjamenn hafa sinnt við öryggis- og björgunarmál í Norður-Atlantshafi á síðustu áratugum.  Íslenska ríkið hefði einfaldlega ekki bolmagn til þess að tryggja allan þann tæknibúnað sem Bandaríkjamenn höfðu yfir að ráða efna eftirlits- og björgunarmála meðan þeir höfðu hér viðveru.

x x x

Þó svo að ýmsir hafi á sínum tíma fagnað brotthvarfi bandaríska hersins frá Keflavík þá má ekki gleyma því að Bandaríkjamenn hafa á síðustu áratugum sinnt eftirlits- og björgunarhlutverki sínu á þessu mikla hafsvæði með miklum sóma.  Sem dæmi má nefna að þær aðgerðir sem þeir hafa átt aðild að hafa bjargað um 300 mannslífum á síðustu 35 árum við Íslandsstrendur.

Í ljósi þeirrar staðreyndar þarf enginn að velkjast í vafa um mikilvægi öflugs eftirlits- og björgunarstarfs á hafsvæðinu í kringum landið enda verkefnið risavaxið.

x x x

skemmtiferdaskipFramundan eru nýir og spennandi tímar.

Allt stefnir í að á komandi árum muni siglingaleiðir í norðurhöfum opnast til mikilla muna, bæði norður fyrir Rússland og norður fyrir Norður-Ameríku.  Verði sú raunin mun siglingaleiðin milli Asíu og Norður-Evrópu styttast um helming.

Með þessum nýju siglingaleiðum er viðbúið að skipaumferð í norðurhöfum og umhverfis Ísland muni margfaldast frá því sem nú er, enda landið í alfaraleið á hinni nýju siglingarleið bæði fyrir skemmtiferðaskip og stór flutningaskip.

Opnist þessi nýja siglingarleið mun hún skapa gríðarleg tækifæri fyrir íslenskar hafnir og hafnarstarfsemi til þess að afla sér tekna, enda viðbúið að erlend skip leiti eftir þjónustu á langri leið sinni.  Að sama skapi skapa nýjar siglingaleiðir stórkostlega möguleika fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila vegna tíðra siglinga skemmtiferðaskipa um íslenska landhelgi.

Nú þegar hafa greiðari siglingaleiðir um norðurhöf haft sín áhrif, því samkvæmt upplýsingu sem fram komu á ráðstefnunni sem ég sótti í Alaska fjölgaði þeim ferðamönnum sem ferðuðust um Grænlandshaf á síðasta ári úr 22.000 í 55.000.  Og ef fram heldur sem horfir á þeim einungis eftir að fjölga.

x x x

En þessi nýju tækifæra hafa líka hættur í för með sér.

23ship5.533

Það verður ekki framhjá því litið að með aukinni umferð um hafsvæðin í kringum landið okkar má leiða líkur að því að hætta á því að slys eigi sér stað.

Hagsmunir okkar og þjóðanna í kringum okkur lúta að sjálfsögðu að því að vera í stakk búin til þess að bregðast við ef skemmtiferðaskip verða fyrir áföllum og mannslíf verða í húfi.

Fiskveiðiþjóð, eins og Ísland, sem á svo mikið undir nýtingu auðlinda hafsins, hefur ekki síður hagsmuni af því að vera vel í stakk búið til að bregðast við hugsanlegum mengunarslysum sem kunna að eiga sér stað á hafi úti, ekki síst ef umferð stórra flutningaskipa um lögsögu okkar mun aukast á næstu árum.

Það kann að verða dýrkeypt að vera ekki í viðbragðsstöðu komi slíkar aðstæður upp.

x x x

Af þessum ástæðum hef ég á vettvangi Norðurheimskautsráðsins lagt gríðarlega mikla áherslu á samstarf milli Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Rússlands og Kanadamanna um að efla eftirlit og björgunarstarf á norðurhöfum.

Af slíku samstarfi hafa sæfarendur hagsmuni og náttúran og þær auðlindir sem þar finnast kalla á slíkt eftirlit.

Íslendingar eiga að taka forystu á þessu sviði, enda eru hagsmunir okkar á þessu sviði gríðarlegir.  Með aðgerðum sínum á síðustu misserum hafa íslensk stjórnvöld sýnt frumkvæði og fyrirhyggju í þessum efnum með því að styrkja og efla starfsemi Landhelgisgæslunnar.

En betur á ef duga skal.  Það er mikilvægt að fleiri ríki komi með myndarlegum hætti að þessum mikilvægu verkefnum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Góður og fræðandi pistill, Sigurður Kári!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.8.2008 kl. 18:21

2 identicon

Þakka þér góðan pistil Sigurður.

Í þessum anda og undir foristu dómsmálaráðherra erum við hjá LHG að vinna. Meginverkefni okkar er að efla samstarf og samvinnu við nágrannalönd okkar og þá ekki hvað síst Bandaríkajmenn. Að þessu hefur verið unnið á síðustu misserum og gengur vel. Til þess að þetta geti orðið verðum við að koma okkur upp nothæfum búnaði og það er allt sömuleiðis í góðri vinnslu. Hvað varðar foristuhlutverk okkar Íslendinga þá eigum við svo sannanlega að vinna að því að það geti orðið í sem ríkasta mæli. LHG tekur til að mynda við foristu nú um miðjan september nýlega stofnuðum samtökum, North Atlantic Coast Guard Forum en það eru samtök 18 strandgæzlna og sjóherja ríkja sem eiga land að N-Atlanthafi.

Eins og þú nefnir er hér um að ræða gríðarlega hagsmuni, tækifæri og jafnframt ábyrgð. Öryggismál á hafsvæðinu eru ekkert einkamál okkar og því er afar mikilvægt að við höldum fullum dampi í viðleitni okkar til að efla samstarf og gera okkur hæf til samstarfs.

Kærar þakkir fyrir gott og frískandi innlegg

Georg Kr.Lárusson

Georg Kr. Lárusson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband