Framsókn skelfur og nötrar

frett_13_framsoknrefsarStaksteinar Morgunblaðsins í dag eru helgaðir Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, sem hefur á síðustu dögum ruðst fram á ritvöllinn og skorað á íslensk stjórnvöld að hefja nú þegar viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu.

Í Staksteinum dagsins rifjast höfundur þeirra upp hluta setningarræðu sem Jón flutti á 29. flokksþingi Framsóknarflokksins hinn 2. mars árið 2007 eða fyrir um 15 mánuðum síðan.  Í þeirri ræðu sagði Jón Sigurðsson meðal annars:

,,En við eigum sjálf að velja tímann til stefnuákvarðana um slík efni.  Og slíkar ákvarðanir eigum við að taka á grundvelli styrkleika okkar og eigin metnaðar sem frjáls þjóð.  Það er ekki sanngjarnt að kenna íslenzku krónunni um verðbólgu og háa vexti.  Fleira kemur til skoðunar í því samhengi.  Við teljum ekki tímabært að taka núverandi aðstöðu Íslands til endurmats fyrr en við höfum tryggt hér langvarandi jafnvægi og varanlegan stöðugleika í efnahags-, atvinnu- og gjaldeyrismálum.  Slíkt tekur ekki minna en 4-5 ár.  Á þeim sama tíma breytast væði samfélag okkar og Evrópusambandið sjálft og því eru langtímaákvarðanir um breytta stefnu ekki tímabærar nú.  Við höfnum því, að Íslendingar láti hrekja sig til aðildar vegna einhverra vandræða eða uppgjafar.  Við eigum sjálf að skapa okkur örlög, sem metnaðarfull og frjáls þjóð."

Þetta er þörf upprifjun hjá höfundi Staksteina og ekki að furða þó hann velti því fyrir sér hvort fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sé búinn að gleyma fyrri afstöðu sinni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu í ljósi þeirra skrifa sem birst hafa á síðum Morgunblaðsins síðustu daga.

Ekki hallast ég að því að Jón Sigurðsson hafi verið búinn að gleyma sínum eigin orðum þegar hann ritaði greinar sínar um aðild Íslands að Evrópusambandinu í Morgunblaðið.  Líklega hefur hann vonað að hans fyrri orð yrðu ekki rifjuð upp með þessum hætti, en hann var ekki búinn að gleyma þeim.

Það er ekki nokkur vafi á því að greinarskrif Jóns Sigurðssonar og skyndileg stefnubreyting hans hvað varðar aðild Íslands að Evrópusambandinu tengist djúpstæðum ágreiningi og innanflokksdeilum sem nú eiga sér stað innan Framsóknarflokksins.

Á þeim bænum logar nú allt í illdeilum þar sem hver höndin er uppi á móti annarri.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur alla tíð verið gallharður andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu og aldrei farið leynt með þá skoðun sína.  Það sama má segja um sveitunga hans, Bjarna Harðarson, þingmann flokksins, sem staðið hefur þétt að baki formannsins í þeirri málafylgju og hefur meira að segja gengið svo langt að senda trúnaðarmönnum Framsóknarflokksins trúnaðarbréf og kvartað yfir Evrópuáróðri áhrifamanna innan Framsóknarflokksins.

Fremst í þeim flokki hefur verið varaformaður flokksins, Valgerður Sverrisdóttir.  Valgerður hefur notað hvert tækifæri á þessu kjörtímabili til þess að stinga upp í formann sinn með því að ítreka þá afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu og nú tekur Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður flokksins í sama streng.  Bæði tengjast þau þeim armi í Framsóknarflokknum sem stóð hvað næst Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi formanni flokksins, sem á sínum síðari árum talaði mjög fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og gekk meira að segja svo langt að spá því á Viðskiptaþingi, líklega árið 2005, að spá því að Ísland yrði orðið aðili að sambandinu árið 2015.

Þessum armi Framsóknarflokksins hefur aldrei verið hlýtt til núverandi formanns, Guðna Ágústssonar, og reyna þau nú hvað sem þau geta til þess að veikja stöðu hans á formannsstóli.

Hvort tilgangurinn er sá að koma Valgerði í formannssæti Guðna skal ósagt látið.

Hitt er ljóst að á meðan þessum hjaðningarvígum gengur milli helstu áhrifamanna Framsóknarflokksins, skelfur flokkurinn og nötrar og ekkert virðist benda til þess að hann muni ná vopnum sínum á næstunni.

Það hlýtur að valda framsóknarmönnum miklum áhyggjum, enda hefur staða flokksins sjaldan eða aldrei verið jafn erfið og nú.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband