Bindandi álit eða ekki?

 

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í umræðum á Alþingi á miðvikudaginn að hann væri ósammála niðurstöðu Árna M. Matthiesen, fjármálaráðherra og setts dómsmálaráðherra, að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Í sömu andrá lýsti Lúðvík því yfir að hann hefði ekki lesið gögn málsins.

x x x

thumb_sivfridleifsÁ miðvikudagskvöldið mættust síðan í umræðum í Kastljósi þau Birgir Ármannsson, félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, og ræddu skipunina.

Í þættinum var Siv mikið niðri fyrir og lýsti því meðal annars yfir að settur dómsmálaráðherra hefði við skipan héraðsdómara verið bundinn að áliti nefndar sem mat hæfni umsækjenda.  Að minnsta kosti hefði ráðherrann verið bundinn því áliti að hluta.  Þessu hélt hún fram gegn andmælum Birgis.

x x x

Deila þessa máls snýst ekki síst um það hvort settur dómsmálaráðherra hafi við val sitt á þeim dómaraefnum sem sóttu um starfið, og voru taldir hæfir, átt að fara að áliti hinnar lögskipuðu dómnefndar eða ekki.

Mynd_0164092Sumir þeir sem hafa tjáð sig um þetta mál hafa haldið því fram að niðurstaða nefndarinnar hafi bundið hendur ráðherrans, en mér sýnist að þeim hópi tilheyri lögfræðingarnir Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson.  Aðrir, þar á meðal Siv Friðleifsdóttir, telja að álitið hafi bundið hendur ráðherrans að hluta, þannig að honum hafi borið að velja dómara úr hópi þeirra sem hæfastir voru taldir.

Þau þrjú eiga það sameiginlegt að geta ekki bent á þær lagareglur sem styðja þá skoðun þeirra. 

x x x

Við mat á því hvort svo sé er nauðsynlegt að skoða þau lög og þær reglur sem gilda við slíkar aðstæður.  Efni þeirra ræður úrslitum um það hvort álit nefndarinnar bindur hendur ráðherra eða ekki.

Eins og ég hef áður sagt á þessari heimasíðu þá er óumdeilt að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra skuli við skipun í embætti héraðsdómara fara að tillögum nefndar, sem samkvæmt lögunum á að fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara.  Í þeim reglum, sem settur voru á grundvelli laganna um störf nefndarinnar, segir:

,,Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara."

Þeir sem lesa lögin um dómstóla og þær reglur sem settar hafa verið um störf nefndarinnar sjá að þær eru alveg skýrar.  Ráðherrann er við val sitt á dómaraefnum ekki bundinn að niðurstöðu nefndarinnar, hvorki í heild né að hluta.  Um þetta erum við Birgir Ármannsson sammála, enda lýsti hann sömu viðhorfum í Kastjósinu á miðvikudaginn.

x x x

En þessar skýru reglur, sem ég hef hér vísað til, virðast hins vegar, af einhverjum ástæðum, ekki duga sumum þeim sem um þetta mál fjalla, þar á meðal nokkrum lögfræðingum eins og þeim tveimur sem hér hafa verið nefndir.  Og í opinberri umræðu virðist sem fjölmiðlafólk og aðrir sem þátt hafa tekið í henni séu í vafa um það hvort álit nefndarinnar bindi hendur ráðherra eða ekki.

Eftir að Birgir Ármannsson hafði lýst þeim viðhorfum sem við höfum haldið fram í þessu máli og hér er líst sagði Brynja Þorgeirsdóttir, stjórnandi umræðunnar í Kastljósinu:

,,Við höfum hringt í mjög marga lögfróða spekinga í leit að einhverjum sem styður þessi viðhorf sem þú meðal annars ert á ... .  Við höfum ekki fundið neinn ennþá ... ."

x x x

Nú er mér ekki ljóst hversu víðtæk þessi leit var sem Brynja lýsti í Kastljósinu né við hvaða lögspekinga var rætt.

Mér er hins vegar bæði ljúft og skylt að aðstoða Kastljóssfólkið við leitina.

Árið 1994 var gefið út afmælisrit tileinkað Gauki heitnum Jörundssyni, fyrrum umboðsmanni Alþingis og lagaprófessor, sextugum.

Í því riti birtust fjöldi gagnmerkra fræðigreina um lögfræði og ber ein þeirra yfirskriftina Álitsumleitan, en þar er fjallað um þær laga- og réttarreglur sem gilda varðandi álit eins og það sem nú er deilt um og þýðingu þeirra fyrir stjórnvöld.

Höfundur greinarinnar er Dr. Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, fyrrum prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sem ég held að fáir efist um að sé fremsti fræðimaður okkar Íslendinga á svið stjórnsýsluréttar.

Í greininni um Álitsumleitan á bls. 413 (í afmælisritinu), fjallar Dr. Páll um bindandi umsagnir en þar segir m.a.:

,,Þótt stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það tekur ákvörðun í máli, er umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins, nema svo sé fyrir mælt í lögunum."

Þessari fullyrðingu sinni til stuðnings vísar Dr. Páll til tveggja álita umboðsmanns Alþingis (skýrsla umboðsmanns Alþingis 1989, bls. 58 (79) og skýrsla umboðsmanns Alþingis 1990, bls. 158).

Síðan segir Dr. Páll:

,,Þegar mælt er fyrir um bindandi umsagnir í lögum, má segja að stjórnsýsluvaldi í viðkomandi málaflokki sé skipt milli þess stjórnvalds sem formlega tekur ákvörðunina og álitsgjafa (d. funktionel kompetencedeling).  Ýmist takmarka bindandi umsagnir úrlausnarmöguleika stjórnvalds eða binda hann alveg við eina niðurstöðu."

x x x

Það væri kannski eins og að æra óstöðugan að nefna það einu sinni enn að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra sé við skipun í embætti héraðsdómara bundinn við álit dómnefndarinnar og að í reglum sem um störf hennar gilda er sérstaklega tekið fram umsögn nefndarinnar bindi ekki hendur ráðherra.

Þegar inntak laga og reglna sem um þessi mál gilda og þær skoðaðar með hliðsjón af þeim fræðiskrifum Dr. Páls Hreinssonar sem hér hafa verið reifuð ætti öllum vangaveltum stjórnmálamanna, lögfræðinga og fjölmiðlamanna um þær reglur sem unnið er eftir við skipan héraðsdómara á Íslandi að ljúka.  Enda eru þær alveg skýrar.

Samkvæmt þeim hefur stjórnsýsluvaldi ekki verið skipt milli þeirrar dómnefndar sem álitinu skilaði og ráðherra, enda mæla lög ekki fyrir um að svo sé.

Mönnum er síðan frjálst að hafa skoðanir á því hvort þeim reglum eigi að breyta og þá hvernig.  En það er ófært að dregnar séu ályktanir og felldir dómar um embættisfærslur ráðherra, með þeim hætti sem til dæmis Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson hafa gert, á grundvelli réttarreglna sem ekki eru í gildi.

x x x

Að lokum þetta.

Árið 2006 var skipaður nýr dómari við Hæstarétt Íslands.  Fjórir sóttu um embættið.  Lögum samkvæmt gaf Hæstiréttur álit á hæfi og hæfni umsækjendanna fjögurra.  Meirihluti dómaranna við Hæstarétt taldi Dr. Pál Hreinsson hæfastan umsækjenda.

Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra á þeim tíma, skipaði hins vegar Hjördísi Hákonardóttur nýjan dómara við Hæstarétt þrátt fyrir að Dr. Páll væri talinn hæfari af hæstaréttardómurunum.

Í ljósi sögunnar er eðlilegt að spyrja:

Hvar voru þeir sem nú gagnrýna skipun Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara þegar Geir H. Haarde skipaði Hjördísi Hákonardóttur en ekki Dr. Pál Hreinsson dómara við Hæstarétt Íslands?

Af hverju höfðu menn ekki áhyggjur af sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu þá?

Af hverju sögðu Lúðvík Bergvinsson, Siv Friðleifsdóttir, Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson ekki orð á þeim tíma um embættisfærslur setts dómsmálaráðherra?

Skiptir kannski máli hvaða einstaklingur á í hlut hverju sinni?

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Vaknaðu Sigurður Kári

Hólmdís Hjartardóttir, 19.1.2008 kl. 00:35

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Man sauður hvar lamb gengur" segir gamalt máltæki.

"Ung var ek gefin Njáli" sagði Bergþóra forðum.

Og svona mætti lengi telja.

Árni Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 00:50

3 identicon

Ráðning Þorsteins Davíðssonar virðist hafa leyst úr læðingi uppsafnaða þörf þeirra sem hatast út í Davíð Oddsson til að koma nú á hann ærlegu höggi.  Langvinn þrá, sem hlaðist hefur upp alla götu síðan hann hætti í pólitíkinn fær nú kærkomna útrás með þessum hömlulausa hætti.   Og sælt er ætíð að svala sér en sumir kunna sér þó ekki hóf.  Davíð var jú maður sem andstæðingar hans elskuðu að hata og einnig gat hann skapað sér óvild í eigin röðum með óvægni sinni og jafn vel þjösnagangi og stigið á líkþorn og inngrónar táneglur sem fyrir honum urðu.  Nú grípa þeir sem harma eiga að hefna, tækifærið með því að leggja til atlögu við fjármálaráðherra vegna ráðningar hans á syni Davíðs, ráðningar sem reyndar má deila um.  Því öfgafyllri sem austurinn verður yfir ráðherra, þeim mun fleiri slettum hlýtur Davíð að verða fyrir, álíta menn.  Þeir sem sjást ekki fyrir, gleyma því þó að skítkastið atar þá sjálfa líklega meira, eins og ætíð gerist í svona slag.  Öll rökræða af skynsemi er löngu búin, í besta falli eiga sér stað leiðigjarnar endurtekningar staðreynda.  Þeir þrautakóngar þráhyggjunnar sem enn atast inni á vígvellinum eru löngu komnir niður úr sverðinum og velta sér nú upp úr aurnum.  Jafnvel sómakærir góðborgarar sem sitja ættu á friðarstóli og tala af hófsemd og miðla af visku ellinnar, hafi þeir á annað borð þörf fyrir að tjá sig, kasta grímu virðuleikans og missa götustrákinn, hömlulítinn, út í foraðið.   Svo langvinn var biðin sem sagt orðin eftir ærlegu biti að þeir langsoltnustu halda sem fastast í roðið, þótt löngu sé úr því allt það sem ætt var, kasta því á milli sín og japla á, til skiptis dag eftir dag, viku eftir viku og hvetur þar hver annan til dáða. 

Er ekki mál að linni?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 02:47

4 Smámynd: Þarfagreinir

Það hlustar enginn á þetta rugl lengur, Sigurður Kári.

Takið ykkur á!

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 02:55

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Takk Siggi fyrir þessa ítarlegu útlistun á því sem ætti að vera löngu orðið nokkuð ljóst!

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 02:59

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þarfagreinir, hrektu þetta.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 02:59

7 Smámynd: Þarfagreinir

Svo ég svari þessum annars ógeðfellda málflutningi samt sem áður.

- Það að eitthvað hafi verið innan einhverra lagaheimilda sem þið setjið ykkur sjálf þýðir ekki að það hafi verið í lagi. Þar fyrir utan verður aldrei hægt að binda siðferði og heilbrigða skynsemi í lög. Ef þið getið ekki druslast til að haga ykkur rétt án þess að vera beinlínis skikkuð til þess með lögum, hafið þið ekkert að gera með það að vera fulltrúar okkar þjóðarinnar.

- Það að eitthvað svipað hafi ekki verið gagnrýnt áður eru nákvæmlega engin rök í neinu. Það hefur ekkert með þetta mál sem er núna til umræðu að gera.

- Ráðning Þorsteins var bara allt of augljós. Það hefur aldrei gerst áður að álit ráðgjafa hafi verið hundsað svona gersamlega. Allur fyrri samanburður er ómarktækur, og getur ekki verið til þess annars fallinn en að misleiða.

Skammastu þín fyrir að reyna að verja það sem ekki er hægt að verja með ógeðfelldum áróðri.

Og Sigurjón Pálsson, þú ættir kannski að vera að ræða þá stefnu, sem dómsmálaráðherrann hefur opinberað, um afmáningu þrískiptingar ríkisvaldsins, í stað þess að þrugla um eitthvað hatur á Davíð. Þú segir "Öll rökræða af skynsemi er löngu búin" - ég tek undir það, en bara fyrir ykkar leyti.

Þið hvorki viljið né getið rætt málin á málefnalegum og efnislegum forsendum. Ljúgið þess í stað og blekkið.

Þið eruð siðferðilega gjaldþrota. Öll ykkar.

Nú hlýtur að vera mál að linni. 

Mér er alveg sama hvernig ég dæmist af þessum orðum. Hvaða réttsýn manneskja sem er ætti að geta séð hvað þið eruð að gera okkur þjóðinni. Einhver verður að segja þetta, og hví þá ekki ég?

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 03:06

8 Smámynd: Þarfagreinir

Og já - Hjörtur. Þú lést víst banna Ólöfu Magnússon af blogginu þínu, þó hún hafi ekki haldið neinu uppi en málefnalegum málflutningi, að mér skilst. Ekki hef ég ástæðu til að rengja hana.

Þið eruð komnir í það massífa vörn að það er ekki fyndið.

Er virkilega enginn í flokknum ykkar sem berst gegn ykkur af alvöru? Ég ætla rétt að vona að svo sé.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 03:08

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þvílíkur málflutningur Þarfagreinir. Hvað Ólöfu áhrærir var ég búinn að vara hana við því að sleppa persónulegum ávirðingum sem hún gat víst ekki staðizt. Því fór sem fór og hafði ekkert með skoðanir hennar að gera. Ef sú væri raunin væri ég væntanlega búinn að loka á fleiri. Sjálfur er ég annars ekki í neinni sérstakri vörn, en hins vegar er ljóst að ákveðin móðursýki og múgæsing hefur einkennt málflutning mergra þeirra sem gagnrýnt hafa þá skipun sem hér um ræðir.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 03:17

10 Smámynd: Þarfagreinir

Ég er pollrólegur. Mæli svo með að fólk lesi pistla mína á bloggi mínu.

Tek annars eftir því að þú svarar engu af því sem ég hef fram að færa efnislega. 

Ég hef talað - í bili. 

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 03:28

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Innlegg þitt hér að ofan bendir ekki til neinna rólegheita heldur einmitt að sá sem það skrifi sé í einhverju uppnámi. Mér þykja þessi skrif þín einfaldlega dæma sig sjálf og sé enga ástæðu til að svara slíkum æsingarskrifum. Sumu svarar maður einfaldlega ekki.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 03:30

12 Smámynd: Þarfagreinir

Mín skrif dæma sig sjálf já - því er ég sammála. En nú er ég farinn að sofa.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 03:32

13 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

umsækendur eru ekki að taka próf þeir eru að sækja um stöðu,basta,aðeins einn ræður veitingu hennar,Árni Matthisen,margir nótmæla með sadiistiskum nautnabrima það er ljótt Þorsteinn er ráðinn. Ég er líka farin að sofa,góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 19.1.2008 kl. 05:45

14 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

...það er ekki eins og þetta sé í fyrsta sinn sem opinber ráðning er gagnrýnd. Kannski er þetta einfaldlega dropinn sem fyllti mælinn. Finnst það líklegri skýring en þessi smjörklípa um meintan hatursverknað gegn Davíð. Davíð situr pollrólegur í sínum Seðlabanka og kemur þessu ekkert við. Þorsteinn er sjálfstæð persóna og ágæt sem slík. Leiðinlegt fyrir hann að standa í miðju ófriðarbálinu fyrir það eitt að sækja um starf. Held það sé kominn tími til að breyta þessu ferli í t.d. svipað ferli og hjá nágrannaríkjunum.

Páll Geir Bjarnason, 19.1.2008 kl. 07:30

15 identicon

Sigurður vitnar til þess: að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra sé við skipun í embætti héraðsdómara bundinn við álit dómnefndarinnar og að í reglum sem um störf hennar gilda er sérstaklega tekið fram umsögn nefndarinnar bindi ekki hendur ráðherra.

Þannig talar þjófur. Að greinahöfundur þessarar greinar með lögfræðimenntun láti vera að skýra frá  hugbúnaði þeim sem ræddur er við gerð laga sýnir að hann með þá menntun sem hann hefur, vísvitandi með menntun sína að vopni lýgur.

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 13:12

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel gæti ég skilið Sigurð Kára, ef hann þurrkaði út jafn-óverðuga athugasemd eins og þá, sem einhver nafnlaus "ee" skildi hér eftir kl. 13:12, þar sem greinarhöfundur er, án minnsta rökstuðnings, kallaður "þjófur" (!!!) og ljúga "með menntun sína að vopni". Til þess að umræðan geti kallazt verðug, eins og málefnið verðskuldar, þurfa menn að beita rökum. – En þrátt fyrir þessi orð mín er ég fjarri því að vera sammála hinum víðtæku ályktunum flokksbróður míns Sigurðar Kára í pistlinum. – Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 13:37

17 identicon

"Skiptir kannski máli hvaða einstaklingur á í hlut hverju sinni?"

Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta sinn sem skipan í embætti er umdeild, þó það hafi ekki verið stormur í kringum Hjördísi og Pál.  En varðandi það hvort það skipti máli hvaða einstaklingur á í hlut þá finnst mér sjálfstæðismenn og fjölmiðlafólk helst setja það fram þannig og persónugera þetta mál - vegna þess hver það var sem skipaður var í stöðuna hér.  Þeir sem gagnrýna er mun minna að persónugera málið og vilja breytingar á meingallaðri framkvæmd.  Fyrir utan sóun á tíma og peningum að halda úti marklausum nefndum.

Það ætti að fjalla um þetta mál án nafna/persóna sem sóttu um - jafnvel setja inn tilbúin nöfn:  Jón A, Jón B, Jón C osfrv.  Það sem um er deilt kemur þeim í raun ekki við.  Hefði Jón B verið skipaður í starfið ef nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að Jón C hefði verið hæfastur, þá Jón A, svo Jón D og svo Jón B?

Halldóra Tr. (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 13:38

18 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

EE:
En stórmannlegt af þér að ráðast með þessum með svo ómálefnalegum hætti á nafngreindan einstakling í skjóli nafnleyndar.

Jón Valur:
Þú gagnrýnir hinn nafnlausa EE réttilega og nefnir að sama skapi réttilega að ræða beri þetta mál með rökum. En síðan færir þú engin rök sjálfur fyrir þeirri staðhæfingu þinni að ályktanir Sigurðar Kára séu "víðtækar" sem verður að teljast einkar athyglisvert.

Halldóra:
Það sem augljóslega vakir fyrir Sigurði Kára er að velta fyrir sér hvers vegna gagnrýndur þeirrar skipunar sem hér um ræðir skuli sjá ríkari ástæðu til að beita sér gegn henni en öðrum slíkum sem staðið var að með sama hætti. Það eina sem getur skýrt þá framgöngu er að það skipti viðkomandi aðila máli hver á í hlut að þessu sinni.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 14:25

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjörtur minn, ég átti bara eftir að gera grein fyrir þeim rökum mínum hér, þau koma, hafðu engar áhyggjur, en ég var upptekinn við eigin nýja vefgrein um þetta mál áðan og er enn upptekinn við annað í bili. – Með góðri kveðju til þín, samherji!

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 14:36

20 Smámynd: Þarfagreinir

Það sem vakir fyrir Sigurði Kára er að drepa málinu á dreif með því að skjóta sendiboðann, Hjörtur. Ég get alla vega ekki litið öðru vísi á málið.

Ég endurtek, að allur fyrri samanburður er ómarktækur. Það finnast engin eldri dæmi þess efnis, að ráðherra hafi tekið svo augljóslega ranga ákvörðun, byggða á allt annarri hugmyndafræði en þeirri, að skipa þann hæfasta í starfið.

Og aftur - það að eitthvað hafi ekki verið gagnrýnt áður hefur ekkert með neitt að gera, málefnalega séð. 

Þegar litið er til þess að Björn Bjarnason hefur síðan á bloggsíðu sinni opinberað þá hugmyndafræði sína, að ráðherra eigi að hafa algjörlega frjálsar hendur við val á dómurum, til að tryggja að þeir dæmi eftir lagabókstafnum eingöngu, og séu þar með algjörlega valdlausir, er ekki hægt annað en að setja þau ummæli hans í samhengi við ráðningu Þorsteins.

Af hverju sér enginn ykkar ástæðu til að gefa álit sitt á þessari hugmyndafræði dómsmálaráðherrans? Mér þykir það mun alvarlegra mál en skipun Þorsteins - þó það sé nú nógu alvarlegt mál líka.

Hjörtur?

Sigurður Kári?

Einhver? 

P.S. Ég mæli enn og aftur með að fólk smelli á 'nafn' mitt hér fyrir neðan og kynni sér pistla mína.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 14:43

21 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Ég verð að segja að mér blöskrar hvernig talað er um Þorstein Davíðsson. Árni Matthiesen settur dómsmálaráðherra valdi Þorstein vegni hæfni hans og reynslu í þessum málum. Hann er vel kominn að þessu embætti og ég vona að hann fái að gegna því lengi og vel.

Davíð Oddsson faðir Þorsteins sagði að umfjöllunin um embættisveitinguna væri það ljótasta sem hann hefði séð á sínum ferli. Það er greinilegt að Þorsteinn líður fyrir það af hálfu andstæðinga Davíðs að vera sonur hans. Við búum í frjálsu og lýðræðislegu landi, og því á það ekki að vera manni byrði hvers sonur maður sé.

Dómsmálaráðherra er ekki bundinn áliti nefndarinnar sem fjallar um hæfi umsækjenda, enda er það hann sem að er lýðræðislega kosinn á þing til að til að taka slíkar ákvarðanir.

Ég bið andstæðinga Davíðs að vera ekki með svona málefnislausar rugl-athugasemdir í garð Þorsteins.


Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 19.1.2008 kl. 14:49

22 Smámynd: Þarfagreinir

Hvar er hér að finna "málefnislausar rugl-athugasemdir í garð Þorsteins", Auðbergur minn?

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 14:50

23 Smámynd: Þarfagreinir

Annars er dómsmálaráðherra ekki lýðræðislega kosinn á þing til að taka allar ákvarðanir. Það er mikil einföldun, sem ég nenni ekki að árétta í lengra máli en ég hef nú þegar gert á bloggsíðu minni.

Þarfagreinir, 19.1.2008 kl. 14:52

24 identicon

Akkúrat Þarfagreinir, það er sérstaklega athyglisvert að menntaðir menn, þá sérstaklega í lögfræði eins og Sigurður Kári er, reyna að leiða alla athygli að öðru en faglegum þáttum lögfræðinnar, þ.e.a.s. þeim hugbúnaði sem liggur sem grunnur fyrir gerð laga.

Á þann hátt er honum ekki treystandi að sinna ábyrgðarstöðum í stjórnarmálum, þar sem að hann svo augljóslega notar menntun sína til að réttlæta siðspillingu ráðherra.

Hvernig stendur á því til dæmis að Þorsteinn tekur þegar til starfa um það bil tíu dögum eftir að ráðning er kynnt. Samkvæmt heimildum er þriggja mánaða uppsagnarfrestur hjá opinberum fyrirtækjum. Væri gott að fá skýringu á þessu.

Með að tilvísa til þjófs er ég að vitna til orðháttar, þ.e.a.s. að afsaka hátterni/aðferðir með því að vitna til laga um að það sé ekkert sem segi að megi ekki gera vissa hluti. Var  svona erfitt að skilja þetta?

Þannig virðist eins og hann lúti meira að mælinu: með lögum skal lög brjóta, þar sem að hann lætur vera að - sem menntaður maður - ræða þá grundvelli sem voru gerðir til stofnun laga um dómnefnd.

Á þann hátt niðurlægir hann lögfræðistétt sína líka.

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 15:17

25 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var langsóttur "þjófnaðar"-áburður, hr. eða frú "ee".

Jón Valur Jensson, 19.1.2008 kl. 16:05

26 identicon

Til Jenssonar: búinn í barnaskóla?

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 16:34

27 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Þarfagreinir: Það að vera að segja að Þorsteinn hafi hlotið stöðuna fyrir að vera sonur Davíðs Oddssonar er auðvitað málefnislaus rugl-athugasemd.

EE: Þú gætir nú sýnt af þér örlitla sjálfsvirðingu með að vera ekki að vera með svona leiðindi út í eðalmanninn Sigurð Kára undir nafnleysi. Sigurður Kári er fluggáfaður maður og á ekki skilið svona óvirðingu.
"Á þann hátt er honum ekki treystandi að sinna ábyrgðarstöðum í stjórnarmálum" Þetta er nú eitt það mesta bull sem ég hef heyrt, Sigurður Kári á fyllilega skilið að vera í ábyrgðarstöðu í stjórnmálum og í raun finnst mér að hann ætti að fá að gegna enn stærri ábyrgðarstöðum. Honum er treystandi annað heldur en afturhaldinu sem að útfrá skoðunum þínum, þú greinilega kýst.


Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 19.1.2008 kl. 17:09

28 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Ég vil benda á grein eftir mig um forsetaembættið og Davíð Oddsson sem ég skrifaði nú á dögunum.


Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 19.1.2008 kl. 17:12

29 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sjálfstæðisflokkurinn er orðinn gerspilltur.. ástæða þess að bloggheimar og fólk almennt í landinu mótmælir hástöfum gerðum hrossalæknisins úr hafnarfirði er sú að þjóðin er orðin langþreitt á vinapólitik, ætternispólitík og almennri spillingu í krafti fámennis.

Óskar Þorkelsson, 19.1.2008 kl. 17:50

30 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þarfagreinir:
Það sem vakir fyrir Sigurði Kára í raunveruleikanum, en ekki í höfðinu á þér, er augljóslega að leggja áherzlu á ákveðnar staðreyndir sem koma þessu máli að öllu leyti við. En það hefur alltaf verið erfitt að ræða málin af einhverju viti við fólk sem telur sig hafa höndlað hinn eina sanna sannleika.

Óskar:
Þú værir kannski til í að upplýsa okkur um það með hvaða umboði þú telur þig geta tjáð þig um eitthvað fyrir hönd þjóðarinnar? Hefurðu þó ekki nema einhver rök fyrir þessum yfirlýsingum þínum? Nú er í gangi undirskriftasöfnun á netinu, sem verið hefur í gangi í viku og var rækilega kynnt af fjölmiðlum í upphafi, sem hefur fengið afar dræmar undirtektir og þá ekki sízt í ljósi yfirlýsinga eins og þeirrar sem þú berð hér á borð.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 18:21

31 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hjörtur ertu semsagt að segja að þjóðin vilji vinapólitík og ætternispólitík eins og sjálfstæðisflokkurinn stundar af miklum móð ?

Óskar Þorkelsson, 19.1.2008 kl. 18:46

32 identicon

Undirskriftarsöfnun á netinu var eyðilögð, þar sem að hún var rækilega kynnt á þann háttinn að hver sem er gæti skrifað þar. Þannig kom sú frétt út að það væri ekkert vit að skrifa þar. Það eru alltaf einhverjir sem reyna að sjá til að skemma ef þjóðarbúar hafa áhuga á því að reyna að koma mótmælum til vegar.

Spilling og aftur spilling, það er einkenni þessa flokks. Hvernig var það ekki þegar að Eiríkur Stefánsson var að hvetja fólk til að mótmæla kvótakerfinu á útvarpi Sögu og manaði fólk til að leggja leið framhjá Alþingishúsinu og flauta til að koma mótmælum sínum á framfæri, einmitt þann dag sem að þing var sett.

Nokkrum tíma áður og þegar þetta var komið fram í fjölmiðlum, aðallega Sögu, kom Björn Bjarnason með uppástunguna að hækka laun lögreglumanna með 30% - ath. frá og með 3.október, sama dag og þingsetning átti að fara fram.

Þetta hefur örugglega verið tilviljun..................það getur nú ekkert verið neitt annað..........eða hvað..........

En hér var lögreglu í stöðu peða fyrir ríkisstjórnina með Björn í broddi.

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 20:39

33 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Óskar:
Ég er að segja að við vitum ekkert um það hvað þjóðin vill í þessum efnum.

EE:
Þeir verða sennilega alltaf til sem þykir einkar þægilegt að kenna öðrum um eigin ófarir.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 21:28

34 identicon

Þjóðfélagið hefur þróast óhuggulega síðusta áratug og virðist sem þessi ráðning sé ekki svo óvenjuleg aðferð hjá ráðandi og fyrrverandi ráðahöfum.

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 22:10

35 Smámynd: Karl Ólafsson

Áður en lengra er haldið er rétt að þakka og virða við síðuritara þessarar síðu, þingmanninn Sigurð Kára, það hugrekki að hafa opið á athugasemdir við færslur sínar. Vissulega getur slíkt oft kallað á ómálefnaleg og jafnvel meiðandi framíköll, en fólki gefst þó líka kostur á að koma á framfæri rökstuddum skoðunum sínum í von um að í einstaka málum geti menn kannski séð að sér og viðurkennt að e.t.v. geti önnur sjónarmið en hrein og klár 'flokkslína´ átt rétt á sér.

Hvað varðar málflutning Sigurðar Kára hér, sem og í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum þá er hann afar veikur hvað rök varðar og tekur aðeins á fáeinum atriðum málsins. Reyndar er Sigurði meira í mun að benda á veikleika í rökum gagnrýnenda en koma með sterk eigin rök, önnur en þau sem standa jú vissulega í lagabókstafnum. Í lok færslu sinnar segir Sigurður:
"En það er ófært að dregnar séu ályktanir og felldir dómar um embættisfærslur ráðherra, með þeim hætti sem til dæmis Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson hafa gert, á grundvelli réttarreglna sem ekki eru í gildi."
En hvað er svona ófært við þetta og hvaða réttarreglur eru það sem ekki eru í gildi? Það sem Ástráður og Freyr eru ósáttir við, að því er ég best fæ skilið, er að rökstuðningur ráðherra, sem honum bar að skila, hvað hann og gerði, er að þeirra mati ekki fullnægjandi og verður að segjast eins og er að ansi margir hafa lýst sig sammála því sjónarmiði.  Þeir felldu enga dóma, enda hafa þeir ekki til þess vald. Aðeins dómstólar hafa það vald og Ástráður benti á að það gæti gerst, kysi einhver umsækjenda að kæra skipunina, að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að skipun dómarans væri ólögmæt. En aðeins dómstóll getur skorið úr um slíkt, Sigurður Kári getur það ekki, hversu oft sem hann heldur fram sínum rökstuðningi, Sigurður Líndal, Ástráður og Freyr geta það ekki heldur.

Það er alveg rétt vitnað í lög hjá Sigurði Kára að mat nefndarinnar margumræddu er ekki bindandi fyrir ráðherra við skipun dómara. Það eru hins vegar líka til lög (ég viðurkenni hér leti mína við að fletta upp númerum laga og vísa orðrétt í þau; það hefur verið gert ítrekað af öðrum bæði í bloggum og í fjölmiðlum) sem fjalla um 'misbeitingu valds'. Sjálfur hef ég bent á þann möguleika á mínu bloggi að til þess að fá skorið úr um stuðning þingheims við embættisfærslu setts dómsmálaráðherra geti þingmenn lagt fram vantrauststillögu á ráðherrann. Reyndar var það Birgir Ármannsson sem gaf mér þá hugmynd í hans rökum í Kastljósinu í vikunni, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að ráðherrar bæru ábyrgð á embættisfærslum sínum gagnvart Alþingi og svo gagnvart kjósendum sínum. Hann veit sem satt er að það þarf ansi mikið til í þessu litla þjóðfélagi okkar að látið sé reyna á ábyrgð ráðherra fyrir þingi, auk þess sem minni kjósenda er náttúrulega gjarnan líkt við minni gullfiska.

En það að gjörð setts ráðherra hafi verið innan valdmarka hans m.t.t. lagabókstafs gerir gjörninginn ekki réttari eða betri. Það sem situr í mönnum er að rök setts ráðherra, m.a. að um mistök í mati nefndarinnar, eru afar veik og halda ekki vatni. Það að fara háðslegum orðum um þá álitsgjafa sem fjölmiðlar hafa kallað til og jafnvel níða niður mannorð þeirra bætir ekki málstaðinn. Það bætir heldur ekki málstaðinn, fyrir hvoruga fylkinguna að blanda þeim sem dómaraembættið hlaut eða fjölskyldu hans í málið. Flestir þeir sem málefnalega hafa fjallað um þetta mál með gagnrýnum hætti á skipun setts dómsmálaráðherra hafa einmitt tekið fram að málið snúist ekki um persónur og leikendur heldur þá staðreynd að matsnefndin setti þann sem skipunina hlaut tveimur flokkum neðar heldur en þrjá aðra umsækjendur og það með rökum.

Settur dómsmálaráðherra hefur látið hafa eftir sér og aðrir endurtekið eftir honum að nefndin hafi ætlað sér of mikil völd og eigi ekkert með að raða umsækjendum þannig upp. Þessi rök hafa ekki staðist skoðun og hafa verið hrakin þar sem ljóst er að nefndinni er beinlínis ætlað, eftir atvikum, að gera einmitt þetta. Nefndin hefur því miður kosið að elta ekki ólar við rangfærslur ráðherra í greinargerð sem hann sendi frá sér til að svara greinargerð dómnefndarinnar.

Það sem stendur upp úr þegar svona illa rökstudd embættisfærsla á sér stað er að það setur að fólki þann grun (og oft meira en grun) að niðurstaða vals ráðherra á umsækjanda sé fyrirfram ákveðin. Og það er alveg sama hversu oft ráðherra kemur fram og hversu oft þeir fáu sem nenna að styðja við bakið á málflutningi hans koma fram með sömu tuggurnar, fólk trúir því ekkert betur að ekki hafi verið búið að ákveða þetta fyrirfram. Fólk er nefnilega ekki allt saman fífl og lætur ekki telja sér trú um hvað sem er.

Að lokum við ég benda mönnum á að lesa all nokkrar bloggfærslur Jóns Vals Jenssonar um þetta mál. Skoðanir Jóns Vals eiga ekki samleið með minni sannfæringu í flestum málum, en samantekt hans á atriðum þessa máls og röksemdafærsla er ansi skotheld.

Karl Ólafsson, 19.1.2008 kl. 22:33

36 identicon

Til Karls Ólafssonar:  Áhugaverð grein hjá þér Hlyna

ee (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 00:16

37 identicon

Þetta (hér fyrir neðan) eru síðustu spurningarnar af nokkuð mörgum sem ég beindi til Hjartar, og kvaðst síðan á sama máli og heimspekimenntaður maður sem benti okkur lesendum, mjög skýrt, á mýgrút af rökvillum í máli Hjartar, og taldi Hjört hafa gott af að læra rökfræði (sem ég hef reyndar gert og sé því, held ég, nokkuð glögglega þegar menn fara út af sporinu í röksemdafærslum).

Það virðist sama hvað skýrar og einfaldar spurningar maður, allavega ég, legg fyrir Hjört, hann kýs ævinlega að fara út í aðra sálma, tæknisálma.

Nú eða semsagt loka fyrir athugasemdir til að losna í eitt skipti fyrir öll við erfiðar spurningar.

Og dæmi nú hver fyrir sig (af spurningunum hér fyrir neðan), hvort þeir telji líklegra að Hjörtur hafi lokað á mig vegna orðbragðs eða vegna hins að honum væri svara fátt.

Spurningar (af síðu Hjartar) til Hjartar: 

"Ein lítil spurning, köllum hana tæknilega, því Hjörtur hefur jú einungis áhuga á tæknilegri hlið málsins:

ef Kristján ráðherra (hann er jú norðanmaður) hefði verið látinn velja dómarann og valið Þorstein og líst því yfir í mörgum viðtölum að hann teldi dómnefndina alls ekki vanda sínum vaxna í þessu máli, hefði þá einhver landsmaður ástæðu til að hugsa: ja íþróttakennarinn hlýtur að vera betur til þess fallinn að meta hæfni lögfræðinganna en nefnd lögspekinga.

Ég spyr þig Hjörtur sem ert áhugamaður um tæknilegar hliðar málsins (en ekki verjandi þess): fyndist þér það ljótt mál (eins og Davíð orðar það), fyndist þér það óeðlilegt ef menn leyfðu sér að efast allverulega um burði íþróttakennarans til að hafa vit fyrir nefndinni?   

Þætti þér einboðið að landsmenn tækju gott og gilt að íþróttakennaranum "fyndist" Þorsteinn vera hæfari en hinir þrír sem lögspekinganefndin færir ítarleg rök fyrir að séu langtum hæfari?    

Dýralæknirinn hefur, að ég hygg, jafn mikla menntun í lögfræði og íþróttakennarinn: enga.

Ímyndum okkur jafnframt í þessu dæmi Hjörtur að Kristján væri D-maður, svo fólk myndi - kannski alveg ósjálfrátt - leiða hugann að því að ef til vill hefði pólitík spilað þarna obbó obbó obbó litla rullu."

olof magnusson (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 01:20

38 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá þér, Ólöf, dæmisaga sem hittir í mark.

Jón Valur Jensson, 20.1.2008 kl. 03:39

39 identicon

Þetta (athugasemd mín hér að ofan) er, segjum, þrígreind spurning: þrjár skýrar spurningar, sem ég beindi til Hjartar, spurningar sem liggur beint við að svara já eða nei.

Nú eða .... loka á frekari spurningar, eins og Hjörtur altso kaus, skýringalaust; ég tala ekki djöfullegra mál en svo að guðfræðingurinn Jón Valur skartar öllum mínum ljótustu orðum á sinni síðu - sem rökum en ekki persónulegum ávirðingum.

Enda, eins og ég hafði ítrekað bent Hirti skýrt á, er orðum mínum eins og "labbakútismi" og "ofstæki" beint að þeirri pólitík sem ráðning þessi, og vörn hennar, á, að mínu mati, rætur í, en þessi orð alls ekki persónulegar ávirðingar í garð Hjartar - sem ætti jú síst að taka þau til sín þar eð hann þvertekur fyrir að vera einn af verjendum málins, þótt hann hafi á því ódrepandi tæknilegan áhuga.

olof magnusson (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 11:25

40 Smámynd: Þarfagreinir

Hjörtur hefur sagt að við vitum ekkert hvað þjóðin vill í þessum efnum. Það finnst mér lýsandi fyrir viðhorfið ... "Við gerum það sem við viljum svo lengi sem þjóðin kvartar ekki of mikið, og við höldum okkar fylgi."

Er þá virkilega ekki tími til kominn að kjósendur Sjálfstæðisflokksins sýni flokknum, hvar þeir telja mörkin liggja? Mér dettur t.d. í hug næsta skoðanakönnun, sem hlýtur ekki að vera langt undan.

Þögn fjölmiðla í þessu öllu saman er síðan hrikalegt umhugsunarefni - og gildir þá einu sá viðsnúningur sumra, að það séu bara fjölmiðlar sem halda málinu á lofti. Mér hefur einmitt sýnst almenningur hafa staðið sig mun betur í að draga fram staðreyndir málsins. Mér sýnist sífellt minni og minni ástæða til að telja að fjölmiðlar séu í raun fjórða valdið - sem er þá nú líklega viðeigandi miðað við að nú stefna sumir að því að þjappa hinum hefðbundnu þremur 'völdum' í eitt. Hví þá ekki að hafa fjórða valdið með í þeirri súpu? 

En þetta er allt í lagi ... lýðurinn spáir líka ekki í svona hlutum, sérstaklega ekki þegar fjölmiðlar þegja ... 

Svo lengi sem Flokkurinn fær sitt, þá er þetta í lagi. Stóra spurningin er þá sú hvort hann heldur sínu í þetta skiptið. 

Þarfagreinir, 20.1.2008 kl. 15:22

41 identicon

Sé það svo að Árni hafi haft rétt - haft óskorað vald - til að velja Þorstein (Ástráður hæstaréttarlögmaður segir hann ekki hafa haft rétt til þess), þvert oní úrskurð nefndar sem sett er til að stuðla að því að almannahagsmunir (þrískiptingin) séu virtir, þá má spyrja hvort verjendur málsins telji að í öðrum málum sem varða hagsmuni þjóðarinnar sé eins sjálfsagt og þeim finnst í þessu máli að ráðherra, sem hefur jú lögvarið umboð, fari með vald sitt eins og honum sýnist.

Ráðherra hefur vald til að leiða þjóðina í ógöngur. 

En geri hann það, er þá alveg sjálfsagt - eins og mörgum finnst sjálfsögð þessi ráðning sem "almannahagsmunanefndin" fordæmir - að  fólk yppi bara öxlum og segi: nú það er  ekkert við þetta að athuga, maðurinn hefur jú vald til að gera þetta, og vilji hann leiða þjóðina í ógöngur þá er það bara hans mál, því lagabókstafurinn segir jú að hann hafi réttinn til ákvörðunar í málinu.

olof magnusson (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 16:02

42 Smámynd: Þarfagreinir

Sigurður Kári hefur oft sagt að það megi deila um hvort breyta megi lögunum. Hann hefur þó aldrei gefið sitt persónulega álit á því.

Þá er ég með lausn á þeim vanda - breytum lögunum þannig að ráðherra er beinlínis skyldaður til að velja alltaf einhvern úr hópi þeirra,  sem nefndin telur hæfasta. Svona fyrst menn vilja halda sig við það að öll nánast mannleg samskipti og stjórnsýsla eigi að fara fram samkvæmt ítarlegum lagabókstaf, og að eina leiðin til að breyta því hvernig ráðherrar vinna sé að breyta lögum, til að skikka þá til.

Þetta tekur að vísu ekki á rót vandans, sem er það hættulega viðhorf breyskra manna, að umboð frá kjósendum gefi þeim fullt vald til að breyta ávallt eftir eigin sannfæringu, óháð öðrum hagsmunum - en það alla vega leysir þessa leiðu lagadeilu sem verið er að setja á svið til að afvegaleiða umræðuna.

Þarfagreinir, 20.1.2008 kl. 17:04

43 identicon

Fara ráðherrar offari í embættisveitingum?

Já, tvímælalaust
59%
Já, sumir
26,5%
Veit ekki
2,8%
Nei, er sammála þeim
11,4%

Hér ofan er skoðanakönnun gerð á rafblaðinu Skessuhorni.

Ef taka má saman flokkana tvímælalaust + sumir þá er niðurstaðan þó nokkuð há., þe.a.s. fara ráðherrar offari? og/eða fara sumir ráðherrar offari?

Niðurstaðan segir þó nokkuð, en taka ber fram að það er örugglega hægt að því við að hér getið fólk  - kosið í fleiri skipti eða eitthvað á þá leið. Þannig gæti það verið mikilvægt að þessar skoðanakannanir, til að hafa gildi, séu pottþéttar að því leiti að útiloka þannig lagað og jafnframt að ábyrgð ritstjórn skýri frá því svo að þær fái þýðingargildi.

Svo er líka spurn, láta valdhafar og ráðandi svona kannanir hvort sem er ekki fram hjá eyrum sínum þjóta. Á almenningi er ekki hægt að taka neitt mark - virðist vera ríkjandi álit margra.

ee (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 19:37

44 Smámynd: Halla Rut

Hef alltaf álitið þig heiðvirðan mann Sigurður og eru mér mikil vonbrigði að sjá að þú styðjir þessa ráðningu. Ég hefði þagað og haldið heiðrinum. þetta er ekki þér sæmandi.

Vaknaðu Sigurður Kári, þú ert ungur maður í stjórnmálum, ekki taka þátt í þessu mikilmennskubrjálaði gömlu karlanna sem telja sig vera límda í stólana sína og yfir alla hafðir.

Halla Rut , 21.1.2008 kl. 14:34

45 identicon

Sammála þér Halla Rut; ég, hægri maður, hafði haft fram að þessu trú á Sigurði Kára: að hann væri maður sem tæki tvímælalaust þjóðarhagsmuni, eins og til dæmis vafalausa þrískiptingu, fram yfir hagsmuni flokksins - eða, hvað skal segja, einhvers valdamikils manns í flokknum; já því reyndar getur enginn látið sér til hugar koma að þetta mál sé flokknum til framdráttar.

    Hugsum okkur til dæmis að fyrir næstu kosningar séu 20.000 manns á báðum áttum hvort þeir styðji D eða ekki.

   Hvað ætli margir þeirra hugsi sem svo:

   1) Árni sýndi, eins og sumir D-menn bentu á, aðdáunarvert sjálfstæði með ráðningu Þorsteins.

   2) Árni sýndi fram á, með  sannfærandi rökum, að hann, sem enga menntun hefur í lögum er engu að síður hæfari en nefnd virtustu lögspekinga til að meta hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu, og bætti  Árni þar við sig skrautfjöður - ósvikinni.

   3) Með ráðningu Þorsteins varð Árni og allir þeir D-menn sem styðja ráðninguna flokknum til slíks sóma að ég læt mál þetta ráða úrslitum um það að ég - sem var óákveðin/n - kýs D.

   Líklegt má teljast, í það minnsta meðan ekki koma fram fullorðinsrök fyrir ráðningunni, að enginn af þessum 20.000 kjósendum myndi hugsa á þeim nótum sem hér er lýst. Myndi það benda til þess að kjósendur þessir væru of heimskir til að meta málið réttilega?  

   Halla Rut: ég hef talað við marga D-menn sem þykir sem öll forysta flokksins sé ónýt orðin, já þar með allir þingmenn flokksins, með stuðningi sínum við þetta mál 

olof magnusson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 15:50

46 Smámynd: Jón Valur Jensson

Snjallt hjá þér, Ólöf, þetta innlegg. Þá gleðst ég líka yfir því, að hægrikonan Halla Rut telur þetta, sedm hún kallar "mikilmennskubrjálæði gömlu karlanna", ekki sæmandi. Og það er góð tillaga hjá Halldóri Auðar Svanssyni þarfagreini, að við "breytum lögunum þannig að ráðherra er beinlínis skyldaður til að velja alltaf einhvern úr hópi þeirra, sem nefndin telur hæfasta." – Og gott var hjá "ee" að benda á skoðanakönnunina í Skessuhorni.

Þið eigið þökk skilda fyrir að halda þessu máli vakandi, þótt margt annað sé núi að kalla á athygli manna í fréttunum. En sjálfur var ég að leggja inn eftirfarandi aths. á annarri vefslóð

Össur Skarphéðinsson var trúlega að reyna að réttlæta það að veita karlmanni, samherja hans, embætti orkumálastjóra, með því að veita kvenmanni, þótt ólærð sé í ferðamálafræðum, þetta embætti [ferðamálastjóra]. Hvað kemur líffræðiþekking ferðamálafræðum við? Og hvernig gerir BA-próf í dönsku kvenmann færari um að vera fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins heldur en langtíma fjölmiðlareynsla mestu fréttahauka landsins, sem sóttu nýlega um það starf hjá Ingibjörgu Sólrúnu, en fengu ekki? – Samfylkingin er með allt niðrum sig í þessum málum, þótt það jafnist ekki á við skammarstrik Árna Mathiesen í dómaramálinu.

Jón Valur Jensson, 22.1.2008 kl. 04:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband