Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

oktober%202004%20005Ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, skrifar ágætan leiðara í blaðið í dag.  Í upphafi leiðarans segir ritstjórinn:

,,Meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þeirri skoðun að takmörkuð eignarréttindi á veiðiheimildum með frjálsu framsali séu andstæð mannréttindum.  Sú niðurstaða stangast á við stjórnarskrá Íslands.

Mikilvægt er að ræða þetta álit og bregðast við því.  Verði álit meirihlutans túlkað á þann veg að breyta þurfi fiskveiðistjórnun í grundvallaratriðum blasa við alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar.

Ýmsir hafa óttast um hagsmuni sjávarútvegsins ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu.  Ef taka ætti mark á meirihluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti en þar er um að tefla.  Aðildin að Sameinuðu þjóðunum hefði þannig mun alvarlegri og víðtækari áhrif á sjávarútveginn og sjávarplássin en Evrópusambandsaðild."

Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir það með Þorsteini að aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði jákvæðari áhrif á íslenskan sjávarútveg en ef farið yrði að niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.  Hvort tveggja hefði alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnugreinina.

Að öðru leyti tek ég undir með ritstjóra Fréttablaðsins.  Verði álit meirihluta nefndarinnar túlkað á þann veg að breyta þurfi stjórnkerfi fiskveiða í grundvallaratriðum þá er viðbúið að slíkt muni hafa í för með sér alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar.

Vilji menn túlka niðurstöður mannréttindanefndarinnar bókstaflega og telja að þær bindi hendur stjórnvalda þá hljóta þeir hinir sömu að fallast á að niðurstöður hennar hefðu ekki einungis í för með sér breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu, heldur einnig á fiskveiðistjórnunarkerfum annarra ríkja sem byggja á kvótakerfi, en ekki síður stjórnkerfum landbúnaðarins sem byggja að grunni til á sömu undirstöðum.  Má þar nefna fiskveiðistjórnunarkerfi Ný-Sjálendinga, Ástrala, Alaskabúa, Evrópusambandsins og fleiri og fleiri ríkja.

Ég efast um að þessar þjóðir myndu sætta sig við slíka íhlutun nefndarinnar í sín innanríkismál.  Hins vegar er óumdeilt að álit nefndarinnar eru ekki bindandi fyrir þjóðríkin og þar af leiðandi ekki fyrir okkur Íslendinga.  Því er rétt að taka undir með ritstjóra Fréttablaðsins þegar hann segir að ef taka ætti mark á meirihluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti okkar.

Það höfum við hins vegar ekki gert.  Ísland er ennþá fullvalda og sjálfstætt ríki og verður það vonandi áfram.  Þó svo að það fyrirfinnist stjórnmálamenn sem telja frekara framsal löggjafarvalds og dómsvalds til annarra ríkja og yfirþjóðlegra stofnana til hagsbóta fyrir Íslendinga, þá ráðum við ennþá okkar eigin málefnum.  Alþingi setur þau lög og reglur sem hér gilda og íslenskir dómstólar dæma samkvæmt þeim.  Því hefur ekki verið breytt.

Hins vegar er sjálfsagt að ræða þetta álit og bregðast við því.

Síðar í leiðara sínum segir Þorsteinn:

,,Breski fulltrúinn í mannréttindanefndinni, Sir Nigel Dodley, bendir réttilega á í séráliti sínu að meirihlutinn virðist fyrst og fremst byggja röksemdafærslu sína á því að fiskimiðin séu samkvæmt íslenskum lögum sameign þjóðarinnar.  Öðru máli kynni því að gegna ef svo væri ekki.  Ráða má af þessu að leysa megi málið með því einu að fella svokallað sameignarákvæði út.

Málsreifun breska fulltrúans bendir þannig til að meirihlutinn byggi niðurstöðu sína á lögfræðilegri rökleysu.  Hún vekur einnig spurningu um hvort nefndir hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að túlka valdsvið sitt með því að túlka samspil íslenskra lagaákvæða í stað þess að meta það eitt hvort þau samræmist sáttmálanum."

Þessi ábending er allrar athygli verð.  Þegar álit meirihluta nefndarinnar er lesið kemst maður ekki hjá því að niðurstaða þess byggi á alvarlegum misskilningi á grundvelli íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Þann misskilning fá íslensk stjórnvöld nú tækifæri til að leiðrétta þegar þau bregðast við álitinu.

Í lok leiðara síns segir ritstjóri Fréttablaðsins:

,,Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem greint hefur frá útfærðum tillögum um viðbrögð.  Einn helsti forystumaður hennar lýsti af þessu tilefni í sjónvarpi á sunnudag tillögu um að svipta alla aflahlutdeild í þorski til þess að úthluta hugsanlegri aukningu í tönnum þegar þar að kemur til annarra en þeirra sem stunda veiðar í dag.  Sviptingin tæki til smábátasjómanna sem keypt hafa þorskveiðiheimildir til að bjarga atvinnu í litlum plássum.

Aflahlutdeildin er undirstaða lánstrausts í sjávarútvegi, ekki síst hjá trillukörlum og minni útgerðum.  Stærri útgerðir hafa breiðari undirstöðu og eiga í einhverjum tilvikum hægara með að bjarga sér.  En víst er að margir munu ekki lifa þorskveiðiskerðinguna af nema á grundvelli þessa lánstrausts.  Samfylkingin vill nú kippa þessu lánstrausti undan smábátasjómönnum jafn sem öðrum.  Afleiðingunum þarf ekki að lýsa.

Það gæti hins vegar reynst utanríkisráðherranum þrautin þyngri að skýra út fyrir mannréttindanefndinni að ráðstafanir af þessu tagi feli í sér aukin mannréttindi.  Ástæða er því til að hvetja til yfirvegaðri og ígrundaðri viðbragða."

Ástæða er til þess að taka undir þessi varnaðarorð Þorsteins Pálssonar.  Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld bregðist við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna með yfirveguðum og ígrunduðum hætti.

Íslenskur sjávarútvegurinn hefur á síðustu mánuðum orðið fyrir miklum og alvarlegum áföllum, einkum vegna skerðingar þorskveiðiheimildanna.  Að mínu mati má þessi mikilvæga atvinnugrein ekki við fleiri áföllum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

Sæll Sigurður.

    Það væri áhugvert að fá hjá þer útskyringu á fullyrðingu þinni í greininni. Verið álit nefndarinnar að breyta þurfi fiskveiðistjórnarkerfinu´  þá orsaki það á alvarlegar efnahagslegar og félagslegar   þrengingar.

    Þar sem þú ert bæði lögfræðinur og fulltrúi fólksins á Alþingi,  þá undrar mig að sjá staðhæfingar þínar varðandi valdaframsal og sjálfákvörðunarrétt okkar.

   Vil ég mynna þig á aðskilnaður milli rannsóknar og dómsvalds, varð ekki hér á landi fyrr en eftir dóm frá mannréttindádómst.

haraldurhar, 16.1.2008 kl. 01:29

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Heill og sæll á nýju ári.

Nú keppast þeir, sem ,,eiga" veiðiheimildir, við að hrópa á torgum um hremmingar og óáran í þjóðarbúinu, verði farið að kukla eitthvað í þeirra dásamaða ,,Kerfi".  Svona hefur það ætíð verið, þegar hróflað hefur verið við þeim sem ,,eiga" eitthvað, hlutlegt eða huglægt.

Svona var það í Sovétum víða um heim, og er enn.  Svona var það í flutninga bransanum, þegar Ríkisskip var aflagt.

Svona mun það ltíð verða, sama hvað gert er á ,,hluta þeirra sem telja sig eiga".

En það er þetta með eignina, sem ég næ ekki alveg. 

í lögum um stjórnun fiskveiða er sérstaklega tekið fram og hnykkt á, að fiskimiðin og stofnar allir séu og verði þjóðareign.

Að vísu var Þorsteinn ekki alfarið sáttur við þá útfærslu, né allmargir LÍjúgarar, heldur varð þetta svona ,,kompremí" sem fallist var á, að skyldi vera þarna, svona aðallega til þess, að hafa opnar dyr til að bakka út úr kerfinu, gerðist þess þörf.

Matti okkar Bjarna var t.d. harðari en andskotinn á því að þetta ákvæði skyldi vera þarna og helst í öllum paragröfum lagana, til þess, að menn færu nú ekki að versla með og halda sína eign, sem er --LÖGUM SAMKVÆMT,--annarra eign.

Ekki færa það í tal við nokkurn mann, að þú teljir verslun með þjófstolna vöru geti nokkurtíman öðlast hefð eða lögverndun.  Það má aldrei verða.

Þjófstolið eru þau gæði, sem einn hefur yfirráð með en aðrir eiga.

Það væri nú alldeilis upplit á manni sem ætti íbúaðblokk en hefði úthlutað til sjúklings íbúðarrétti til árs í senn, kæmist hann að því, að viðkomandi hefði nú bara sí sona snúið sér við og selt herlegheitin, að honum forspurðum.

Nú hlærð þú með sjálfum þér og hugsar um, hversu ofboðslega fattlaus ég sé.  Íbúðir og aðrar fasteignir eru öll ÞINGLÝST á nafn eða kennitlu.

Jú jú, veit ég vel, en einnig veit ég vel hvað ,,þinglýsing" var upphaflega.  Fáu eða engu hefur verið eins rækilega ,,þinglýst" á löglegan eigenda en einmitt þessari eign þjóðarinnar, hvað svo sem Emeritus vill nú ganga erinda stóreignamanna og efast um í riti, að þjóðin geti vart verið ,,eigandi" í sjálfu sér.

Því lít ég --og mjög margir aðrir,---svo á, að kvótahafar, sem úthlutað fá ÁRLEGA hlutdeild í afla landsmanna, geti ekki selt í raun, nokkurn skapaðan hlut og þeir sem svo TRÖLLSLEGA VITLAUSIR  haf verið, að versla af mönnum þessar ,,eigur" (sem að mínu viti skal fara með sem hverja aðra þjófstolna vöru, hvar sá sem kaupir gerir það á sína ábyrgð, enda mæti hann vita, að varan væri með þeim hætti fengin) að alsekki er um neina skyuldu stjórnvalda til, að bæta eitt né neitt í þeim efnum.--enda er svo sem segir í lögunum um tímabundin lög að ræða.

með vinarkveðju

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 16.1.2008 kl. 09:42

3 Smámynd: 365

Sæll vertu Sigurður, mér leikur bara hugur á að vita hvers lenskir þeir aðilar eru sem eiga sæti í nefndinni svokölluðu sem fer með mannréttindin hjá SÞ?

365, 16.1.2008 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband