Þriðjudagur, 8. janúar 2008
Vill verkalýðshreyfingin íhlutun í löggjafarvaldi?
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt er að samningar á vinnumarkaði náist og að þeir verði þess eðlis að allir sem að þeim eiga aðild gangi sáttir frá borði, enda felast sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar í því að stöðugleiki ríki á vinnumarkaði.
Ég hef fylgst nokkuð vel með yfirlýsingum forsvarsmanna aðila vinnumarkaðarins í tengslum við þessar kjaraviðræður. Fram hafa komið þau sjónarmið, meðal annars hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að í þessum kjarasamningum verði lögð áhersla á að nýta það svigrúm sem til staðar er hjá atvinnurekendum til launahækkana til þess að hækka laun lágtekjufólks. Aðrar stéttir geti við núverandi aðstæður í efnahagslífinu ekki búist við launahækkunum.
Mér finnst ástæða til að taka undir þessi sjónarmið Vilhjálms Egilssonar, enda eru þau skynsamlegt innlegg inn í þessa umræðu.
Að mínu mati er einnig mikilvægt að samninganefndir ríkis og sveitarfélaga horfi til þessara sömu sjónarmiða þegar þær marka stefnu í launamálum opinberra starfsmanna, enda getur ekki talist skynsamlegt við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu að semja um sambærilegar launahækkanir fyrir allar starfsstéttir. Hyggilegra væri fyrir hið opinbera að einbeita sér að þeim stéttum sem bágust hafa kjörin. Hef ég þar til að mynda í huga þá sem sinna umönnunarstörfum, svo sem leikskólakennara, sjúkraliða og aðra þá sem gegna sambærilegum störfum.
Fyrir þessari skoðun má a.m.k. færa tvær röksemdir. Í fyrsta lagi er hér um að ræða störf, sem þrátt fyrir að vera ákaflega mikilvæg í okkar þjóðfélagi, eru afar illa launuð. Í annan stað má nefna að afar erfitt hefur verið að fá fólk til þess að vinna þessi störf. Því þarf að breyta.
Ég hef hins vegar sett spurningamerki við ýmsar áherslur verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við þessar kjaraviðræður. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, með Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands í broddi fylkingar, hafa lagt mikla áherslu á að stjórnvöld spili út ákveðnum trompum í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig hefur Gylfi og félagar hans hjá ASÍ gert kröfu um að gerðar verði breytingar á skattkerfinu, þannig að tekinn verði upp sérstakur persónuafsláttur fyrir tiltekinn hóp launþega, og að auknu fjármagni verði varið til vaxtabóta- og barnabótakerfisins, svo eitthvað sé nefnt.
Nú er ástæða að spyrja hvort eðlilegt sé að aðilar vinnumarkaðarins, í þessu tilviki verkalýðshreyfingin, setji fram slíkar kröfur í tengslum við viðræður sínar við atvinnurekendur um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði?
Það er að mínu mati viðfangsefni stjórnmálamanna hverju sinni að taka ákvarðanir um það hvernig skattalögum er háttað hverju sinni. Reyndar hygg ég að sú skoðun sé býsna óumdeild, enda segir í 1. málslið 1. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum."
Það er Alþingi Íslendinga sem fer með löggjafarvaldið, ekki aðilar vinnumarkaðarins, hvorki samtök atvinnurekenda né verkalýðshreyfingin. Því verður lögum um tekjuskatt ekki breytt nema Alþingi taki ákvörðun um að ráðast í slíkar breytingar. Um skattabreytingar verður ekki samið í kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins, samningaviðræðum sem Alþingi á enga aðild að. Það segir sig auðvitað sjálft.
Af þeirri ástæðu hef ég furðað mig nokkuð á því hvers vegna forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa lagt svo mikla ofuráherslu á að í þessum kjaraviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins verði samið um þær skattkerfisbreytingar sem verkalýðshreyfingin gerir kröfu um í stað þess að þeir einbeiti sér að þeim þáttum kjaraviðræðnanna sem þeir hafa umboð til að semja um. Nema um sé að ræða tilraun þeirra til íhlutunar í löggjafarvaldi á Íslandi.
Nú er ekkert óeðlilegt við það að menn hafi skoðanir á því og leggi fram tillögur um það hvernig skattheimtu skuli háttað í íslensku samfélagi. Það er hins vegar mikilvægt að þeir einstaklingar sem taka þátt í viðræðum um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði átti sig á því að vilji þeir ná fram breytingum á íslenskum skattalögum, hverjar sem þær kunna að vera, þá eiga þeir hinir sömu að bjóða sig fram til Alþingis.
Það er hinn rétti vettvangur til þess að berjast fyrir breytingum á skattkerfinu.
Sigurður Kári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Facebook
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- allib
- almaogfreyja
- andrigeir
- audbergur
- audunnh
- abg
- axelaxelsson
- arniarna
- aslaugfridriks
- astamoller
- baldher
- baldvinjonsson
- benediktae
- bergrun
- kaffi
- bergurben
- bjarnihardar
- bjarnimax
- bjorgvinr
- sveifla
- binnag
- bryndisharalds
- skordalsbrynja
- brandarar
- charliekart
- dansige
- doj
- deiglan
- doggpals
- egillg
- erla
- erlendurorn
- skotta1980
- ea
- fsfi
- vidhorf
- hressandi
- gammurinn
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisliblondal
- gillimann
- grettir
- gudni-is
- gummibraga
- phoenix
- gunnarbjorn
- gussi
- laugardalur
- habbakriss
- smali
- haddi9001
- hhbe
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heimssyn
- herdis
- hildurhelgas
- drum
- hjaltisig
- hlekkur
- kolgrimur
- hlodver
- don
- hvitiriddarinn
- ingabesta
- golli
- ibb
- bestiheimi
- jakobk
- fun
- stjornun
- skallinn
- jonasegils
- forsetinn
- jonmagnusson
- bassinn
- jonsnae
- julli
- komment
- karisol
- kje
- kjarrip
- kjartanvido
- kolbrunb
- kristinrichter
- kristjanb
- kristjangudm
- liljabolla
- altice
- maggaelin
- gummiarnar
- martasmarta
- mal214
- nielsfinsen
- ottoe
- olibjossi
- obv
- nielsen
- skari
- pkristbjornsson
- jabbi
- pbj
- storibjor
- iceland
- pjeturstefans
- raggibjarna
- raggiraf
- raggipalli
- ragnar73
- schmidt
- bullarinn
- salvor
- fjola
- sigbragason
- vitaminid
- joklamus
- sv11
- sjonsson
- siggikaiser
- sisi
- siggisig
- sigurgeirorri
- mogga
- sigurjonb
- sms
- sjalfstaedi
- hvala
- hvirfilbylur
- stebbifr
- eyverjar
- styrmirh
- summi
- brv
- sveinn-refur
- stormsker
- saethorhelgi
- tidarandinn
- daystar
- valdimarjohannesson
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- nytthugarfar
- vibba
- villagunn
- va
- villithor
- xenon
- thorbjorghelga
- steinig
- thorsteinnhelgi
- thorasig
- doddidoddi
- thorolfursfinnsson
- toddi
- hugsun
- ornsh
Athugasemdir
Um margt athyglsivert en líkt og við vitum nú báðir, hafa í áratugi verið væringar milli manna um skattamál og hvernig að því öllu er staðið.
Þetta er ekki í fyrsta sinnið og örugglega ekki í hið síðasta, sem ,,aðilar vinnumarkaðarins" leggja til breytingar á hinu og þessu í sambandi við skattheimtu og bótakerfi.
Ekki fyrir alls löngu var talað um ,,félagsmálapakka" í samningum milli þessara frægu aðila.
Síðan kveður við ramakvein um ,,jaðarSKATTA" orðskrípi, sem er ónefna í máli okkar og þýðir ekkert annað en mörk, hvar hætt er að greiða styrki og ,,bætur". Semsé, hvenær HÆTT er að NIÐURGREIÐA LAUN starfsmanna, líkt og gert var með títtnefndan ,,Sjómannaafslátt".
ÞEgar menn hreyfa við skattkerfinu, verða menn að þora að horfa framan í þá sem senda þá á hið há Alþingi. ÉG vil að menn skoði með alvöru, hvort einhverju hafi verið gleymt síðast, þegar breytingar voru gerðar á Skattalögum og þeim illfæra skógi reglugerða í skattheimtu.
Svo að þessari fullyrðingu þinni um, að ,,Ekki megi á setja né af leggja skatta, nema með lögum frá Alþingi" vil ég benda þér á allskonar álögur, sem eru ekkert annað en skattar á aðila, sem þeir fá engu um ráðið og eru á settir af heilu stéttunum. Svo er ekki úr leið, að skoða hvernig þessu öllu er farið hjá bönkunum okkar.
Afskaplega sé ég mikið eftir honum Einari mínum Oddi. Þar fór maður sem þorði að taka málstað Ríkissjóðs og brúkaði til þess orðfæri, sem allir skildu og sló tóna sem endurómuðu í brjóstum manna af öllum ,,stéttum", því þar var tifstrengur íslendingseðlisins. Og líkt og þegar hreinn tónn er sleginn, fara réttstillir strengir annarra hljóðfæra, að óma og tifa með.
Gleðilegt og gifturíkt ár þér og þínum
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 8.1.2008 kl. 11:08
Ef litið er til Danmerkur nú um þessar mundir þá er almenn regla að þingmenn á Kristjánsborg tjá sig ekki um kjaradeilur sérlega á viðkvæmum stundum.
Hvernig fór aftur fyrir Hermanni Jónassyni hér fyrir hálfri öld þegar ríkisstjórn hans "fór fram af hengifluginu" ? Hvaða ríkisstjórn eða löggjafarsamkoma hefur ekki komið nálægt kjarasamningum? Og af því þú ert formaður menntamálanefndar alþingis: Hvað gerðist í kjaradeilu kennara og sveitarfélaga í nóvember 2004? Ha, voru sett lög?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 13:48
Sæll vert þú Sigurður Kári!
Það er á margan hátt athyglisvert að lesa þennan pistil þinn. Einkanlega vegna þess skorts á þjóðfélagslegri þekkingu sem þú opinberar að þig vanti, til þess að geta átt erindi inn á Alþingi. Alþingi er annað og meira en apparat til þess að reka ríkisbáknið. Alþingi er yfirstjórn allra leikreglna í samfelagi okkar, hverju nafni sem þær nefnast.
En af hverju segi ég þig skorta þekkingu? Jú fyrst og fremst vegna þess að ég hef fylgst vandlega með störfum Alþingis í meira en 50 ár (fósturfaðir minn var í ráðgjafahópi eins þingflokksins). Það eru ekki mörg þing á þessu tímabili sem ýmsir hagsmunaaðilar hafa ekki knúið fram sérhagsmuni sína, iðulega án tillits til áhrifa þeirra á hag þjóðarheildarinnar. Ef þú veist þetta ekki, ættir þú að setjast við að lesa þér til.
Þeir aðilar sem oftast hafa verið sviknir um gefin fyrirheit stjórnmálamanna, um aðgerðir ríkisvalds og Alþingis, er einmitt verkalýðshreyfingin. Þeir sem hins vegar hafa verið ósvífnastir í að skara eld að sinni köku, vegna ósjálfstæðis Alþingismanna, eru útgerðarmenn. Alþingismenn hafa í tvo áratugi horft á þá kúga sjávarútvegsráðherra hvers tíma, til að brjóta grundvallarreglu meðferðar á eignum ríkisins, án þess að þeir lyfti litlafingri til að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar. Ef þú lest skýrslu Ríkisendurskoðanda um vatnsréttindin í Þjórsá og getur notað lögfræðimenntun þína til að skilja það sem þar er sagt um skilyrði til meðferðar á eignum ríkisins, og heimfæra það upp á sjávarauðlindir þjóðarinnar, hlýtur þú að sjá að hér er farið með rétt mál.
Það er fullkomlega eðlilegt að verkalýðshreyfingin geri kröfur um svör stjórnvalda varðandi réttindi láglaunahópanna í landinu. Þessir hópar hafa engar leiðréttingar fengið, þrátt fyrir ítrekuð loforð þar um, þó ýmsir hópar ráðamanna o.fl. hafi fengið í hækkun mánaðarlauna á nýliðnu ári álíka eða hærri fjárhæð en sem nemur ráðstöfunarlaunum þessara hópa pr. mánuð. Það tekur ykkur yfirleitt ekki marga sólahringa að afgreiða kjarabætur ykkur til handa eða hlaupa eftir pöntun útvegsmanna um auðveldari aðgang þeirra að eignum þjóðarinnar. En þegar kemur að leiðréttingu fyrir þá sem minnst bera úr bítum virðist heilinn hjá ykkur frjósa.
Alþingi færði ekki verkalýðshreyfingunni almannatryggingakerfið, lögin um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, lögin um sjúkrasjóði, veikindarétt, orlof, sumarfrí, lífeyrissjóði, og svo mætti lengi telja. Verkalýðshreyfingin hefur orðið að berjast fyrir hverjum sínum bita með mikili hörku. Þar skilur á milli þeirra og útgerðarmanna.
En að lokum þetta. Í fyrra skrifaði ég þér bréf, sem nefndarformanni á Alþingi. Ekkert svar fékk ég svo ég ítrekaði bréfið, en fékk samt ekkert svar. Kurteisi er ein helsta regla heiðarlegs manns. Þess vegna skora ég á þig að svara bréfi mínu efnislega með þeim stuðningi við stjórnarskrá sem beðið var um.
Heyri vonandi fljótlega frá þér. Netfangið mitt er á bréfinu.
Guðbjörn Jónsson, 8.1.2008 kl. 18:47
Ég þakka þér Sigurður Kári fyrir þetta blogg eða bloggun. Það er mikilvægt að alþingismenn hafi hlutina á hreinu um hverjum er ætlað að gera hvað, hverjum og hvenær.
Ég tek einnig undir með miðbæjaríhaldinu að það er skarð fyrir skyldi að hafa misst hinn skelegga alþingismann Einar Odd sem sá um að tala menn niður á jörðina - gefa tóninn - ef hann var orðinn falskur. Við skulum vona að slíkt þurfi hann ekki lengur að gera þar sem hann er nú staddur!
Calvín, 8.1.2008 kl. 21:10
Hvernig væri að fara taka upp fastar krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana. Ef allir fá t.d. 20 þús. á mánuði mundi sá lægst launaði fá mest hlutfallslega, en fyrst og fremst fá allir jafnt og bilið á milli hálauna og láglauna fólks eykst ekki á meðan. Annars skil ég ekki hvernig þið alþingismenn getið horft framan í verkalýðinn þegar talað er um launahækkanir og kjarasamninga. Það er nefnilega þannig að þið hafið um 300 þúsund yfirmenn sem þið eruð í vinnu hjá en það virðist yfirleitt gleymast þegar búið er að telja atkvæðin. Þið hafið sjálfir gefið sjálfir tóninn fyrir komandi kjarasamninga með eigin launahækkunum og kjarabótum sem er gjörsamlega úr takt við þann veruleika sem yfirmenn ykkar búa við.
Sighvatur (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 01:32
Góður pistill. Þakka fyrir mig.
Bendi á Bretland sem dæmi um land þar sem allt hefur farið í vitleysu vegna hugleysis stjórnmálamanna og íhlutunar verkalýðsfélaganna í stjórnmál.
Úlfur (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 13:28
Góðan daginn allir. ég vildi bara láta ykkur vita að Jafnréttindafélag Íslands verður stofnað í næstu viku.
Fyrsti fundurinn verður miðvikudagskvöldið 23. Janúar kl 20:00.
Nánari upplýsingar eru á síðunni minni.
Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 18:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.