Tvær bækur

Oft hef ég verið duglegri við bókalestur en yfir nýafstaðna hátíð.  Ástæður þess eru ýmsar, en ég náði þó að komast yfir tvær bækur í þetta skiptið, ein ein er nýútkomin en hin kom út fyrir nokkrum árum.

Þar sem vegurinn endar

getfileÖnnur bókin sem ég las heitir Þar sem vegurinn endar eftir Hrafn Jökulsson, skákfrömuð og góðan kunningja minn.

Segja má að Þar sem vegurinn endar sé eins konar syrpa atburða úr lífi Hrafns allt frá því að hann var ungur drengur í sveit í Stóru-Ávík í Árneshreppi á Ströndum til dagsins í dag.  Í bókinni stiklar Hrafn á sögu sveitarinnar allt frá landnámi, auk þess sem hann segir frá veru sinni þar og kynnum sínum af heimamönnum.  Þá gefur Hrafn lesendum innsýn inn í viðburðarríkt lífshlaup sitt þar sem víða er komið við og óhætt er að segja að frásögnin sé bæði hreinskilin og einlæg.

Kaflar um samskipti Hrafns við föður sinn, Jökul Jakobsson, og fráfall hans eru vel skrifaðir, eins og reyndar öll bókin, og áhrifamiklir.  Þá hafði ég mjög gaman af frásögn Hrafns af veru sinni í Bosníu og Króatíu árið 1992 þegar stríðið á Balkanskaga geysaði, svo ekki sé minnst á frásögn hans af persónulegum erfiðleikum sínum og í kjölfarið á vist sinni á meðferðarheimilinu í Winnipeg í Kanada.

Að mínum dómi fer Hrafn í kostum í bókinni og ég er sammála því sem Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, segir á forsíðu hennar að bók Hrafns sé ,,Yndislestur í orðsins fyllstu merkingu".

Svartur á leik

3Hin bókin sem ég las er allt annars eðlis, en það er Svartur á leik eftir Stefán Mána, sem út kom árið 2004.

Svartur á leik er að því er virðist skáldsaga sem byggir á sannsögulegum atburðum, a.m.k. að hluta, enda leitaði höfundur fanga hjá lögreglu, fangelsismálayfirvöldum og ýmsum aðilum sem kunnugir eru undirheimum Reykjavíkur, við ritun bókarinnar.  Kannski má segja að bókin sé frekar einskonar stúdía á undirheimunum frekar en að hún sé klassískur krimmi.

Í Svartur á leik er lífi glæpamanna í undirheimum Reykjavíkur líst með tilheyrandi ofbeldi, fíkniefnaneyslu og fleiri fylgifiskum þess lífernis sem þar viðgengst.  Og ætli það verði ekki að segjast að slíkt hæfi viðfangsefni höfundarinar.  En sumar þessar lýsingar eru afar grófar, svo ekki sé meira sagt, þó ekki verði því haldið hér fram að þær séu óraunsæjar eða ósannfærandi, enda virðist harkan í þessum heimi alltaf að verða meiri og meiri.  Söguhetjurnar eru undantekningalítið vafasamir glæpamenn með vafasöm viðurnefni.

Þó bókin sé kannski fulllöng miðað við viðfangsefnið og einkennist að mínu mati um of mikið af endurtekningum, þá er hún engu að síður að mörgu leyti skemmtileg aflestrar og áhugaverð og lýsingar á ýmsum atburðum og uppátækjum söguhetjanna býsna spennandi. 

Svartur á leik á hins vegar ekki mikið erindi við viðkvæma og er ekki beint til þess fallin að koma lesendum í hátíðarskap.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband