Hlutverk ríkisins?

farart7Á Alþingi þetta haustið hef ég eytt nokkru púðri í að vekja fólk til umhugsunar um það hvert hlutverk ríkisins eigi að vera í okkar samfélagi.

Mín pólitíska sannfæring segir mér að ríkið eigi að láta lítið fyrir sér fara á þeim sviðum sem einstaklingar geta sinnt og eigi frekar að beina kröftum sínum og fjármunum í önnur verkefni.

Trúr þeirri sannfæringu minni hef ég bent á hversu óeðlilegt og ósanngjarnt það er að ríkið og ríkisfyrirtæki standi í samkeppni við einkafyrirtæki á markaði.  Hef ég þar til að mynda beint spjótum mínum að ríkisfyrirtækinu Íslandspósti hf., sem á síðasta ári hóf mikla innrás inn á markaði sem einkaaðilar hafa fram til þessa sinnt, svo sem á sviði verslunar með ritföng, skrifstofuvörur, föndurvörur, geisladiska og fleira.  Það er að mínu mati algjör tímaskekkja að ríkið reki ritfangaverslanir sem þessar og á því verður að verða breyting.

Að sama skapi hef ég beitt mér fyrir því að draga úr umsvifum ríkisins á smásölumarkaði með aðrar vörur.  Nefni ég sérstaklega í því sambandi frumvarp mitt og 16 annarra þingmanna úr þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, sem mælir fyrir um afnám einkaréttar ríkisins á verslun með léttvín og bjór.

Þó svo að um þessar hugmyndir séu skiptar skoðanir á ég erfitt með að skilja afstöðu þeirra sem telja eðlilegt að ríkið standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila, enda vandséð að samkeppnisstaða einkafyrirtækja gagnvart ríkinu geti nokkurn tíma talist sanngjörn. 

Það væri athyglisvert að vita hvort þeir sem eru á öndverðum meiði við þau sjónarmið sem ég hef fært fram í þessu sambandi séu þeirrar skoðunar að ríkið ætti að láta enn frekar að sér kveða á þessum sviðum.  Það hlýtur eiginlega að vera ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir.

En það er á fleiri sviðum sem ríkið hefur haslað sér völl á í samkeppni við einkaaðila.

Eins og kunnugt er hafa verslunarmiðstöðvar sprottið upp eins og gorkúlur um allt Stór-Reykjavíkursvæðið.  Kringlan er reyndar orðin tvítug, Smáralindin er í stækkun og verslunarmiðstöðvar hafa verið byggðar í Mjóddinni í Breiðholti, í Spönginni í Grafarvogi, í Glæsibæ og víðar og víðar.  Þessar verslunarmiðstöðvar eru í eigu einkaaðila, í flestum tilvikum fasteignafélaga, sem leigja eða selja kaupmönnum aðstöðu sína.

Ein fjölsótt verslunarmiðstöð er þó í eigu ríkisins.  Þar leigir ríkið kaupmönnum aðstöðu til starfsemi sinnar, en stendur jafnframt sjálft í smásöluverslun með snyrtivörur, tölvuleiki, kvikmyndir, sælgæti og fleira.

Þetta er verslunarmiðstöðin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hefur vaxið og dafnað á síðustu árum staðið fyrir mikilli markaðssókn þar sem neytendum er bent á að þar sé verðlag hagstæðara en í einkareknu verslunarmiðstöðvunum.  Enginn eðlismunur er á rekstri þeirrar verslunarmiðstöðvar og til dæmis á rekstri Kringlunnar og Smáralindar.

Ég hlýt að spyrja, er það virkilega hlutverk ríkisins að reka slíka verslunarmiðstöð?

Það finnst mér ekki.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég verð að segja eins og er að þarna er ég ósammála þér bæði hvað varðar léttvínið og bjórinn og eins hvað varðar fríhöfnina...... mér finnst það alveg það síðasta sem við ættum að gera að leyfa frelsi á áfengi, þá þyrftu td. skemmtistaðir örugglega ekki enn að biðja um leyfi... eða hvað ?

Eins með fríhöfnina... af hverju ekki að hafa hana ? Flugstöðin mundi bara missa sjarma sinn

Kveðja,

Inga Lára 

Inga Lára Helgadóttir, 7.1.2008 kl. 21:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

"Sjarmi" dugar skammt í rökræðu um hlutverk ríkisvaldsins. Halldór Laxness kallaði hungursneyð Sovétríkjanna "yndislega". Ætli honum hafi fundist sjarmi yfir henni?

Inga Lára rekur klárlega ekki snyrtivöru-, smásölu-, sjóntækja- eða raftækjaverslun sjálf, í beinni samkeppni við tollfrjálsan ríkisreksturinn. Ætli sjarminn yrði þá ekki líka fljótur að þorna upp hjá henni ef svo væri? 

Geir Ágústsson, 7.1.2008 kl. 22:30

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta eru góðar pælingar. Ég hlýt að vera sammála þér í öllum þessum málum, en þó með einni undantekningu. Hún er sú, að ég álít það galla á frumvarpi ykkar um sölu áfengis að undanskilja sterk vín þannig að ríkið hafi áfram einkarétt á sölu þeirra. Slíkt fyrirkomulag myndi valda verulegu óhagræði bæði fyrir ríkiseinkasöluna, sem áfram þyrfti að halda úti rekstri um allt land, en fyrir tiltölulega lítil viðskipti, og fyrir kaupmenn, sem yrðu af tekjum af sölu þess áfengis sem hefur alla jafna hæst verð og þar með mesta framlegð á lítra. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þessi undantekning er gerð í frumvarpinu. Það væri gaman að fá einhver svör við þeirri spurningu. 

Þorsteinn Siglaugsson, 7.1.2008 kl. 22:40

4 Smámynd: Haffi

"mín pólitíska sannfæring.." segir þú, ég spyr þá ertu með margar sannfæringar? Fer kannski eftir því í hvaða hlutverki þú ert hverju sinni.

Haffi, 7.1.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mikið er þetta innihaldslaust hjal hjá þér Geir og mér finnst það aumt af þér að koma ekki með eitthvað sjálfur í stað þess að beina spjótum að mér, sem er bara ekki sammála því að breyta fyrirkomulaginu á áfengi og eins finnst mér ekkert rosalegt að hafa fríhöfnina með gott verð. Þú veist ekki mikið Geir ef þú telur alla þá sem eru með snyrtivörur vera einhverja smásala,  þetta er meira og minna allt sama batterýið og er það ekki slæmt fyrir smásalana ? æi þú veist þetta allt

Inga Lára Helgadóttir, 7.1.2008 kl. 23:06

6 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Hjartanlega sammála, það er út í hött að ríkið vasist í vínsölu, póstþjónustu, ritfangasölu, ljósritun, verslunarmiðstöðvarrekstri og fjölmiðlarekstri. Ég vil þú vitir að ég styð þig, Sigurður Kári, heilshugar í baráttunni ríkisbákninu. Vildi óska þess að geta rétt upp hönd með þér í þinginu.

Markmið ríkisstjórnarinnar á að vera að ríkið þenjist ekki meira út en orðið er og skattana á að lækka, ekki síst þegar tekjuafgangur sjóðsins er gríðarlega hár. Og hana nú!

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 8.1.2008 kl. 00:27

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæll nafni,

Ég er sammála þér í því að það sé óæskilegt að ríkið sé að vasast í því sem einkaaðilar geta séð um en set þó eina viðbótarforsendu.  Hún er sú að hægt sé að skapa eðlilegt samkeppnisumhverfi á viðkomandi markaði.  Það er bara eitt verra en ríkiseinokun og það er fákeppni og jafnvel einokun á frjálsum markaði.

Ég er líka sammála þér í því að mér finnst óþarfi að Íslandspóstur sé að selja ritfangavörur.  Ég er líka sammála þér í því að ég sé enga ástæðu til þess að ríkið selja svitalyktareyði í Leifsstöð.  Það er fullt af verslunum þar í eigu einkaaðila og því sé ég enga ástæðu til að hafa eina í hópnum í eigu ríkisins.  Það er hins vegar spurning hvort ríkið eigi að einkavæða reksturinn á flugstöðinni sjálfri þar sem ekki eru fleiri millilandaflugvellir á svæðinu og því ekki möguleiki á samkeppni á þeim markaði.

Ég er líka á því að t.d. Orkuveitan eigi að reka gagnaveituna áfram þar sem til þess að komast inn á þann markað þarftu að fjárfesta fyrir tugi milljarða í dreifikerfi og því augljóst að aldrei verði samkeppni á þeim markaði.  Þar finnst mér betra að OR eigi GR og opni fyrir samkeppni Á ljósleiðaranum en ekki UM ljósleiðarann.

Hvað áfengið snertir er það mín skoðun að frumvarpið og umræðan sé að fjalla um tvö aðskilin mál sem eitt mál.  Það er nefnilega sitt hvort málið hvort leyfa eigi sölu á áfengi í matvöruverslunum annars vegar og það hvort afnema eigi einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis hins vegar. 

Mín skoðun er sú að það sé engin ástæða fyrir því að ríkið reki verslun.  Mín skoðun er sú að ríkið eigi að bakka út úr vínsölunni EN að einungis eigi að leyfa sölu á áfengi í sérstökum vínbúðum sem seldu bæði létt og sterkt vín.

Ég er hins vegar á móti því að leyfð verði sala á áfengi í matvöruverslunum.   Þar tel ég að við séum einfaldlega að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. 

Rannsóknir sýna að tveir hópar munu auka neyslu sína fari þetta inn í matvöruverslanir, annars vegar ungt fólk og hins vegar þeir sem drekkar frekar mikið og eru veikir fyrir þegar áfengi er annars vegar (þeir og fjölskyldur þeirra er sá hópur sem má síst við aukinni neyslu).  Það er mín skoðun að þeir eigi ekki að geta keypt áfengi með tannburstanum heldur eigi þeir að þurfa að taka á sig krók til að sækja það.  Þetta er spurning um push eða pull.  Kemur áfengið til þeirra eða þurfa þeir meðvitað að sækja það.  Það eru einfaldlega meiri hagsmunir að auka ekki neyslu þessa hóps með tilheyrandi fjölskylduáhrifum en hagsmunir mínir að þurfa ekki að labba yfir ganginn í Smáralind til að kaupa rauðvínið mitt.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.1.2008 kl. 20:08

8 Smámynd: Leifur Runólfsson

Hjartanlega sammála Sigurði Kára um að ríkið eigi ekki að vera að vesenast i fyrirtækjarekstri sem einstaklingsframtakið getur séð um. Í stað þess að skrifa langloku hér skrifaði ég smotterí um þetta efni á mínu bloggi og vísa í þessa grein. Álitið þar er ekki tæmandi talning, en lýsir samt í megindráttum mínum skoðunum.

http://leifsi.blog.is/blog/leifsi/entry/409811/

Leifur Runólfsson, 9.1.2008 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband