Jólaundirbúningurinn

jolatra_storJólaundirbúningurinn þetta árið hefur gengið vel fyrir sig og um sumt verið nokkuð óvenjulegur.

Frá því að fundum Alþingis lauk hefur mér gefist tími til þess að efna ýmis loforð sem ég hafði gefið varðandi verklegar framkvæmdir hér á heimilinu, sem ég hef fram til þessa ýtt á undan mér.  Ég hef til dæmis notað tímann til þess að leggja nýjar fúur í sturtubotninn okkar hér á heimilinu, gripið í pensil og kippt ýmsum vandamálum í liðinn sem setið hafa á hakanum.

Hinn eiginlegi jólaundirbúningur hefur að öðru leyti gengið vel.  Jólatréð, sem við keyptum af Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna þetta árið, er komið upp, allar gjafir eru komnar í hús og hreindýrið sem við fengum venju samkvæmt í Melabúðinni býður þess að verða matreitt.  Sjálfur er ég í afar góðu jólaskapi sem hefur verið að stigmagnast alla aðventuna.

Það sem hefur kannski verið óvenjulegast við aðdraganda þessara jóla hjá mér er það að í gær fór ég í viðtal í stórgóðum jólaþætti Loga Bergmanns Eiðssonar á Stöð tvö, Logi í beinni.  Þar ræddum við Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, um jólaundirbúninginn og jólahaldið.  Kolbrún, sem er grænmetisæta, fræddi okkur Loga og áhorfendur um það hvað grænmetisætur leggja sér til munns á þessari miklu hátíð.  Sá hluti viðtalsins tók þó nokkuð óvænta, en fyndna stefnu, þegar við ræddum hvaða áhrif þessi annars ágæti matur hefur á meltingu þeirra sem hans neyta.  Í gegnum tíðina hef ég farið í býsna mörg viðtöl en í þetta skiptið varð ég í fyrsta skipti vitni að því að þáttastjórnandi beinlínis hágrét af hlátri í beinni útsendingu því honum þótti umræðuefnið svo fyndið.  Það var gaman að því.

Að viðtalinu loknu gerði ég síðan nokkuð sem ég hef ekki gert áður í sjónvarpi.  Ég söng jólalag með tveimur af mínum bestu vinum, þeim Selmu Björnsdóttur, stórsöngkonu, og Ólafi Teiti Guðnasyni, fyrrum blaðamanni og núverandi starfsmanni hjá Straumi, fjárfestingabanka, en þetta mikla tríó kallar sig Jólastjörnurnar.

Og fyrst við létum til leiðast að syngja jólalag í þætti Loga ákváðum við að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og fluttum hið stórgóða jólalag ,,Nú á ég jólin með þér", sem Björgvin Halldórsson og Ruth Reginalds gerðu ódauðlegt fyrir nokkrum árum síðan.

Nú er ég enginn lágforgjafarmaður þegar kemur að listsköpun sem þessari, þó ég hafi stundum sungið í góðra vina hópi og eigi mér einhverja sögu á þessu sviði frá Verzlunarskólaárunum. 

Fram til þessa hefur það ekki valdið mér neinu stressi að koma fram í sjónvarpi, en ég skal játa að fyrir þennan flutning vottaði fyrir smá sviðsskrekk og ég skalf aðeins.  Engu að síður fannst mér atriðið ganga ljómandi vel, sem er ekki síst Selmu að þakka, og ég vona að þeir sem það sáu taki viljann fyrir verkið.  Að minnst kosti var þetta fyndið og skemmtilegt.

Á morgun er það svo skatan.  Ég er alinn upp við að borða skötu á Þorláksmessu og finnst sá siður ómissandi þáttur í jólahaldinu.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Get ekki látið hjá líðast, sem sambloggari á Mogga að geta þess að þú ert nokkuð góður í söngdeildinni.

Gleðileg jól

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.12.2007 kl. 07:29

2 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Ekki sammála síðasta ræðumanni skil ekki í henni Selmu að láta hafa sig í þetta með þér en tek samt viljan fyrir verkið.  Þú ert ekki kjarklaus.

Gleðileg jól. 

Þórdís Bára Hannesdóttir, 23.12.2007 kl. 15:26

3 Smámynd: Signý

Þú tókst þig bara helvíti vel út með hljóðneman, veit ekki alveg með sönghæfileikan en þetta slapp alveg, alveg Idol vænt allavega.

Gleðileg jól.  

Signý, 23.12.2007 kl. 16:36

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég sá ykkur ekki í sjónvarpinu í gær, en held að megi finna þættina á netinu

En gleðileg jól Sigurður Kári og hafðu það sem allra allra best með fjölskyldu þinni.

Kveðja,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 23.12.2007 kl. 20:49

5 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Gleðileg jól.

Þorkell Sigurjónsson, 24.12.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband