Verður leyndinni af REI-málinu aflétt?

or01 Í gær bárust fréttir af því að náðst hefði samkomulag um að Orkuveita Reykjavíkur myndi kaupa aftur það hlutafé sem eignarhaldsfélög Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar lögðu inn í Reykjavik Energy Invest (hér eftir nefnt REI) í september síðastliðnum.  Í kjölfarið mun Bjarni Ármannsson segja skilið við REI og láta af stjórnarformennsku um áramót.

Því er ljóst að Bjarni Ármannsson mun yfirgefa REI og að það mun vera í 100% eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Það hlýtur auðvitað að vera ákveðið áfall fyrir REI og Orkuveitu Reykjavíkur að Bjarni Ármannsson skuli yfirgefa félagið og selja allt sitt hlutafé í því, ekki síst í ljósi þess að hann hefur sjálfur lýst því yfir að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur fóru þess sérstaklega á leit við hann í aðdraganda REI málsins svokallaða að hann myndi fjárfesta í félaginu til þess að taka þátt í þeirri útrás sem fyrirhuguð var.

En afleiðingar samkomulagsins eru ekki einungis þær að REI hafi misst Bjarna Ármannsson fyrir borð.  Í því felst að Orkuveita Reykjavíkur verður 100% eigandi REI.  Það þýðir að REI verður ekki rekið eins og hvert annað hlutafélaga, heldur verður það svokallað opinbert hlutafélag sem hefur ákveðna þýðingu.

Á 132. löggjafarþingi lagði þáverandi iðnaðar- og viðskiparáðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, en frumvarpinu var ætlað að setja reglur um hlutafélög sem hið opinbera ætti, svokölluð opinber hlutafélög.  Frægasta opinbera hlutafélagið er líklega Ríkisútvarpið ohf.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins merkir hugtakið opinbert hlutafélag:  „félag sem hið opinbera á að öllu leyti."

Í athugasemdum með greininni er inntak hugtaksins ,,opinbert hlutafélag" skilgreint nánar en þar segir:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nokkur sérstök ákvæði um opinber hlutafélög.  Í greininni eru þau skilgreind þannig að um sé að ræða félög sem hið opinbera á að öllu leyti, t.d. ríki og ríkisstofnanir og sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga."

Lítill vafi er á því að REI teljist vera opinbert hlutafélag í skilningi hlutafélagalaga eftir kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar í félaginu.

Samkvæmt frumvarpinu, sem síðar varð að lögum frá Alþingi, voru lögfestar sérstakar reglur sem gilda um opinber hlutafélög, en eiga ekki við um almenn hlutafélög. 

Þannig segir í frumvarpinu, sem nú er orðið að lögum:

,,Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund.  Kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi, og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, er heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir."

Í athugasemdum við þetta ákvæði segir:

,,Rétt þykir að auka möguleika almennings á að fá upplýsingar um málefni opinberra hlutafélaga með þeim hætti að heimila fjölmiðlum að sækja aðalfundi í þessum félögum.  Samsvarandi ákvæði í 65. gr. dönsku hlutafélagalaganna."

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sagði m.a. um þetta ákvæði:

,,Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi, og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir.  Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slíkar m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum."

Í ljósi þeirrar miklu leyndar sem hvílt hefur yfir málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og REI er ljóst að ástæða er til þess að almenningur fái nánari upplýsingar um það hvað hefur gengið á innan þessa félags, sem á endanum er í eigu borgarbúa.  Jafnframt leiðir lagabreytingin til þess að kjörnir fulltrúar geta á aðalfundi krafist þeirra upplýsinga sem þeir hafa ekki haft aðgang að, eins og virtist vera raunin í aðdraganda samruna REI og Geysis Green Energy.

Þá segir í frumvarpinu að :  ,,Í samþykktum opinbers hlutafélags skal kveðið á um að ætíð skuli boða stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafund, svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfund."

Þá segir í frumvarpinu, sem varð að lögum, að fulltrúar fjölmiðla skuli ,,í síðasta lagi fjórtán dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabók vegna aðalfundar eða staðfestu endurrita fundargerðar aðalfundar á skrifstofu félagsins."

Í athugasemdum við þessar lagagreinar segir:

,,Rétt þykir að kveða á um skyldu til að boða ákveðna aðila á hluthafafundi í opinberu hlutafélagi.  Fulltrúa fjölmiðla skal þó aðeins boða á aðalfund.  Félaginu er að sjálfsögðu heimilt að bjóða fleiri aðilum á hluthafafundi, t.d. fulltúum starfsmanna."

En jafnframt segir:

,,Hér er lagt til að fulltrúar fjölmiðla eigi aðgang að fundargerðarbók eða staðfestu endurriti fundargerða vegna aðalfundar sem þeir hafa rétt til að sækja.  Einungis hluthafar eiga þennan aðgang nú.  Réttur fjölmiðlanna takmarkast við aðalfundinn.  Félag getur, ef því sýnist svo, veitt rýmri aðgang að fundargerðum sínum, jafnvel á vefnum."

Í ljósi þess leyndarhjúps sem hvílt hefur yfir málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og REI verður fróðlegt að sjá hvort kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og blaðamenn á fjölmiðlum munu sjá ástæðu til að nýta sér þær heimildir sem ákvæði hlutafélagalaga, sem hér hefur verið lýst, kveða á um.

Geri þeir það, að því gefnu að Orkuveita Reykjavíkur kaupi hlut Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar,  er ekki ólíklegt að ýmsar athyglisverðar upplýsingar verði dregnar fram í dagsljósið.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband