Um sjónvarpsauglýsingar

nammi2Á mánudagskvöldið tók ég þátt í umræðum í spjallþættinum Ísland í dag á Stöð 2, ásamt Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

Tilefni umræðunnar var þingsályktunartillaga sem Ásta Ragnheiður lagði fram á Alþingi á dögunum en tillagan hefur það að markmiði kanna grundvöll fyrir því að settar verði reglur um takmörkun auglýsinga á matvörum sem beint er að börnum ef matvörurnar teljast óhollar, þ.e. innihalda mikla fitu, sykur eða salt.  Er tillagan meðal annars sett fram með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna, en í framkvæmd myndi það þýða, samkvæmt tillögunni, að banna auglýsingar á slíkum vörum í sjónvarpi þegar barnaefni er á dagskrá og heimila þær ekki fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin.

Um það verður ekki deilt að offita, þar á meðal meðal barna, er orðin vandamál á Íslandi sem ástæðulaust er að loka augunum fyrir.  Þvert á móti er hér á ferðinni vandi sem bregðast þarf við og berjast gegn.  Undir það hljóta allir að taka sem vilja stuðla að heilbrigðu líferni barna, ungmenna og landsmanna allra.  Af þeirri ástæðu verður því ekki á móti mælt að tilgangur þingsályktunartillögur Ástu Ragnheiðar er göfugur.

x x x

Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni vill tillöguflytjandinn berjast fyrir því að heilbrigðisráðherra leitist við að ná samstöðu milli framleiðenda, innflytjenda og auglýsenda um að auglýsingum á óhollu matarræði verði ekki beint að börnum og ungmennum.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að æskilegt væri ef framleiðendur, innflytjendur og auglýsendur myndu sjá sóma sinn í því að auglýsa ekki óholl matvæli og drykkjarföng á dagskrártímum í sjónvarpi þegar börn sitja helst við skjáinn.  Þeir eiga sjálfir að finna hjá sér þá sómatilfinningu að reyna ekki að ota óhollu skyndibitafæði, sælgæti og gosdrykkjum að börnum með þeim hætti.

Ég myndi fagna því ef þeir gerðu það að eigin frumkvæði.

x x x

Hins vegar lýsti ég þeirri skoðun minni í þættinum að ég væri almennt andsnúinn því að sett yrðu lög sem takmörkuðu birtingu auglýsingar á löglegum almennum neysluvörum.  Við búum í frjálsu landi og það er eðlilegt að framleiðendum, innflytjendum og söluaðilum sé heimilt að koma vörum sínum á framfæri á auglýsingamarkaði, hvort sem þær innihalda sykur, salt eða fitu.

Við búum í frjálsu landi og eigum því að forðast í lengstu lög að hefta frelsi manna með lögum til þess að koma löglegum neysluvörum sínum á framfæri við neytendur.

Jafnframt tel ég, vilji menn á annað borð ráðast í slíka löggjöf, að erfitt yrði að vega það og meta hvaða vörur teldust óhollar og óæskilegar til auglýsinga á tilteknum útsendingartímum sjónvarpsstöðva og hverjar ekki.

Ég efast ekki um að í slíkum lögum yrði lagt bann við því að auglýsa sælgæti, sykraða gosdrykkir og óhollt skyndibitafæði fyrir útsendingu Stundarinnar okkar og annarra slíkra þátta.  En hvað með aðrar vörur sem einnig eru óhollar og stútfullar af sykri, aspartami, msg og öðrum viðbættum gerviefnum?  Ég nefndi í því sambandi allskyns skyr-, jógúrt- og mjólkurvörur?  Ætti að banna auglýsingar með slíkar vörur gagnvart börnum og ungmennum?

Ég veit það ekki.  En hitt veit ég þó að erfitt yrði að skilgreina hvaða vörur mætti auglýsa og hverjar ekki.

x x x

Í þessum umræðum benti ég líka á það mikilvæga atriði að þó svo að máttur auglýsinga kunni að vera mikill, meðal annars gagnvart börnum og ungmennum, þá eru það á endanum foreldrar þeirra sem kaupa þessar vörur og heimila þeim neyslu þeirra.

Það eru ekki börnin sem fara með fjárráð heimilanna og ákveða hvað er keypt og hvers er neytt.  Slíkar ákvarðanir taka foreldrarnir.

Það er því fyrst og fremst á ábyrgð foreldra barnanna ef þau neyta óhollra matvæla í óhóflegu magni sem leiðir til offituvandamála.  Þeirri ábyrgð verður hvorki hægt að velta yfir á framleiðendur, innflytjendur eða seljendur varanna né á auglýsendur.

x x x

1106231952_reynir_traustasonReynir Traustason, ritstjóri DV, sýnir mér þá upphefð í leiðara sínum í dag að helga skrif sín mér og þeirri umræðu sem ég hef hér rakið.  Þar vísar Reynir til umræðna okkar Ástu Ragnheiðar í þættinum Ísland í dag frá því á mánudagskvöldið.

Í upphafi leiðarans segir Reynir það góða viðleitni hjá Ástu að vilja stemma stigu við þeim auglýsingum sem ýta undir það að börn leggi sér til munns óhollustu.

Ég held að ég, Reynir og Ásta Ragnheiður séum sammála um að óæskilegt sé að börn leggi sér óhollustu til munns.  Að minnsta kosti hef ég lagt mig fram um að slíkt viðgangist ekki á mínu heimili.

Í leiðaranum segir Reynir að athyglisvert hafi verið að heyra mig þvertaka fyrir að banna ætti auglýsingar á óhollustu í barnatímum.

Eins og ég hef rakið hér þá tel ég óskynsamlegt að grípa til slíkra aðgerða með lögum.  Hins vegar fyndist mér æskilegt ef framleiðendur, innflytjendur og seljendur slíkra vara myndu sjálfir sjá sóma sinn í því að birta ekki slíkar auglýsingar þegar börn skipa meginþorra áhorfenda.

En Reynir heldur áfram og gefur mér þá smekklegu einkunn að ég sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni þegar kemur að því að halda stefnunni við að verja frelsið.  Í leiðaranum segir:

,,Hann var í sama spjallþætti spurður um ríkjandi bann í íslenskum fjölmiðlum við auglýsingum á áfengi og tóbaki sem ríkið sér um að selja.  Þingmaðurinn fann því allt til foráttu að íslenskir fjölmiðlar mættu auglýsa umrædd vímuefni sem eru þó fullkomlega lögleg.  Ástæðan væri sú að fólk þyrfti að hafa náð tilteknum aldri til að neyta áfengis.  Þetta er auðvita ekkert annað en furðupólitík og hundalógík því erlendar sjónvarpsrásir, dagblöð og tímarit birta auglýsingar af umræddu tagi og ranglætið er sláandi.  Frelsið sem þingmaðurinn boðar er því aðeins fyrir suma."

x x x

Eins og Reynir Traustason veit þá er óheimilt samkvæmt núgildandi lögum að auglýsa áfengi.  Samt sem áður hafa íslenskir fjölmiðlar á síðustu misserum verið uppfullir af slíkum auglýsingum.  Ástæðan er sú að núgildandi löggjöf er haldin stórkostlegum göllum vegna þess hversu erfitt er að framfylgja bannákvæðum laganna, þau séu gengin sér til húðar.  Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem falið hefur verið að framfylgja þeim.

Ég sé mig hins vegar tilknúinn til þess að leiðrétt hinn flugbeitta penna sem skrifaði leiðara DV í dag.  Hann sagði að ég hefði fundið því allt til foráttu að heimila íslenskum fjölmiðlum að auglýsa áfengi og tóbak.

Það skal tekið fram að ég hef aldrei lagt til að heimilað verði að auglýsa tóbak.  Ég hef hins vegar aldrei verið fylgismaður auglýsingabanns á áfengi.

Ef Reynir Traustason hefði haft fyrir því að kynna sér mín störf á Alþingi frá árinu 2003 áður en hann ritaði leiðara sinn í dag þá hefði hann séð að ég hef oftar en einu sinni lagt fram frumvarp sem mælir fyrir um það að heimila auglýsar með léttvín og bjór í íslenskum fjölmiðlum, með ýmsum takmörkunum sem fram koma í frumvarpinu.  Þær takmarkanir helgast af þeirri staðreynd að flutningsmenn frumvarpsins töldu og telja enn áfengi ekki vera eins og hverja aðra neysluvöru, eins og epli og appelsínur, þegar af þeirri ástæðu að kaupendur þurfa að hafa náð 20 ára aldri til þess að geta keypt þær.  Því væri réttlætanlegt að um slíkar auglýsingar giltu sérsjónarmið í stað þess að heimilt væri að birta slíkar auglýsingar í sjónvarpi til dæmis í aðdraganda sýninga á Stundinni okkar og öðru barnaefni.  Sú stefna mín stendur óhögguð.  Hins vegar er erfitt að halda því fram að með þessum tillöguflutningi mínum hafi ég leitast við að tryggja frelsi sumra en ekki allra, eins og Reynir heldur fram.

Sú leið sem lögð var til í frumvarpinu er ekki nein prívatskoðun mín, því sex aðrir alþingismenn fluttu málið með mér.  Þar við bætist að frumvarpið er í samræmi við tillögur sem stýrihópur ríkislögreglustjóra um viðbrögð við áfengisauglýsingum lagði til skýrslu sem út kom í nóvembermánuði árið 2001 og í samræmi við niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá 25. febrúar 2004 og dóm Evrópudómstólsins í máli nr. E-4/04 (Pedicel AS vs. Social - og helsedirektoratet).

Ég kippi mér ekki upp við það þó Reynir Traustason lýsi mér sem bitlausum hníf og kalli skoðanir mínar, sem byggjast á tillögum og niðurstöðum málsmetandi stofana á Íslandi og í Evrópu, hundalógík og furðupólitík.

Í fullri vinsemd kann ég því hins vegar ekkert sérstaklega vel að ritstjórinn geri mér upp skoðanir og fari rangt með.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Svona úr því að löggjafninn er að velta þessum málum fyrir sér:

Hvað myndi það kallast ef foreldri, sem ábyrgðarmaður barns, myndi stuðla að eða láta afskiftalaust að barnið neytti efnis sem í óhóflegu magni hefði heilsuspillandi áhrif á barnið? Myndi það ekki varða við barnaverndarlög?

Hvað er þá langvarandi ofneysla á orkuríku fæði barna annað en lögbrot? Og ef það er ekki, er þá ekki athugandi að herða slíka löggjöf?

Auðvitað er þetta mjög vandasamt mál, en það eru til dæmi um foreldra sem leyfa frjálsan aðgang barna sinna að sælgæti og fitandi fæði svo börnin eru langt langt yfir kjörþyngd.

Júlíus Sigurþórsson, 21.11.2007 kl. 15:53

2 Smámynd: J. Trausti Magnússon

Ég bloggaði um þetta eftir kastljósþáttinn. Sjá hér: http://jtrausti.blog.is/blog/jtrausti/entry/369386

Svo er þetta líka spurning um svo margt annað en sykur, fitu og salt. Hvað með öll litarefnin, rotvarnarefnin og öll þau uppfyllingarefni sem eru sett í vöruna okkar. Margt er farið að benda til þess að þessi efni hafi mjög slæm áhrif á heilsu okkar. 

Mér finnst líka að opinberir aðilar sem reka til dæmis leikskóla og grunnskóla eigi að taka það upp hjá sjálfum sér að útiloka ákveðna þætti eins og td MSG. aspartam, o.fl.   

J. Trausti Magnússon, 21.11.2007 kl. 21:57

3 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

Ef við ölum fólk alltaf upp í þeirri trú að það þurfi alldrei að bera ábyrgð á neinu og það sé alltaf hægt að kenna öðrum um þá endum við með fullt samfélag af aumingjum. Þetta er hreint ótrúleg umræða og heimskuleg. Þegar foreldrar telja sig ekki geta sagt börnunum sínum hvað er óhollt hvað er hollt hvað sé gott stundum og hvað sé nauðsynlegt á hverjum morgni. Þá held ég að það fólk eigi ekki að eiga börn. 

Ég er ánægður með þig svona í meginatriðum held ég að ég sé sammála flestu sem þú hefur sagt í sambandi við áfengi og þetta frumvarp.

Vona bara að þú náir að stoppa þessa vitleysu. 

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 22.11.2007 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband