Tvítyngd stjórnsýsla?

647-220Á laugardag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, þar sem hann lagði til að hugað yrði að tvítyngdri stjórnsýslu, enskri og íslenskri, hér á landi.  Í greininni segir m.a.:

,,Við ættum einnig að huga að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri, sem myndi gera Ísland að enn álitlegri kosti fyrir erlenda fjárfesta og auðvelda samskipti.  Það segir sig sjálft að tryggja þarf hagstætt skattaumhverfi og áreiðanlegri fjarskipti við umheiminn með nýjum sæstreng."

Ritstjóri vefritsins Eyjunnar, Pétur Gunnarsson, óskaði eftir viðbrögðum mínum við skrifum varaformanns Samfylkingarinnar og spurði hvort ég væri sammála Ágústi Ólafi um það hvort huga ætti að tvítyngdri stjórnsýslu, enskri og íslenskri, hér á landi.

Spurningunni svaraði ég með eftirfarandi hætti:

“Nei, ég er ekki sammála varaformanni Samfylkingarinnar um huga ætti að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri, hér á landi? Satt best að segja að mér finnst hugmyndin frekar einkennileg og átta mig ekki alveg á því á hvaða ferðalagi varaformaðurinn er í þessu máli.

Þó svo að menn kunni að vera hlynntir því að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu þá mega þeir hinir sömu ekki gleyma því að við erum ennþá Íslendingar og íslenska er okkar tungumál og tengist menningu okkar og sögu órjúfanlegum böndum. Íslenska stjórnkerfið, stjórnsýslan og lögin eru hluti af þessari menningu. Ég held að með því að enskuvæða stjórnsýsluna værum við að stíga stórt skref í átt frá okkar menningararfleifð, skref aftur á bak.

Í þessu sambandi hlýtur maður að velta því fyrir sér hversu langt menn vilja ganga í að enskuvæða stofnanir samfélagsins. Er til að mynda einhver munur á tvítyngdri stjórnsýslu og tvítyngdum dómstólum? Bæði stjórnsýslan og dómstólar starfa samkvæmt lögum, fjalla um hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja og vilji menn stíga það skref sem Ágúst Ólafur vill stíga varðandi stjórnsýsluna eru þá dómstólarnir ekki næstir? Það hlýtur að vera. Lagasafn Íslands hlyti einnig að verða gefið út á ensku svo útlendingar gætu kynnt sér þær réttarreglur sem hér gilda og svo framvegis. Mér segir svo hugur að eitthvað myndi svona ævintýri kosta skattgreiðendur.

Hugmyndir eins og þessar eru mér því ekki að skapi. Þar fyrir utan sé ég ekki hvert vandamálið er. Starfsfólk stjórnsýslunnar er almennt vel menntað og getur auðveldlega greitt úr málum fyrirtækja hvort sem þau eru innlend eða erlend. Þar fyrir utan er það svo í raunveruleikanum að það eru ekki fyrirtækin sjálf sem annast hagsmunagæslu sína gagnvart stjórnvöldum. Það gera íslenskir lögmenn sem starfa fyrir þessi fyrirtæki og eftir því sem ég veit best þá eru þeir fullfærir um að gera það í því stjórnsýsluumhverfi sem við búum við í dag.

Ég get hins vegar heils hugar tekið undir það með Ágústi Ólafi að við eigum að stefna að því að gera Ísland að enn álitlegri kosti fyrir erlenda fjárfesta. Það gerum við með því að styrkja og efla menntakerfið, tryggja hagstætt skattaumhverfi, einfalda alla stjórnsýslu og fleira og fleira. Enskuvæðing íslenskrar stjórnsýslu er hins vegar ekki leiðin til þess.

Við eigum að stefna að því að styrkja og efla íslenska tungu, ekki grafa undan henni.”

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sjálfu sér ekki svo slæmt, að geta veitt útlendingum ákveðið aðgengi að okkar stjórnsýlu með því að hafa ákv. grunnupplýsingar á ensku.

Hins vegar er það meira áhyggjuefni ef stjórnarliðar tala tveimur tungum eða fleiri. Mér sýnist þetta "frjálsræði" ýmissa stjórnarliða og jafnvel ráðherra benda til þess að annað hvort þurfi ýmsir lengri aðlögun að því að vera í stjórn og bera ábyrgð á sínum orðum, eða að þetta stjórnarsamstarfi verður varla langlíft.

Jónas Egils. (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 19:57

2 Smámynd: Hrappur Ófeigsson

"Þó svo að menn kunni að vera hlynntir því að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu þá mega þeir hinir sömu ekki gleyma því að við erum ennþá Íslendingar og íslenska er okkar tungumál og tengist menningu okkar og sögu órjúfanlegum böndum. Íslenska stjórnkerfið, stjórnsýslan og lögin eru hluti af þessari menningu. Ég held að með því að enskuvæða stjórnsýsluna værum við að stíga stórt skref í átt frá okkar menningararfleifð, skref aftur á bak."

Viltu meina að Ísland geti gengið í evrópusambandið og "Íslenska stjórnkerfið, stjórnsýslan og lögin" væru áfram innan seilingar fyrir íslenska auðmenn ?

Ég held að hluti af einkavinavæðingunni sé til að koma öllu "steini léttara" undan og skilja síðan almúgann eftir í kló auðhringja sem heimta 24,5% ávöxtun á ári.

Ég er hinsvegar sammála varðandi enskuna, ættum frekar að lögleiða pólsku sem okkar mál og tælensku sem annað mál,  bara svo að greyið gamalmennin á elliheimilunum geti gert sig skiljanlegt við starfsfólkið.

Lengi lifi littli maðurinn.

Hrappur Ófeigsson, 27.9.2007 kl. 00:57

3 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ánægð með þig Sigurður Kári, hann er hátt metinn hjá mér hann Ágúst Ólafur, en ég er ekki sammála honum þarna. Um helgina komu einnig Mörður Árna fram og Sigríður Andersen og fekk þessi hugmynd ekki góðar undirtektir. Þetta er bara hreynlega ekki hægt, við megum nú ekki gleyma því að hér er töluð íslenska, þó það virðist oft orðið gleymast í stórverslunum og víða.

Bestu kveðjur til þín,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 30.9.2007 kl. 22:27

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Hæ aftur Sigurður Kári

Ég las pistilinn hjá Ágústi Ólafi þar sem hann útskýrir þetta aðeins betur. Mér fannst þetta virka ekki eins flókið og mikið eins og svo margir vilja meina að það sé. Er ekki eitthvað til í því sem hann er að segja þarna ? mér datt í hug að kannski væru einstaklingar of fljótir að dæma það sem hann er að koma með, kannski ættu þið að skoða þetta betur,

Hvað segir þú um það Sigurður Kári ?

Kveðja til þín enn og aftur og alltaf,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 1.10.2007 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband