Útgjöld Íslendinga til menntamála langt umfram meðaltal OECD

myndafhaskoliÁ síðasta kjörtímabili og í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hef ég ítrekað staðið í rökræðum við stjórnmálamenn úr öðrum stjórnmálaflokkum um það hvernig við Íslendingar höfum staðið að fjárframlögum til menntamála. 

Í þeim umræðum, sem hafa átt sér stað á Alþingi, í fjölmiðlum og á bloggsíðum, hafa andstæðingar mínir staðfastlega haldið því fram að við Íslendingar værum eftirbátar annarra ríkja þegar kemur að fjárframlögum til menntamála.  Slíkum staðhæfingum hef ég ávallt hafnað og bent á að þvert á móti stæðum við öðrum þjóðum framar á því sviði.   Í þeirri umræðu hef ég eftir fremsta megni reynt að rökstyðja mál mitt með því að vísa til þeirra tölfræðilegu upplýsinga sem safnað hefur verið saman og birtar af óháðum rannsóknaraðilum.

Í dag birtist áhugaverð frétt um þetta mál á vefsíðu Morgunblaðsins, en þar segir:

,,Útgjöld Íslendinga til menntastofnana á nemanda í Bandaríkjadölum árið 2004 voru umtalsvert hærri en árið 2003. Alls vörðu Íslendingar 8264 Bandaríkjadölum á hvern nemanda í fullu námi frá grunnskólastigi til háskólastigs en höfðu varið 7438 dölum á nemanda árið 2003. Meðaltal OECD ríkja 2004 var 7061 Bandaríkjadalir.

Þetta kemur fram í ritinu Education at a Glance 2007, sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefir út árlega. Á öllum skólastigum nema á leikskólastigi vörðu Íslendingar hærri upphæð á nemanda árið 2004 en árið 2003.

Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 8% af vergri landsframleiðslu árið 2004 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Ísland varði einnig 8% af vergri landsframleiðslu til menntamála árið 2003. Meðaltal OECD ríkja var 5,8%."

Vonandi verður ekki þörf á því að deila um þessar staðreyndir í umræðum um fjárframlög til menntamála á því kjörtímabili sem nú er hafið.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt. Eins og tölurnar eru settar fram. Á Íslandi er fyrsta og annað skólastig á hendi sveitarfélaga og framlögin þar ásamt framhaldsskólanum hærra en meðaltalið. Afhverju? Flettum áfram og þá kemur í ljós að Ísland er eitt "yngsta" land innan OECD. Framlög til háskólastigsins er fyrir neðan meðallag OECD. Allt þetta athyglisvert þegar það er skoðað að íslenskir grunnskólakennarar eru með ein lægstu laun innan OECD. Vona að störf menntamálanefndar Alþingis verði afkastamikið í vetur undir þinni verkstjórn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 09:26

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ánægjulegt að vísu ef öll sagan væri sögð. Ég ólst upp í afar afskekktri sveit þar sem enginn hafði notið skólagöngu umfram lágmark til fermingar. Þarna gat ég setið á tali við menntamenn. Ég stundaði sjó á togurum og kynntist þar menntamönnum af ýmsum uppruna en enginn var þar langskólagenginn. Þarna kynntist ég vélstjóra sem var einn best menntaði maður sem ég hef kynnst þó ekki hefði hann notið skólagöngu umfram vélstjóranám.

Ég hef kynnst mörgum langskólagengnum lærdómsmönum og fundið í þeirra hópi ótrúlega marga raunalega heimskingja af þeirri stærð að nærvera þeirra var þjáning, beinlínis vegna heimsku!

Niðurstaða mín er ekki sú að skólanám geri menn heimska. Ég held að nám hafi þróast meira í átt til teoriskrar þekkingar en menntunar í góðum skilningi.

Ef þetta er rétt hjá mér þá er brýnt að endurskoða fræðslulöggjöfina. En líklega er óvíst að ég hafi stöðu til að úrskurða í þessu álitamáli.

Árni Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband