Enn berst Útvarpi Sögu liðsstyrkur frá Frjálslynda flokknum

utvarpsaga%20logo_2127958345Fyrir nokkur ritaði ég pistil á þessa heimasíðu þar sem ég vakti athygli á því að tveir af frambjóðendum Frjálslynda flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar, þau Grétar Mar Jónsson, alþingismaður, og Ásgerður Jóna Flosadóttir, væru orðnir dagskrárgerðarmenn á Útvarpi Sögu, þeirri ágætu talmálsstöð.

Ástæðan fyrir því að ég vakti athygli á þessum sérstæðu mannaráðningum innan stöðvarinnar var sú að fram til þessa hefur útvarpsstjórinn, Arnþrúður Karlsdóttir, lagt mikið upp úr því að stöðin sé frjáls, óháð og hlutlaus.

Ég ljósi þeirrar miklu áherslu sem útvarpsstjórinn hefur lagt á þessa þætti þótti mér heldur einkennilegt að tveir af dagskrárgerðarmönnum stöðvarinnar væru innvígðir og innmúraðir félagar í Frjálslynda flokknum.

Raunar er það svo að Útvarp Saga hefur á síðustu mánuðum og misserum sýnt málflutningi Frjálslynda flokksins mikla athygli og hefur mér á köflum þótt sem stöðin hafi virkað sem málgagn flokksins og forystu hans.

Niðurstaða mín var sú að hafi Útvarp Saga einhverntímann verið frjáls, óháð og hlutlaus þá væri hún það ekki lengur, þrátt fyrir að innanborðs á Útvarpi Sögu væru ágætir dagskrárgerðarmenn, eins og Jóhann Hauksson og Sigurður G. Tómasson.

Mér finnst ástæða til að taka það sérstaklega fram, vegna þeirra viðbragða sem ég fékk við fyrri skrifum mínum um Útvarp Sögu, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fjölmiðlar taki afstöðu með eða á móti mönnum, málefnum eða stjórnmálaflokkum, svo lengi sem liggi fyrir hvaða erinda fjölmiðlarnir eru að ganga.  Ég minnist þess ekki að forsvarsmenn Útvarps Sögu hafi séð ástæðu til að gera grein fyrir tengslum stöðvarinnar og Frjálslynda flokksins eða yfir höfuð viðurkennt að þau séu fyrir hendi, heldur hafa þeir frekar ítrekað hið afdráttarlausa hlutleysi stöðvarinnar.

4809982359Ég varð enn sannfærðari í trúnni á hlutdrægni stöðvarinnar þegar ég vaknaði í morgun og kveikti á útvarpinu og ætlaði mér að hlusta á morgunþátt Jóhanns Haukssonar, Morgunhanann.  Því miður var Jóhann ekki við hljóðnemann, heldur leysti annar geðþekkur dagskrárgerðarmaður hann af, nefnilega hinn vörpulegi Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins.  Og ekki leið á löngu þar til varaformaður Frjálslynda flokksins og fyrrverandi þingmaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, var mættur í stúdíóið til að ræða við Jón um landsins gagn og nauðsynjar.

Nú bíð ég spenntur eftir því að heyra í þeim Kristni H. Gunnarssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni, en þeir eru einu þingmennirnir í þingflokki Frjálslynda flokksins sem ekki hafa komist á launaskrá hjá Útvarpi Sögu sem dagskrárgerðarmenn.

Þeir félagar hljóta að hefja upp raust sína á öldum þessa ljósvaka fyrr en síðar.

Sigurður Kári.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér finnast þetta ekki merkilegri tíðindi en þau að Morgunblaðið gangi erinda Sjálfstæðisflokksins. Mogginn hefur ekkert sérstaklega haft fyrir því í gegnum tíðina að tilkynna með formlegum hætti stuðning sinn við íhaldið.

Hvers vegna ert þú að gera þá kröfu að Arnþrúður gefi út einhverjar formlegar stuðningsyfirlýsingar? Til hvers? Hún gæti þess vegna skipt um skoðun á þessu eins og því að hún hefur lengi stutt Framsóknarflokkinn.

Ég skal hins vegar taka undir með þér að Frjálslyndi flokkurinn hefur verið einstaklega iðinn að seilast til áhrifa þarna, mér fannst eins og það hefði byrjað fyrst með innhringinum og síðan auglýsti flokkurinn mikið þarna. Ég held að það sé liðin tíð að við séum mikið að spá í hvaða flokka fjölmiðlarnir styðja óformlega, við eigum að vera orðin nægilega gömul og þroskuð til að sjá í gegnum málflutning einstaklinganna til að gera veður út af þessu. Hér er ekkert nýtt á ferðinni.

Þó svo að málpípur Frjálslyndra hafi verð duglegri en aðrir að koma sér á framfæri þarna þýðir það ekki endilega að miðillinn sé ekki eftir sem áður frjáls.

Haukur Nikulásson, 30.7.2007 kl. 14:14

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Meðal annara orða, hvaðan í fj. man ég eftir þessu orðalagi: Innvígður og innmúraður?

Árni Gunnarsson, 30.7.2007 kl. 16:54

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú man ég það, held ég. Það var áreiðanlega í sambandi við einhvern mann út af einhverri kæru.

Var þetta ekki rétt hjá mér?

Árni Gunnarsson, 30.7.2007 kl. 17:00

4 Smámynd: Jón Magnússon

Ágæti Sigurður þú telur greinilega betra að veifa röngu tré en öngvu. Það er ekkert samband milli Útvarps Sögu og Frjálslynda flokksins.

Ég var með pistla og þætti á Útvarpi Sögu áður en ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn.  Ég var beðinn um að hlaupa í skarðið fyrir Jóhann Hauksson þessa viku vegna sumarfría.

Viðmælendur mínir þessa vikuna verða ýmsir þ.á.m. þingmaður Sjálfstæðisflokksins á morgun.  Því miður verð ég svo stutt við þáttastjórn í þetta skiptið að mér vinnst ekki tími til að fá þá ágætu menn Kristinn H. Gunnarsson og Guðjón Arnar Krisjtánsson. 

Viðtalið við Magnús Þór Hafsteinsson var afar gott og þar vakti hann máls á öryggis- og hagsmunamálum þjóða í Norður Atlantshafi og hvað við þyrftum að gera í því sambandi. Voru einhver sárindi vegna þess að allt er upp í loft í ríkisstjórninni vegna 4 herþotna sem eiga að koma 4 sinnum á ári til æfinga. Ráðherra Samfylkingarinnar segir að það sé allt í lagi að þær komi en þá megi þær ekki æfa lágflug. Eiga þær þá að æfa háflug? Gera þær það ekki hvar sem er? Síðan segir utanríkisráðherra að það þurfi að meta varnarþörfina. Væri ekki eðlilegt að gera það áður en erindi eru borin upp í fastaráði NATO.

Jón Magnússon, 30.7.2007 kl. 18:27

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Sigurður Kári, mikið gleðja þessar athugasemdir þínar um FF mig mikið. Ég sem var svo til kominn að þeirri niðurstöðu að FF væri úr sögunni. En þar sem þú óttast hann þá er greinilega eitthvað spunnið í hann. FF á greinilega framtíð fyrir sér.

Gunnar Skúli Ármannsson, 30.7.2007 kl. 21:52

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Útvarp saga er skemmtileg stöð.

Sigurður Þórðarson, 31.7.2007 kl. 12:32

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Útvarp Saga eru afar þörf stöð. Hún er oftast málsvari lítilmagnans, en hagar líka seglum eftir vindi eins og í tilfelli FF, sem var duglegur að auglýsa hjá Sögu fyrir kosningarnar í vor.

Það er auðvitað ótækt, að alþingismenn eins stjórnmálaflokks, FF; séu innanbúðar hjá útvarpi Sögu, sem auglýsir sig sem frjálsa og óháða stöð ! Vonandi sér útvarpsstjórinn, að svoddan háttarlag gengur ekki gagnvart hinum stjórnmálaflokkunum. Útvarp Saga verður að bæta úr þessu óréttlæti og ráða menn úr öllum þingflokkum til afleysinga, dreifa þessum ráðningum niður á kjörtímabilið? Því ekki ?

Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 31.7.2007 kl. 12:41

8 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður.

Ekki er ég sammála þér í þessum málflutningi sem þú er með hérna. Ég vil taka það fram að ég hef verslað við þessa útvarpstöð Útvarp Sögu í formi auglýsinga auk þess hefur stöðin boðið mér uppá viðtöl. Það var frábært hjá þeim að hafa gert þetta.  Þegar ég var í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og sl Alþingiskosningar hún var máttarstólpum mínum

þar voru tekin viðtöl við mig sem fólk tók eftir. Eins og þegar ég var í viðtali við Jóhann Hauksson og fleiri sem gerðu mínum málflutningi góð skil. Fyrir utan að útvarpstjórinn Arnþrúður Karlsdóttir hefur boðið mér að halda pistla á Útvarpi Sögu. Vegna tíma skort og annanna hefur ekki af þessu orðið.

Það skal tekið fram Útvarp Saga er með ódýrustu auglýsingar sem um getur þótt víða væri leitað og þú ættir að kynna þér þau mál, áður enn þú hendir svona bulli fram. Ég held Sigurður að þú væri meiri maður enn að vera með minni máttarkennd yfir að flokksmenn frjálslyndaflokksins séu að koma sínu erindi á framfæri með ódýrasta hætti.

Hvernig væri það að við Sjálfstæðismenn tækjum okkur til og töluðu við Arnþrúði Karlsdóttur útvarpstjóra og værum til dæmis. Með þætti til að upplýsa þjóðina hvað við stöndum fyrir. Það er heiðarlegt og mannlegt.

Það sæmir þér ekki Sigurður að vera með þessi upphrópunarmerki. Þú sem réttkjörin Alþingismaður. Þú átt að fylgja samfæringunni þinni. Jóhann Hauksson og Sigurður G Tómasson hefur verið með frábæra þætti sem fólkið er mjög sátt við. Enda eru aðrar stöðvar farnar að vanda sig í frétta tengdu efni.

Við Sjálfstæðismenn eigum ekki að láta frjályndaflokkin taka okkur á taugum. Sjálfstæðismenn verða að skilja að fólk verður að hafa skoðanir og við verðum að hlusta á raddir fólksins annar getur farið fyrir sumum eins og að detta út af þingi. Tímarnir eru að breytast fólkið tekur eftir hvað menn gera og athæfast.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 31.7.2007 kl. 13:58

9 Smámynd: Árni Helgi Gunnlaugsson

Sæll Sigurður.  Ég er sammála þér í því, að fjölmiðill á ekki að sigla undir fölsku flaggi.  Alveg eins og með eignarhaldið; það á ekki að setja nein lög um slíkt, heldur á það bara að liggja ljóst fyrir neytendum viðkomandi fjölmiðils.

Vil einnig benda þér á, að Arnþrúður fjallaði um þennan pistil þinn á útvarpsstöðinni sinni í morgun og bauð þér formlega til starfa á Sögu - henni vantar alltaf starfsmenn til að fylla uppí dagskrárliði.  Ég vil hér með skora á þig að taka þessu boði hennar, á meðan þú ert í fimm mánaða sumarfríinu þínu. 

Árni Helgi Gunnlaugsson, 1.8.2007 kl. 01:19

10 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Hef ekki áhuga á þvi að hlusta á Útvarp Sögu. 

Nálgast yfirleitt málin frá einni hlið og hafa ekki áhuga á að kynna sér málið frá öllum hliðum.  Það er allavegana mín upplifun af þeirra umfjöllunum

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 1.8.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband