Enn um bensínverð í Reykjavík og á landsbyggðinni

2004-01_Thumb_9517_BensinÁ föstudaginn var skrifaði ég pistil á þessa heimasíðu um bensínverð og velti því fyrir mér hvort bensínverð hér á höfuðborgarsvæðinu væri hærra en á landsbyggðinni. 

Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum var sú að í síðustu viku fór ég norður í land og tók þá eftir því að veriðið á bensínlítranum hér í Reykjavík var 4 krónum hærra en á Akureyri.

Diggur norðlenskur lesandi þessarar heimasíðu, Hermann Einarsson, skrifaði athugasemd við þennan pistil minn og taldi að ég hefði keypt bensínið hjá Orkunni norðan heiða og að það skýrði verðmuninn.

Það er ekki rétt.  Ég keypti bensínið hjá einu af stóru olíufélögunum í sjálfsafgreiðslu.  Bensínið var keypt hjá sama fyrirtæki, á sitthvorum staðnum, og þjónustustigið sem ég valdi mér var það sama.  Samt var verðmunurinn 4 krónur á hvern lítra.

Um síðustu helgi fór ég síðan í sumarbústað fyrir austan fjall.  Eins og áður tók ég bensín hér í Reykjavík áður en ég lagði af stað og dældi því sjálfur á bílinn.  Líterinn kostaði nú 126,3 krónur hér í höfuðborginni.

Ég veitti því sérstaka eftirtekt hvað bensínlíterinn hjá sama fyrirtæki kostaði þegar ég var kominn yfir Hellisheiði og austur á Selfoss.  Og það var ekki að sökum að spyrja, bensínlíterinn á Selfossi var 4 krónum ódýrari en í Reykjavík og kostaði 122,3 krónur.

Maður hlýtur að spyrja hvort það sé tilviljun að bensínlíterinn sé 4 krónum ódýrari norðan heiða og austan en í Reykjavík?  Ekki fæ ég séð að nein sérstök rök réttlæti slíkan verðmun, a.m.k. ekki á Selfossi annars vegar og í Reykjavík hins vegar.  Ég geri ráð fyrir að bensínið sem selt er á Selfossi sé flutt þaðan frá Reykjavík.  Flutningskostnaður úr Örfyrisey og upp á Höfða er lægri, en flutningskostnaður frá sama stað og austur á Selfoss.  Samkvæmt því ætti bensínlíterinn að vera dýrari á Selfossi en á Höfðanum í Reykjavík, en svo er ekki.

Nú má ekki skilja þessa þessar óvísindalegu verðkannanir mínar á bensínverði þannig að ég sé með þeim að berjast fyrir því að verðlag á bensíni á landsbyggðinni verði hækkað til móts við það sem gerist og gengur í Reykjavík.  Þvert á móti myndi ég vilja sjá bensínverð lækka í Reykjavík til móts við það sem gerist og gengur á landsbyggðinni, a.m.k. á þessum tveimur stöðum sem ég hef hér nefnt, enda sé ég engin rök fyrir því af hverju Reykvíkingar ættu að greiða fleiri krónur fyrir bensínið en íbúar landsbyggðarinnar.

Hvort sem þeir sem lesa þessa þessar hugleiðingar eru mér sammála eða ekki væri forvitnilegt að fá skýringar á því af hverju þessi verðmunur stafar.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞEgar ég fer austur í bústað, miða ég við, að koma við hjá þeim í Olís á leiðinni heim, tanka þar því 80 til 90 lítra tankur gefur í sparnað 320 tl 360 krónur.  Ekki há upphæð en þegar menn þurfa hvort sem er, að fylla, er betra að fylla þar sem ódýrast er.

 Verð á bensíni þarf nú að vera allhátt, til að Esso (N1) geti borgað svona stöðvar sem eru í Vatnsmýrinni.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 17.7.2007 kl. 08:33

2 Smámynd: B Ewing

Bensínverð er eilífðarvandamál hér á landi.  Sjálfur ráðlegg ég öllum ferðalöngum að aka úr bænum með hálftóma / nær tóma tanka (eftir því hve langt er að sækja ódýra(ra) bensínið). 

Enn meiri sparnaður fæst með því að versla við "lággjaldafélögin" innan stóru olíufélagana. Sé maður vakandi fyrir verðinu þá getur maður fundið stöð sem selur lítran á um 118kr í dag.

ÓB, Orkan og síðast en ekki síst smáolíufélagið Atlantsolía hafa staðið sig hvað skást (ekki hægt að segja best) í þessu að mínu mati. Hið síðastnefnda hefur á hinn bóginn gefið aðeins eftir í samkepnninni, en mér þykir það afar slæmt því ég á dælulykil, og hef ekki (getað/ viljað) notað hann í nokkurn tíma vegna hás lítraverðs hjá AO miðað við sambærilegar stöðvar. 

Hitti reyndar aldrei á Egó stöð einhverra hluta vegna (?!?) þannig að aðrir verða að miðla af reynslu sinni af þeim.

Hvers vegna verðið hjá félögunum er í svona miklu ósamræmi við flutningskostnaðinn held ég að skýrist á því að næg viðskipti virðast vera á Höfuðborgarsvæðinu. Flestir ferðamenn "fylla á" áður en lagt er af stað og koma því framhjá stöðvunum á Selfossi og Akureyri með fulla / hálffulla bensíntanka, bölva kannski í hljóði og halda síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist...

Einfaldlega enn eitt dæmið um sofandahátt íslenskra neytenda, því miður.

B Ewing, 17.7.2007 kl. 08:56

3 identicon

Er þetta bara ekki lögmálið um framboð og eftirspurn?  Eftirspurn eftir eldsneyti á bíla er meiri á Höfuðborgarsvæðinu heldur en úti á landi og þess vegna er verðið hærra á Höfuðborgarsvæðinu.  Etv. er þetta að hafa lægra benzínverð úti á landi aðferð landsbyggðarfólks til að lokka fleiri ferðamenn til sín.

Örlygur N. Jóhannsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband