Samstarf Háskóla Íslands og Harvard háskóla undirritað

1138916439636Í dag undirrituðu Háskóli Íslands og Harvard háskóli í Bandaríkjunum merkilegan samstarfssamning sem heilbrigðisráðherra staðfesti með undirritun sinni.

Um er að ræða samstarfssamning milli Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Faraldsfræðideildar Harvard háskóla, Harvard School og Public Health.  Samstarfið felur í sér sameiginleg rannsóknarverkefni og uppbyggingu á framhaldsmenntun í lýðheilsuvísindum við Háskóla íslands, en jafnframt ætla skólarnir að vinna að rannsóknarverkefni á krabbameini í blöðruhálskirtli sem byggir á einstökum íslenskum gögnum.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands er ný af nálinni, en hún fer með þverfræðilegt meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum.  Um 50 nemendur hefja nám við deildina í haust og munu kennarar og nýdoktorar við Faraldsfræðideild Harvard háskóla taka þátt í þróun námsbrautarinnar ásamt því að kenna námsefnið, eins og fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

~Verkefnið sem snýr að rannsókn á krabbameini í blöðruhálskirtli er á byrjunarstigi en slíkt krabbamein er í dag næstalgengasta dánarorsökin vegna krabbameina hérlendis.  Auk Harvard háskóla koma Krabbameinsfélagið, Hjartavernd og Landspítalinn að rannsókninni sem snýr að áhættuþáttum og forspárþáttum um framvindu sjúkdómsins og lífsgæðum sjúklinga.

Það er engum blöðum um það að fletta að samningurinn felur í sér mikla viðurkenningu á störfum þeirra sem komið hafa að stofnun og uppbyggingu hinnar nýju Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.  Harvard háskóli er ein virtasta menntastofnun heimsins.  Hún velur samstarfsaðila sína af mikilli kostgæfni og þeir sem til þekkja vita að skólinn fer ekki í samstarf sem þetta nema samstarfsaðilarnir standi þeim jafnfætis á þeim fræðasviðum sem um ræðir.

Þess vegna er samstarfssamningur háskólanna tveggja mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands og forsvarsmenn hinnar nýju Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, þar á meðal fyrir góða vinkonu mína, dr. Unni Önnu Valdimarsdóttur, dósent við miðstöðina, og fyrir framtak sitt eiga þeir heiður skilinn.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Við Harvard menn gleðjumst. Kv.  B

Baldur Kristjánsson, 7.6.2007 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband