Evrópuspuni Guðna Ágústssonar

198-220Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með málflutningi Guðna Ágústssonar eftir að hann tók við embætti formanns Framsóknarflokksins.

Í mínum huga er Guðni Ágústsson vel að titlinum kominn, ef svo má segja, enda hef ég haft það á tilfinningunni að hann eigi mikið í því fylgi sem Framsóknarflokkurinn þó hlaut í nýliðnum kosningum til Alþingis.

Á fyrstu vikum sínum í formannsstóli Framsóknarflokksins hefur Guðni Ágústsson verið að setja mark sitt á stefnu flokksins.  Augljóst er að Guðni hefur talið þann kostinn vænstan fyrir Framsóknarflokkinn að sveigja stefnu hans hressilega til vinstri.  Það þarf svo sem ekki að koma mjög á óvart því Guðni Ágústsson hefur margoft lýst sig fulltrúa vinstriarms Framsóknarflokksins.  Þó svo að ég sé fyrir mitt leyti ekki hrifinn af því þegar stjórnmálaflokkar sveigja stefnu sína til vinstri á eftir að koma í ljós hvort sú stefnubreyting verður Framsóknarflokknum til framdráttar.

Þar sem ég hef fylgst af athygli með opinberri framgöngu Guðna Ágústssonar hef ég ekki komst hjá því heyra hann lýsa skoðunum sínum í Evrópumálum.  Guðni hefur alla tíð verið andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu öfugt við forvera hans í formannsstóli Framsóknarflokksins, en Halldór Ásgrímsson talaði ekki einungis hlýlega til Evrópusambandsins heldur spáði því beinlínis þegar hann gengdi embætti forsætisráðherra að árið 2015 yrði Ísland orðið aðili að sambandinu.  Valgerður Sverrisdóttir, varaformannskandídat Framsóknarflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hefur tekið í svipaðan streng.

Frá því að Guðni varð formaður Framsóknarflokksins hefur hann lagt sig allan fram við að koma þeirri stefnu Framsóknarflokksins á framfæri að flokkurinn sé andsnúinn því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og kveður því við nokkuð nýjan tón hjá framsóknarmönnum í þessum efnum, þó auðvitað sé minnisstætt kosningaslagorð Framsóknarflokks Steingríms Hermannssonar á síðustu öld ,,X-B, ekki EB!".  Má því segja að Guðni Ágústsson feti nú í fótspor Steingríms.

En Guðni hefur ekki látið við það sitja að skýra stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum, heldur hefur hann einnig lagt nokkuð mikið á sig við að rangtúlka stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum.  Það gerði hann til að mynda í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á fimmtudag.  Þar sagði Guðni meðal annars:

,,Það sem hins vegar vekur mesta athygli nú er að Sjálfstæðisflokkurinn er að snúast Evrópusambandinu á hönd.  Það sem ekki var á dagskrá í gær heitir í dag opinber umræða um Evrópumál. ... Spurningin er hvort Evrópusýn Samfylkingarinnar verði hin nýja sólarsýn Sjálfstæðisflokksins.  Ég á mér ekki þann draum."

Ég get gert þá játningu hér að ég á mér heldur ekki þann draum að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og er að því leyti sammála Guðna Ágústssyni.  Og ég tel að meginþorri sjálfstæðismanna sé mér sammála, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei haft það á sinni stefnuskrá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.  Sú stefna hefur aldrei breyst, þó svo að Guðni Ágústsson geri nú sitt besta til þess að sannfæra fólk um annað.  Í því sambandi bendi ég á að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var í apríl, var samþykkt ályktun um utanríkismál þar sem sú stefna flokksins var áréttuð, en þar segir m.a.:

,,Evrópusambandið er bæði einn stærsti sameiginlegi markaður veraldar og mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gerður var undir stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins hefur átt stóran þátt í mikilli hagsæld á Íslandi á umliðnum árum og heldur áfram að þjóna hagsmunum okkar vel hvað varðar viðskipti við ríki álfunnar. Ekki er annars að vænta en að EES-samningurinn muni halda gildi sínu. Sjálfstæðisflokkurinn telur aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum er háttað. Mikilvægt er að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja."

kossHvernig dettur Guðna Ágústssyni að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að snúast Evrópusambandinu á hönd þegar landsfundur flokksins segir beinlínis að hann telji ,,aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslenskum þjóðarinnar eins og málum er háttað"?

Bollaleggingar Guðna Ágústssonar um meintan vilja Sjálfstæðisflokksins til þess að gera Ísland að aðila Evrópusambandsins gengur auðvitað ekki upp og það veit Guðni auðvitað vel.  En ástæðan fyrir þessum spuna formanns Framsóknarflokksins er auðvitað sá hluti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um Evrópumál þar sem kvatt er til opinskárrar umræðu um Evrópumál, en þar segir:

,,Ríki Evrópusambandsins eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum."

Hvernig geta menn verið á móti því að opinskáar umræður fari fram um Evrópumál, eins og önnur mikilvæg mál?  Við sjálfstæðismenn höfum um árabil staðið fyrir miklum umræðum um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, nú síðast í Evrópunefnd forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar.  Niðurstöður þeirrar skýrslu benda ekki til þess að pólitískur vilji standi til þess meðal stjórnmálaflokkanna að stefna að aðild Íslands að Evrópusambandinu, allra síst af hálfu sjálfstæðismanna í nefndinni.  Hins vegar er ljóst að margt má gera til þess að efla starfsemi Alþingis og stjórnkerfisins á vettvangi Evrópumála.

Formaður Framsóknarflokksins getur að mínu mati sofið sallarólegur yfir framtíð Íslands gagnvart Evrópusambandinu.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa ekki talið aðild að sambandinu þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar og verður ekki séð að á því verði breyting í nánustu framtíð.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband