Formaður menntamálanefndar á nýju kjörtímabili

Á þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna á fimmtudag tókum við í þingflokknum ákvörðun um það hvernig flokkurinn skipaði í fastanefndir og alþjóðanefndir Alþingis á komandi kjörtímabili.

Í minn hlut kom að gegna áfram formennsku í menntamálanefnd Alþingis, en ásamt því mun ég eiga sæti í allsherjarnefnd auk þess að vera formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um Norðurskautsráð.

Ég er afar sáttur við að fá það tækifæri að gegna áfram embætti formanns menntamálanefndar.  Á síðasta kjörtímabili átti ég afar gott samstarf við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, og saman unnum við að því að koma stórum og oft á tíðum erfiðum málum í gegnum þingið.  Minnist ég þar helst þeirrar löngu baráttu sem háð var á Alþingi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.  Þá má nefna rammalöggjöf um háskóla, æskulýðslög, mikilvægar breytingar á grunnskólalögum, lög um Náttúruminjasafn og lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.  Auðvitað mætti nefna fjölda fleiri mála sem við unnum saman að á kjörtímabilinu, en þessir lagabálkar eru mér sérstaklega minnisstæðir.

Það er mikið traust sem þingflokkurinn sýnir mér með því að gefa mér tækifæri á að gegna áfram formennsku í nefndinni og ég hlakka til samstarfs okkar Þorgerðar, sem eins og áður segir hefur fram til þessa verið einkar gott.

Af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar má sjá að það eru mörg spennandi verkefni framundan á sviði mennta- og menningarmála, en um þann málaflokk segir í stjórnarsáttmálanum:

,,Menntakerfi í fremstu röð

Ríkisstjórnin setur sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum. Framfarir og hagvöxtur komandi ára verða knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar. Áhersla verður lögð á gæði, sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði þannig að allir geti fundið nám við sitt hæfi. Fjölgað verður námsleiðum og áhersla aukin á valfrelsi nemenda og einstaklingsmiðað nám, meðal annars til að draga úr brottfalli nemenda á framhaldsskólaaldri. Efla skal list- og verkmenntun á öllum skólastigum og auka náms- og starfsráðgjöf. Lögð verður áhersla á að skapa ný tækifæri til náms fyrir þá sem hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi og efla fullorðinsfræðslu innan skólakerfis og á vinnumarkaði. Stefnt skal að auknu faglegu og rekstrarlegu sjálfstæði skóla og minni miðstýringu. Unnið verði að lengingu og aukinni fjölbreytni í kennaranámi. Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð með það að markmiði að bæta kjör námsmanna enn frekar."

Eins og sjá má þá er metnaður nýrrar ríkisstjórnar á sviði menntamála mikill, rétt eins og hinnar fyrri.

Jafnframt því sem ég mun gegna formennsku í menntamálanefnd mun ég eiga sæti í allsherjarnefnd Alþingis.  Ég sat í allsherjarnefnd allt síðasta kjörtímabil og hafði af því mikla ánægju, enda heyra undir nefndina málaflokkar sem samræmast mjög vel minni menntun og reynslu.  Að þessu sinni mun Birgir Ármannsson félagi minn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins gegna stöðu formanns þeirrar nefndar og tekur þar við starfi Bjarna Benediktssonar, sem færir sig yfir í utanríkismálanefndina.

Við Bjarni og Birgir áttu mjög gott samstarf í nefndinni á síðasta kjörtímabili.  Það er kunnara en frá þurfi að segja að á ýmsu gekk innan nefndarinnar á kjörtímabilinu, en samstarf okkar var afar gott og lærdómsríkt.

Ég hlakka til samstarfsins við nefnarmenn í þessum tveimur fastanefndum sem ég mun eiga sæti í.  Með sumum þeirra hef ég starfað áður en öðrum ekki.  En ég hef á tilfinningunni að þetta verði gott kjörtímabil.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Til hamingju með áframhaldandi störf í Menntamálanefnd!

Vænti góðs af störfum þínum þar okkur öllum til heilla og ekki síst þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi.

Einu hjó ég eftir í pistli þínum. Þar segir þú: "Af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar má sjá að það eru mörg spennandi verkefni framundan á sviði mennta- og menningarmála, en um þann málaflokk segir í stjórnarsáttmálanum:"

En við lestur þess sem þú birtir af sáttmálanum, er í engu vikið að menningarmálum, hvað þá listum (nema um listnám). Mig langar til að biðja þig að birta stefnu ríkisstjórnarinnar í menningarmálum, eins og þú boðaðir í pistli þínum.

Viðar Eggertsson, 2.6.2007 kl. 16:07

2 Smámynd: Pathema Adachka

Ég verð að árétta að menntamálaráðuneytið er (þó nafnið bendi til annars, því í kosningum þarf að notast við möskvastærð atkvæða (og verður nafni ráðuneytisins því aldrei breytt vegna þeirra)) og er því fyrst og fremst menningarmálaráðuneyti okkar allra, hverja sem við kjósum (Hvers vegna var þessu ráðuneyti ekki skipt?).

Sem ég reyndi að útleggja; menntaráðuneyti er nafn stofnunar sem fer með menningarmál, mikilvægustu þróunarmál hverrar þjóðar, jafnvel afríkuríkis sem okkar einangruðu atlantshafseyjar.

Uppskifting ráðuneyta nær sjaldan til þesa málaflokka, enda jafnan vilji fjarlægari en næstu ábúanlegu plánetur, í kjörnum skilningi. Hversu fjarlægt er listnám í skilning mennta eða menningar?; mennt e.t.v. stöðug en skyggni til menningar 2m.

Pathema Adachka, 3.6.2007 kl. 02:28

3 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Sigurður Kári

Ég veit ekki hvernig á að túlka það að þú hefur ekki svarað athugasemd minni sem er hér efst í athugasemdalista. Ætti að vera afar einfalt mál, t.d. að blogga lítinn pistil. En ítreka hér með fyrirspurn mína um menningarþáttinn í stjórnarsáttmálanum, sem þú boðaðir í pistli þínum.

Mér er full alvara með fyrirspurninni, því mér finnst menningarmál skipta máli og ekki síst hvernig yfirstjórn landsins ætlar að höndla þau.

Fyrirspurnin er hvort tveggja vegna þess að þú boðaðir birtingu stefnu nýrrar stjórnar í menningarmálum og einnig þar sem þú ferð fyrir þeirri nefnd þingsins, sem fer með þau mál.

Með kveðju,

Viðar Eggertsson, 5.6.2007 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband