Stjórnarandstaðan komin með Samfylkinguna á heilann

557-220Engum sem horfði á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra sem fram fór á Alþingi í gær dylst að stjórnarandstaðan ætlar sér að hamast á Samfylkingunni eftir að ríkisstjórn hennar og Sjálfstæðisflokksins tók til starfa.

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem þátt tóku í umræðunum létu vera að fjalla um stefnuræðuna sjálfa.  Þess í stað einbeittu þeir sér að því að hamast á Samfylkingunni þar sem formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og helstu samstarfsmenn hennar, s.s. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, voru sakaðir um að hafa gefist upp á því skömmu fyrir kosningar að reyna að fella ríkisstjórnina og þess í stað skriðið undir sængina og í hinn dúnmjúka faðm Sjálfstæðisflokksins.  Fremstir í flokki fóru þeir Steingrímur J. Sigfússon og Guðni Ágústsson sem áttu vart orð til að lýsa fyrirlitningu sinni á ákvörðun Samfylkingarinnar að fara í ríkisstjórnarsamstarf við okkur sjálfstæðismenn.  Ekki þarf svo sem að koma á óvart að þessir ágætu herramenn hafi talað með þessum hætti.  Hins vegar skinu með mjög áberandi hætti hin sáru vonbrigði formannanna með að vera ekki í sporum Samfylkingarinnar að ræður þeirra misstu marks og urðu broslegar.

Á þingfundinum í gær voru fyrstu þingmálin lögð fram, alls 10 talsins.  Sex þeirra lagði ríkisstjórnin fram en þingflokkur Vinstri grænna lagði fram fjögur.

Eitt þessara þingmála vakti sérstaka athygli mína, en það var frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum sem mælir fyrir um brottfall þeirra.  Leggur fyrstu flutningsmaður frumvarpsins að í stað hinna nýju vatnalaga verði rykið dustað af hinum gömlu vatnalögum frá árinu 1923 og þau látin taka gildi á ný.

Mikill ágreiningur varð á Alþingi í aðdraganda setningar gildandi vatnalaga á síðasta kjörtímabili.  Sjálfur var ég þátttakandi í þeim átökum, enda stuðningsmaður frumvarpsins og átti auk þess sæti í iðnaðarnefnd þingsins.

Rökstuðningurinn að baki hinu nýja frumvarpi Steingríms J. og félaga í Vinstri grænum er hvorki langur né flókinn.  Í stað þess að útbúa vandaða greinargerð með frumvarpinu, málstaðnum til stuðnings, lætur Steingrímur nægja að birta sem fylgiskjal með frumvarpinu nefndarálit minnihluta iðnaðarnefndar frá síðasta kjörtímabili.

Undir það nefndarálit rita Samfylkingarmennirnir Jóhann Ársælsson og Helgi Hjörvar, alþingsmaður, sem fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna, Hlynur Hallsson, lýsir sig samþykkan.

Af þessu má sjá hvaða leið Steingrímur J. og Vinstri grænir ætla að fara í sinni stjórnarandstöðu.  Vinstri grænir eru komnir með Samfylkinguna á heilann.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í gamla daga hafði Svavar Gestsson áhyggjur af því ef hann var ekki skammaður í Morgunblaðinu, daglega. Ef þetta er eina stjórnmálainnlegg Steingríms J. þá það. Minnir samt á söguna um vínberin súru.

Annað. Getið þið fyrrverandi formenn SUS sameinast um eitt málefni sambandsins? T.d. Báknið burt eða kjördæmaskipan? Skv. gögnum mínum eru þið sammála í þessum málum.

Gísli Baldvinsson, fyrrv. ritari SUS.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 14:19

2 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Þetta er svo sannarlega sorglegt hjá stjórnarandstöðunni.  Er hneykslaður á Guðna en þetta væl í honum Steingrími kemur ekki á óvart.  Þetta virðist vera sterk stjórn og virkilega spennandi verður að fylgjast með framvindu mála.  Það er ekki komin reynsla á samstarfið en þetta ætti að geta gengið vel þó eflaust komi upp einhver ágreiningur við og við eins og eðlilegt er.  Sem Sjálfstæðismaður þá sá ég ekki betri kost en samstarf við Samfylkinguna og er því sáttur en vissulega eins og fyrr segir mun tíminn leiða það í ljós hvort stjórnin standi sig. 

Það er hinsvegar dapurt að fylgjast með manni eins og Steingrími J, formanni stjórnmálaflokks Vinstri Grænna sem réðst á Framsóknarflokkinn með mikilli ósvífni og útilokuðu samstarf við hann í kosningarbaráttunni.  Buðu svo upp í dans í uppbótartíma, þegar nánast öll von um völd var úti.  Pínlegt að horfa uppá VG míga utan í Framsókn eftir allt skítkastið, í raun kjánalegt.  Örvæntingarfull leið VG til þess að komast til valda og svo sannarlega döpur.

"Zero Framsókn í næstu Ríkisstjórn" .....

Örvar Þór Kristjánsson, 1.6.2007 kl. 15:59

3 identicon

Sæll

Mér fannst töluverður munur á ræðum Guðna og Steingríms. Sá fyrrnefndi skaut til hægri og vinstri en seinni einblíndi á Samfylkingu. Góður pistill.

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband