Alþingi sett í dag

Í dag kom þing saman á ný.  Þingsetningin var hefðbundin.  Við hittumst í fordyri þinghússins og gengum yfir í Dómkirkjuna þar sem Jakob Ágúst Hjálmarsson, dómkirkjuprestur, og Karl Sigurbjörnsson, biskuð Íslands, messuðu.  Að kirkjuathöfn lokinni var gengið aftur í þinghúsið þar sem forseti Íslands ávarpaði þingið og setti það formlega.

Þingsetning er í mínum huga afar hátíðleg athöfn.  Sérstaklega finnst mér kirkjuathöfnin hátíðleg.  Þar predika prestar yfir þingmönnum og ráðherrum, forseta, hæstaréttardómurum og öðrum sem sækja þingsetningarathöfnina.  Ég man þegar ég sótti slíka athöfn í fyrsta skipti hversu mikilfengleg mér fannst hún og kirkjuathöfnin er ómissandi.  Það hefur ekkert breyst.

Í kvöld flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, síðan stefnuræðu sína og í framhaldinu voru umræður um hana.  Ekki er hægt að segja að allir hafi nýtt tímann sérstaklega til að fjalla um setningarræðuna heldur beindu spjótum sínum annað.  Einn þeirra var Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna.  Hann notaði tækifærið í upphafi ræðu sinnar til þess að sparka aðeins í samstarfsmenn sína í stjórnarandstöðunni, framsóknarmenn, með því að gorta sig af því að Vinstri grænir væru nú orðnir stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn eftir góðan sigur í nýafstöðnum alþingiskosningum.  Ég skil vel að Steingrímur gleðjist yfir góðu gengi Vinstri grænna í kosningunum, en framganga hans í kvöld bar þess ekki beint merki að hann ætti sér þá ósk heitasta að stjórnarandstaðan kæmi sameinuð til þings.  Meginhluta ræðu sinnar helgaði Steingrímur hins vegar Samfylkingunni sem hann húðskammaði fyrir að hafa gefist upp í kosningabaráttunni við að reyna að fella ríkisstjórnina og sakaði flokkinn um að hafa átt sér þann draum helstan að fara í stjórnarsamstarf með okkur sjálfstæðismönnum.  Ræða Steingríms var vel upp byggð og ákaflega vel flutt, eins og venjulega því Steingrímur er einn besti ef ekki besti ræðumaður Alþingis, en að mínu mati var ræðumaður helst til sjálfhverfur.

Aðrir stjórnarandstæðingar áttu sína spretti.  Einkum Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sem húðskammaði Vinstri græna og Samfylkingur fyrir að hafa átt sér þann draum eftir kosningar að hoppa upp í hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem Framsóknarflokkurinn hafi verið áður.  Þessi afstaða Guðna var, eins og gefur að skilja, dálítið sérstök.

Af umræðum kvöldsins mátti sjá að stjórnarandstaðan á komandi kjörtímabili verður afar sundurleit og sem slík tel ég litlar líkur á að hún muni ná vopnum sínum.  Ástæðan eru auðvitað hið ískalda andrúmsloft sem ríkir á milli Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. 

24 nýliðar tóku sæti á Alþingi í dag.  Einungis einu sinni áður hafa fleiri nýliðar tekið sæti á Alþingi, eða árið 1991 þegar þeir voru 25.  Ég hlakka til að kynnast þessu fólki og starfa með því, en ljóst er að ég mun eignast nýja samstarfsmenn á þingi og í þeim fastanefndum þingsins sem ég var kosinn til setu í á þingfundi í dag, þ.e. í allsherjarnefnd og menntamálanefnd.

Sigurður Kári.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband