Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar

Í gær samþykkti flokkráð Sjálfstæðisflokksins tillögu formanns flokksins, Geirs H. Haarde, um að mynduð yrði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.  Fundurinn var afar fjölmennur og mikil eindrægni ríkti á fundinum um myndun hinnar nýju ríkisstjórnar.

Ekki verður annað sagt en að Sjálfstæðismenn hafi verið afar sáttir við þá stefnuyfirlýsingu sem flokkarnir tveir hafa komið sér saman um að starfa eftir.  Það er einnig óhætt að segja að sjálfstæðismenn hafi verið ánægðir með skiptingu ráðuneyta milli stjórnarflokkanna, en heilbrigðisráðuneytið kom nú loksins í hlut okkar Sjálfstæðismanna.  Mikil og brýn verkefni bíða úrlausnar í heilbrigðismálum og ljóst að nýr heilbrigðisráðherra hefur verk að vinna.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar verður sterk ríkisstjórn með mikinn meirihluta á Alþingi og ráðuneytin verða vel mönnuð.  Það er sérstakt fagnaðarefni að forsætisráðuneytið verði undir stjórn formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde.  Aðrir ráðherrar flokksins kunna vel til verka.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, hefur gegnt embætti menntamálaráðherra af miklum skörungsskap í nokkur ár og mun gera það áfram.  Árni M. Matthiesen verður áfram fjármálaráðherra og það sama má segja um Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, en Björn hefur eftir því sem ég kemst næst setið lengst í ríkisstjórn þeirra sem skipa munu hina nýju ríkisstjórn.  Einar K. Guðfinnsson verður áfram sjávarútvegsráðherra en mun einnig gegn embætti landbúnaðarráðherra.  Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að sameina þessi tvö ráðuneyti og Einar hefur sýnt það í störfum sínum að honum er vel treystandi til þess að sinna þessum málaflokkum með miklum sóma.  Guðlaugur Þór Þórðarsson kemur nýr inn í ráðherralið Sjálfstæðisflokksins og verður heilbrigðisráðherra.  Með embættinu fær Guðlaugur Þór einkar gott tækifæri til þess að láta að sér kveða í þessum málaflokki sem allt of lengi hefur verið í höndum annarra stjórnmálaflokka.  Ég vil nota tækifærið og óska þessu fólki innilega til hamingju með sín ráðherraembætti.

Þá er ljóst að Sturla Böðvarsson mun hverfa úr ríkisstjórn, en Sturla hefur gegnt embætti samgönguráðherra síðastliðin 8 ár.  Sturla mun hins vegar ekki hverfa úr framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins því hann mun í staðinn taka við hinu virðulega embætti forseta Alþingis á kjörtímabilinu.  Eru Sturlu hér með þökkuð hans góðu störf.

Samfylkingin hefur einnig tilkynnt hverjir skipa ráðherraembætti í hinni nýju stjórn fyrir hönd flokksins.  Það kom ekki á óvart að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, yrði utanríkisráðherra.  Það sama má segja um Össur Skarphéðinsson, sem líkir sér við gamlan fresskött á heimasíðu sinni, verður iðnaðarráðherra.  Tími Jóhönnu Sigurðardóttur er kominn aftur en hún sest í félagasmálaráðuneytið en einnig mun hún hafa með höndum tryggingamál velferðakerfisins.  Hinir þrír ráðherrar Samfylkingarinnar eru óskrifað blað í ráðherraembættum.  Björgvin G. Sigurðsson, frá Skarði í Gnúpverjahreppi, verður viðskiptaráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir verður umhverfisráðherra og Kristján Möller verður samgönguráðherra.  Þessu fólki óska ég til hamingju með sín ráðherraembætti og velfarnaðar í sínum störfum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já til hamingju við öll XD með þessa nyju Rikistjórn,þetta var min óskastjórn,og eg á von á að þið ungu mennirinir verðið okkar framtið,Gott að Guðlaugur okkar komst sem Ráðherra,en það eina sem eg vil sjá meiri breitingar seinna í timabilinu/Við vinnum meiri sigur næst Siggi Kári !!!!!/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.5.2007 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband