Glæsilegur sigur Sjálfstæðisflokksins!

Þá er kosningunum lokið og úrslitin liggja fyrir.  Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur.  Við jukum fylgi okkar um 3% og bættum við okkur þremur nýjum þingmönnum.  Merkilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi í öllum kjördæmum.  Það er afrek, ekki síst þegar litið er til þess að flokkurinn hefur nú verið samfellt í ríkisstjórn í 16 ár.  Niðurstaðan er því persónulegur sigur fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Skilaboðin sem þjóðin sendi í kosningunum eru skýr.  Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða næstu ríkisstjórn undir forystu Geirs H. Haarde.

Við sjálfstæðismenn erum auðvitað himinlifandi og þakklátir kjósendum fyrir að sýna okkur það mikla traust sem niðurstöður kosninganna gefa til kynna.  Við þingmennirnir erum líka afar þakklátir því fjölmarga fólki sem lagði á sig ómælda vinnu fyrir okkur í kosningabaráttunni til þess að tryggja þessa glæsilegu niðurstöðu.  Það er ótrúlegt hversu margir eru reiðubúnir að leggja mikið á sig til þess að tryggja okkur þingmönnunum og Sjálfstæðisflokknum góða kosningu.  Sigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í gær er sigur þessa fólks.

Vonbrigði Vinstri grænna þó sigur hafi unnist

Vinstri grænir unnu, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, góðan sigur í kosningunum í gær og bættu við sig fjórum þingmönnum.  Það er góður árangur sem Steingrímur J. og Ögmundur geta verið ánægðir með.

Það fór hins vegar ekki framhjá neinum sem fylgdist með framgöngu Vinstri grænna í kosningavökum sjónvarpsstöðvanna í gær að Vinstri grænir urðu fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöður kosninganna.  Flokkurinn hafði ítrekað mælst stærri en Samfylkingin í skoðanakönnunum með allt að 28% fylgi.  Niðurstöður skoðanakannanna juku því á væntingar og bjartsýni Vinstri grænna sem leiddi til þess að þeir urðu fyrir vonbrigðum með 14,3% fylgi.

Slæm útkoma Framsóknarflokksins.

Útkoma Framsóknarflokksins í þessum kosningum var slæm.  Raunar sú versta í sögunni.  Niðurstaðan er áfall fyrir flokkinn, sem missir 5 þingmenn.  Formaður flokksins, Jón Sigurðsson, nær ekki kjöri og umhverfisráðherrann, Jónína Bjartmarz,  er einnig fallinn fyrir borð.  Framsóknarflokkurinn á einungis einn þingmann á Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Þetta er erfið staða sem vandi verður að vinna úr.

Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi getur Framsóknarflokkurinn ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um ófarir sínar í kosningunum.  Ástæður þeirra eru aðrar.  Þess vegna fannst mér drengilegt og skynsamlegt af Birni Inga Hrafnssyni að lýsa því yfir í Silfri Egils í dag að Framsóknarflokkurinn gæti kennt einhverjum öðrum um niðurstöður kosninganna.  Flokkurinn yrði að líta í eigin barm og skoða sína stöðu í stað þess að reyna að finna utanaðkomandi sökudólga.  Slíkt er ekki stórmannlegt og mér fannst Björn Ingi nálgast málið á hárréttan hátt í þættinum.

Ósigur Ingibjargar og Samfylkingarinnar.

Niðurstaða kosninganna í gær er ósigur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingarinnar.  Flokkurinn tapar tveimur þingmönnum.  Fylgið dalar og það sem er merkilegt er að Samfylkingin virðist tapa fylgi í öllum kjördæmum landsins.

Þó svo að Ingibjörg Sólrún reyni eftir bestu getu að sannfæra fólk um að Samfylkingin hafi unnið varnarsigur þá dugar slíkt tal ekki.  Samfylkingin tapar mönnum og fylgi og er nú veikari en áður.  Það er sama hvað formaðurinn og fótgönguliðar hennar reyna.  Slík niðurstaða hefur aldrei og verður aldrei túlkuð sem sigur.

Frjálslyndir skipta um lið

Frjálslyndi flokkurinn náði betri árangri í þessum kosningum en búist hafði verið við.  7,3% fylgi er meira fylgi en flestar eða allar skoðanakannanir höfðu sýnt og fá frjálslyndir fjóra menn kjörna.  Guðjón A. Kristjánsson getur því verið nokkur sáttur við útkomuna, þó svo að það hljóti að þykja saga til næsta bæjar að varaformaður flokksins skyldi ekki hafa náð kjöri.

Það hlýtur hins vegar að verða einkenniegt fyrir Guðjón að koma á næsta þingflokksfund Frjálslynda flokksins.  Hann er einn eftir úr upphaflegum þingflokki, því Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson náðu ekki endurkjöri.  Í stað þeirra mæta til leiks þeir Grétar Mar Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon.  Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar sagt er að þingflokkur Frjálslynda flokksins er einn sá athyglisverðasti á Alþingi, fyrir margra hluta sakir.

Íslandshreyfingin var andvana fædd.

Íslandshreyfingin átti aldrei möguleika á því að ná neinum árangri í þessum kosningum.  Það var ljóst alla kosningabaráttuna. 

Þó svo að fólki þyki vænt um Ómar Ragnarson og beri fyrir honum virðingu fyrir að berjast svo hart fyrir hugsjónum sínum þá sá það Ómar ekki fyrir sér sem forystumann í stjórnmálum.  Margrét Sverrisdóttir hafði síðan ákaflega lítið fram að færa þegar hún loksins kom fram í sviðsljósið eftir að hafa fabrikerað eftirspurn eftir sjálfri sér í nokkrar vikur.  Henni mistóskt að sýna fram á að hún ætti erindi í stjórnmálin og var því Íslandshreyfingunni ekki eins verðmæt og talið var að hún yrði.

Sigurður Kári


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tel að þjóðin sé að senda tvö áberandi skilaboð...

* Framsóknarflokkurinn á ekki að vera í stjórn.

* Sjálfstæðisflokkurinn á að halda áfram í stjórn, Geir H. Haarde á að leiða hana.

Því yrði það ekki sanngjarnt gagnvart þjóðinni að halda áfram með núverandi stjórn, en ekki heldur að stofna nýjan R-lista. Held að Sjálfstæðismenn verði að horfast í augu við það að eina sanngjarna í stöðunni sé að stofna tveggja flokka stjórn með annað hvort Vinstri Grænum eða Samfylkingunni. Ég kaus D í ár en ég mun missa alla virðingu fyrir flokknum ef hann verður áfram límdur við Framsóknarflokkinn.

Geiri (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 19:41

2 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég tek undir með fyrri ræðumanni nema að flokkurinn mun aldrei missa virðingu sína finnst mér. En ég krosslegg fingurna að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking taki saman og ég heyri þau sömu viðhorf hjá svo mörgum í kringum mig..... Sigurður Kári viltu ekki bara redda þessu fyrir okkur og hafa áhrif á Geir ?

Inga Lára Helgadóttir, 13.5.2007 kl. 21:27

3 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

já og auðvitað til hamingju Sigurður Kári

Inga Lára Helgadóttir, 13.5.2007 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband