Falleinkunn Samfylkingar í menntamálum

647-220 Samfylkingin virðist vera trú þeirri sannfæringu sinni í kosningabaráttunni að ef rangvísandi upplýsingar eru endurteknar nógu oft þá fari fólk að trúa þeim. Á þriðjudag birtist í Fréttablaðinu svargrein við grein minni um menntamál eftir tvo þingmenn Samfylkingarinnar, Ágúst Ólaf Ágústsson og Katrínu Júlíusdóttur.  Yfirskrift greinarinnar er ,,Falleinkunn í menntamálum". Þar reyna þingmennirnir enn og aftur að sýna fram á að á Íslandi sé allt á vonarvöl á sviði menntamála á meðan allar staðreyndir sýna glöggt að aldrei hefur sóknin á þessu sviði verið meiri en síðasta áratuginn.

Aldrei hafa fleiri stundað nám við framhaldsskóla og háskóla landsins. Aldrei hafa námsleiðir þeirra sem hefja nám í framhaldsskólum og háskólum verið fleiri og framtíð ungs fólks bjartari.  Um þetta verður ekki deilt.

Gamlar tölur

Þingmennirnir bera ætíð fyrir sig upplýsingar úr ritinu Education at a Glance sem er viðamikið tölfræðirit sem OECD gefur út árlega en þar sem finna má upplýsingar um flesta þætti menntamála í aðildarríkjum OECD. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að söfnun jafnmikils magns upplýsinga er mjög tímafrek og því eru upplýsingarnar í ritinu ætíð nokkuð til áranna komnar þegar þær loks birtast. Þær segja til dæmis nákvæmlega ekkert um það hvað hefur verið að gerast í menntamálum á þessu kjörtímabili. Til að komast að því verður að líta til talna Hagstofunnar enda eru það tölur frá Hagstofu Íslands sem að lokum eru birtar í tölfræði OECD.

Ég hef ekki reynt að "véfengja" þær tölur sem Ágúst Ólafur og Katrín nota, heldur einungis bent kurteislega á að þær séu gamlar og settar fram með villandi hætti og segi því ekkert um það hvað hefur gerst á þessu kjörtímabili.

Fjárframlög til háskóla hafa vaxið stórkostlega

Í fyrsta lagi eru upplýsingarnar sem vitnað er í frá 2003 en ekki 2004 líkt og Samfylkingartvíeykið heldur fram þótt vissulega sé í sumum töflum að finna tölur frá árinu 2004. Í öðru lagi eru talnanotkun þeirra með ólíkindum.  Gott dæmi um það er að í grein minni benti ég á að tölur um heildarframlög (total public expenditure) til háskólastigsins sýndu að það hlutfall hefði verið 1,4% á Íslandi árið 2003 en þetta er tafla B4.1. á bls. 228 fyrir þá sem vilja sannreyna þetta. Samkvæmt töflunni vorum við í 10. sæti af 30 þjóðum við upphaf kjörtímabilsins. Samfylkingarþingmennirnir nota hins vegar áfram töflu sem sýnir einungis hluta útgjalda til menntamála, væntanlega vegna þess að þau telja að það þjóni málstað sínum betur.

Þrátt fyrir að hafa verið bent á tölur Hagstofunnar um útgjaldaþróunina frá árinu 2003, þ.e. í tíð núverandi ríkisstjórnar, er ekki vikið að því einu orði í grein þingmannanna. Enda vita þau sem er að útgjöldin hafa verið aukin stórkostlega á síðustu fjórum árum. Árið 2005 var til að mynda hlutfallið komið í um 1,6% af þjóðarframleiðslu á sama tíma og þjóðarframleiðslan jókst hröðum skrefum vegna hagvaxtar.

Ég geri ráð fyrir að hagfræðingurinn Ágúst Ólafur þekki hugtakið hagvöxtur. Hann var 7,7%% árið 2004 og 7,5% árið 2005. Samt halda framlög til háskólastigsins að vaxa sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.  Þessu hefðu Ágúst Ólafur og Katrín átt að fagna.

Fjárframlög til framhaldsskóla einnig

Hvað furðulegastar eru hins vegar staðhæfingar þingmannanna um útgjöld til framhaldsskólans, að þau hafi lækkað á milli áranna 2003 og 2004 og að framlög til framhaldsskólans hafi verið skorin niður árið 2007. Þessu til áréttingar vísa þau í lið í tölum Hagstofu Íslands þar sem margs konar útgjöldum - ekki einungis framlögum ríkisins - er slegið saman, m.a. er undir þessum lið að finna útgjöld sveitarfélaga til tónlistarskóla á framhaldsskólastigi.

Hér er á ferðinni einkennileg talnanotkun.

Ég geri ráð fyrir að þingmennirnir kunni að fletta upp í fjárlögum og fjáraukalögum en þar má sjá svart á hvítu hver framlög ríkisins eru til framhaldsskóla og bera þau saman á milli ára. Um það hljótum við þó að vera sammála.

Sé þetta skoðað kemur í ljós að milli áranna 2003 og 2004 hækkuðu framlög úr 10.764 milljónum í 11.557 milljónir. Þetta er hækkun um 793 milljónir króna. Á milli árana 2006 og 2007 hækkuðu framlög úr 14.460 krónur í 15.951 krónur eða um 1.491 milljónr króna.

Er hækkun lækkun?

Samkvæmt kenningum Samfylkingarinnar er hækkun milli ára upp á einn og hálfan milljarð króna lækkun! Ég geri ráð fyrir að sú heildarhækkun á kjörtímabilinu til framhaldsskólans upp á rúma fimm milljarða á ársgrundvelli sem blasir við þegar þessar fjárlagatölur eru skoðaðar séu sömuleiðis "lækkun" í huga Samfylkingarþingmannanna. Maður er nú orðin ýmsu vanur í þessum efnnum frá Samfylkingunni en er þetta ekki að bera í bakkafullann lækinn?

Brautskráningarhlutfall á Íslandi

Maður veltir því eðlilega fyrir sér hvort það sé minnimáttarkennd gagnvart menntasókn ríkisstjórnarinnar eða metnaðarleysi sem rekur þingmenn Samfylkingarinnar út í þessa talnaleikfimi.

Það er kannski ekki nema von að stefna Samfylkingarinnar í menntamálum sé því marki brennd að bera vott um lítinn metnað. Þar er m.a. sagt að fjölga verði þeim sem útskrifast úr framhaldsskólum úr 60% í 80%.

Samkvæmt OECD-tölunum í Education at a Glance sem þau Ágúst Ólafur og Katrín vitna í var brautskráningarhlutfallið á Íslandi 84% í byrjun kjörtímabilsins.

,,Fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar

"Fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar á samkvæmt stefnu þeirra að leiða til þess að útgjöld til menntamála verði aukin á tveimur kjörtímabilum þannig að við lok síðara kjörtímabilsins verði búið að auka framlögin um 12 milljarða á ársgrundvelli.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin staðið þannig að málum að útgjöld til menntamála hafa vaxið úr 24,2 milljörðum í 36,6 milljarða, eða um rúma 12 milljarða á einu kjörtímabili.

Svokallað ,,fjárfestingarátak" Samfylkingarinnar er ekkert átak, heldur áform um samdrátt.

Af ofangreindu má sjá að einkunnargjöf þingmanna Samfylkingarinnar stenst enga skoðun.  Málflutningur þeirra verðskuldar hins vegar falleinkunn.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

 

Talandi um talnabrellur þá vil ég benda á að stærsta blekkingin sem þjóðin hefur verið beitt af sitjandi ríkisstjórn er blekkingin um skattalækkanir.

Indriði H.Þorláksson fv.ríkisskattstjóri skrifar grein í Morgunblaðið í dag á bls.44, um skattbyrði, og hvet ég alla til að lesa þá grein áður en þeir fara í kjörklefann í dag.

Tekjuskattar Íslendinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru með þeim hæstu í Evrópu.

Júlía (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband