Varnir, öryggi og björgunarmál

Á DÖGUNUM undirritaði utanríkisráðherra fyrir Íslands hönd samninga við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggis-, varnar- og björgunarmála í Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum. Samstarf þessara vinaþjóða er mikið fagnaðarefni enda er það frumskylda ríkisvaldsins að tryggja öryggi borgaranna.

Það vekur hins vegar óneitanlega mikla furðu að í kjölfar þess að slíkt samkomulag næst skuli formaður og frambjóðendur Vinstri grænna stíga fram og finna þessu samstarfi allt til foráttu, ekki síst þegar litið er til þess hvaða hagsmuni þessu samstarfi er ætlað að verja.

Áskorun um samstarf

Sjálfur hef ég í störfum mínum á þessu kjörtímabili lagt mikla áherslu á samstarf Íslands í öryggis-, varnar- og björgunarmálum við grannríki okkar. Sem formaður Íslandsdeildar Þingmannaráðstefnunnar um Norðurskautsmál hafði ég forystu um áskorun ráðsins til ríkisstjórna aðildarríkjanna, Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada, Norðurlandaþjóðanna og Evrópusambandsins, um að starfa saman að eftirlits- og björgunarmálum í Norður-Atlantshafi.

Brottför Bandaríkjahers

Tildrög þess að ég lagði til að slíkri áskorun yrði beint að ríkisstjórnum landanna við Norður-Atlantshaf voru brottför Bandaríkjahers af Miðnesheiði. Þó svo að herstöðvaandstæðingar hafi fagnað brottför bandaríska hersins frá Keflavík þá snerist viðvera þeirra ekki einvörðungu um varnarviðbúnað á Íslandi, heldur höfðu Bandaríkjamenn einnig með höndum mikinn öryggis- og björgunarviðbúnað á hinu mikla hafsvæði í kringum landið. Ég hef bent á það í ræðu og riti að þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands áformaði að bæta herskipi, herþyrlum og öðrum búnaði við þann sem fyrir var hjá Landhelgisgæslunni myndu Íslendingar einir aldrei geta sinnt því hlutverki sem Bandaríkjamenn hafa sinnt á síðustu áratugum. Þannig væri ljóst að ríkisstjórn Íslands myndi ekki geta tryggt allan þann tæknibúnað sem Bandaríkjamenn höfðu yfir að ráða vegna eftirlits- og björgunarmála í Norður-Atlantshafi. Þannig væri ljóst að Íslendingar gætu ekki lagt til eldsneytisflugvélar til notkunar við þessi störf, svo dæmi sé tekið.

300 mannslífum bjargað á 35 árum

Bandaríkjamenn hafa á síðustu áratugum sinnt eftirlits- og björgunarhlutverki sínu á þessu gríðarstóra hafsvæði með miklum sóma. Sem dæmi má nefna að þær aðgerðir sem þeir hafa átt aðild að hafa bjargað um 300 mannslífum á síðastliðnum 35 árum. Það þarf því enginn, í ljósi þeirrar staðreyndar, að velkjast í vafa um mikilvægi öflugs eftirlits- og björgunarstarfs á hafsvæðinu í kringum landið enda verkefnið risavaxið.

Auknar siglingar um Norður-Atlantshaf

Á komandi árum og áratugum verður heldur ekki séð að umfang eftirlits- og björgunarstarfs í Norður-Atlantshafi muni dragast saman. Þvert á móti eru líkur á því að siglingaleiðin norður fyrir Rússland muni opnast, sem þýðir mjög aukna skipaumferð í norðurhöfum og umhverfis Ísland enda mun siglingaleiðin milli Asíu og Norður-Evrópu þá styttast um helming. Í kjölfar þess mun umfang eftirlits- og björgunarstarfs á svæðinu aukast gríðarlega.

Hagsmunir sæfarenda og umhverfis

Það er ljóst að við Íslendingar munum ekki einir hafa hagsmuni af því að eftirlits- og björgunarviðbúnaður sé á Norður-Atlantshafi, heldur allar þjóðir umhverfis okkur. Og hagsmunir þessara þjóða lúta ekki einungis að því að hafa eftirlit með mannslífum og tryggja björgun þeirra, heldur einnig að því að vera í stakk búnir til að bregðast við hugsanlegum mengunarslysum sem kunna að eiga sér stað á hafi úti, ekki síst þegar umferð skipa mun aukast á næstu árum. Þar er fiskveiðiþjóð eins og Ísland, sem á svo mikið undir nýtingu auðlinda hafsins, síður en svo undantekning.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, og þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru fyrir Ísland, hef ég lagt áherslu á samstarf sem er sambærilegt því sem nú hefur verið kynnt við Dani og Norðmenn. Á sama hátt og ég tel að slíkt samkomulag hafi náðst, furða ég mig á því hvers vegna fánaberar Vinstri grænna eru því andsnúnir.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Mig minnir að utanríkisráðherra hafi skýrt þetta á þann hátt að um viljayfirlýsingu hafi verið að ræða sem ætti betur eftir að útfæra. Í þessu bloggi þínu talar þú um samning sem gerður hafi verið um varnir við þessa grannþjóð okkar. Er þetta ekki fulldjúpt í árina tekið hjá þér? Þyrfti ekki samningur um varnir við erlent ríki að fara fyrir Alþingi?

Hagbarður, 8.5.2007 kl. 15:08

2 identicon

Það auðskiljanlegt að norðmenn vilji fá aðstöðu hér á landi í ljósi þess að þeir hafa beina hagsmuni af því. Meiri hluti þeirra gas og olíu flutningsskipa sem flytja farma sína sigla um íslensk lögsögu, sem aðildar þjóð að NATO þá eiga þeir að eiga frjálsan aðgang að þeim mannvirkjum. EN að semja við norðmenn og greiða þeim fyrir varnir landsins gengur engan vegin. Sérstaklega með það til hliðsjónar í síðustu samnigsviðræðum þá töpuðum við sjálfstæðinu.

Ef til ófriðar kæmi og norðmenn myndu lenda í vandræðum þá er líklegast að þeir kæmu hingað yfir, hvort sem er. Þeir gerðu það síðastu heimstyrjöldinni. Þannig að greiða þeim sérstaklega fyrir varnir íslands er því fáranleg sóun á peningum.

Okkur er nær að hafa um þúsund manna heimavarnarlið sem þá er hluti af gæslunni eða sveit sem myndi svipa til kanadísku riddaralögreglunnar. Með slíka sveit er líklegt að hvorki tyrkjaræningjar né Jörundur framtíðrinar hefðu haft erindi sem erfiði.

En varnarlaust Ísland gengur ekki, slíkt er hættuleg óskhyggja. Það er óskandi að menn geti rætt þessi mál án slagorða og fumbulfabs, þetta er bara of mikilvægt mál.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 16:00

3 identicon

Ég er að velta því fyrir mér eftir öll þessi ár, hafandi fylgst náið með þjóðmálaumræðu í yfir 30 ár, hvort ég hafi misskilið samninginn sem við gerðum við NATO á sínum tíma. Hvort ég hafi búið allan þennan tíma við það sem núna er kallað "falskt öryggi"? Ég held að það sé engin þörf fyrir okkur að vera með sérsamninga við Norðmenn eða Dani um varnir landis. Teljum við yfirhöfuð það vera nauðsynlegt að vera  með samninga um varnir landsins við önnur ríki ætti samningurinn við NATO að tryggja okkur.  Ég tel aftur á móti skynsamlegar að samhliða öllum þessum breytingum skoðum við uppbyggingu björgunarmála hjá okkur. Styrkja ætti björgunarsveitirnar til muna með betri og öflugri búnaði og leggja áherslu á björgunarþáttinn, frekar en þetta hernaðarbrölt sem engu skilar nema auknum ríkisútgjöldum sem nóg er komið af. Nær væri að nýta hugmynd Glistrups fyrrv. forsætisráðherra Dana en hann lagði það til að í stað þess að auka framlög til hernaðarmála fengi herinn sér  sjálfvirkan símsvara sem tilkynnt um uppgjöf Dana yrði ráðist á landið.

Hagbarður (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband