Kosningabaráttan - Ný heimasíða breidholtið.is - Grettir frumsýndur

Það er góður gangur í kosningabaráttunni hjá okkur sjálfstæðismönnum.  Hvar sem maður kemur finnum við fyrir miklum meðbyr og mér finnst eins og stemningin sé með okkur í þessum kosningum.  Ég leyfi mér að niðurstöður skoðanakannanna staðfesti þessa tilfinningu enda höfum við verið á uppleið í þeim og mælumst nú með ríflega 40% fylgi í hverri könnuninni á fætur annarri.

Ég held að ástæðan fyrir þessu góða gengi Sjálfstæðisflokksins sé sú að Íslendingar treysti sjálfstæðismönnum best til þess að stjórna landinu og séu tregir til þess að gera einhverjar tilraunir með landsstjórnina.  Slíkar tilraunir geta reynst fjölskyldunum í landinu og atvinnulífinu dýrkeyptar.  Fólk er búið að átta sig á því að góðærið er ekki náttúrulögmál og það þarf trausta og ábyrga efnahagsstjórnun til þess að halda því við.  Það getur nefnilega brugðið til beggja vona ef vinstriflokkanir komast til valda og reynsla Íslendinga af stjórn vinstrimanna er allt annað en góð.

Það er líka athyglisvert að sjá að á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn tekur flugið í skoðanakönnunum, eyðir flokkurinn minnstum fjármunum í auglýsingar í kosningabaráttunni.  Í nýlegri frétt kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa eytt minnstum fjármunum en Framsóknarflokkurinn trónir á toppnum.  Virðist því ekki vera samhengi milli mikilla auglýsinga og gengis í skoðanakönnunum.  Reynsla fólks af verkum stjórnmálaflokkanna, verk þeirra og málefni virðast skipta meiru, sem er vel að mínu mati.

Um helgina höfum við frambjóðendurnir verið á þönum út um allan bæ.  Á föstudag fór ég á vel heppnað karlakvöld KR þar sem ég samgladdist KR-ingum sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik á dögnum.  Við Sindri skelltum okkur á lokaleikinn, sem var ótrúlega spennandi og skemmtilegur og það er magnað hversu góða stemningu KR-ingar náðu að byggja upp í tengslum við leikinn.

Á laugardaginn mætti ég í “brunch” á kosningaskrifstofu okkar sjálfstæðismanna í Breiðholtinu, ásamt Guðfinnu S. Bjarnadóttur, Ástu Möller og Ragnhildi Guðjónsdóttur.  Það var afar vel mætt og mikil stemning, eins og gjarnan er í kosningastarfi flokksins í mínu gamla hverfi, Breiðholtinu.  Mér finnst rétt að vekja athygli á því að nýverið opnuðu sjálfstæðismenn í Breiðholti nýja og glæsilega heimasíðu sem komið var upp í tengslum við kosningarnar.  Slóðin á heimasíðuna er http://www.breidholtid.is.  Ég vil nota tækifærið og óska sjálfstæðismönnum í Breiðholti til hamingju með heimasíðuna, en framtakið sýnir hversu öflugt okkar fólk í hverfinu er.  Síðdegis á laugardaginn opnuðu sjálfstæðismenn í mínu nýja hverfi, Vesturbænum, glæsilega kosningaskrifstofu í JL-húsinu.  Margmenni var við opnunina sem tókst í alla staði mjög vel.

Í dag ætla ég að líta við í heimsókn í Breiðholtinu og klukkan 16.00 opnar kosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna í Grafarvoginum.  Ætla má að mikill fjöldi sjálfstæðismanna muni leggja leið sína á opnunina enda er Grafaravogurinn orðinn eitt helsta vígi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í kvöld ætla ég síðan að skella mér á frumsýningu söngleiksins Grettir í Borgarleikhúsinu.  Leikstjóri sýningarinnar er æskuvinur minn Rúnar Freyr Gíslason og ég hlakka mikið til að sjá afrakstur allrar hans vinnu síðustu mánuði.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband