Skynsöm hagstjórn Samfylkingar?

Það var beinlínis fyndið að lesa grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, en höfundur hennar er enginn annar en Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins.  Greinin ber yfirskriftina ,,Skynsöm hagstjórn Samfylkingar”, en þar fjallar Ágúst Ólafur um nýtt rit sem Jón Sigurðsson, fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og þingmaður Alþýðuflokksins, samdi fyrir Samfylkinguna.  Í niðurlagi greinarinnar segir Ágúst Ólafur:

,,Öllum sem glugga í þetta rit má vera ljóst að Samfylkingin er ábyrg í efnahagsmálum þar sem jafnvægi er meginmarkmið og kjör almennings eru sett í forgrunn, enda sýna kannanir að fyrirtæki eru almennt samkeppnishæfari í þeim löndum þar sem það er gert.  Við teljum okkur geta stjórnað efnahagsmálum betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert og ég er sannfærður um að við munum gera það.”

Það trúir því auðvitað enginn að stjórnmálaflokkur sem ekki treystir sér til að semja eigin stefnu í efnahagsmálum, heldur þarf að kalla sér til aðstoðar gamlan ráðherra sem fyrir löngu yfirgaf stjórnmálin til þess að semja stefnuna fyrir sig, geti stjórnað efnahagsmálum á Íslandi, hvað þá betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert, eins og Ágúst Ólafur heldur fram í greininni.  Í mínum huga er augljóst að forysta Samfylkingarinnar hafi annað hvort áttað sig á því að hún væri svo rúin trausti almennings þegar kemur að umræðum um efnahagsmál að líklegra væri að hún væri trúverðug að fá utanaðkomandi mann til þess að semja stefnuna fyrir sig eða að hún hefur ekki talið sig hafa neitt fram að færa í málaflokknum.

Ég verð að gera þá játningu að ég tók Ágúst Ólaf á orðinu og gluggaði í ritið sem Jón Sigurðsson skrifaði fyrir Samfylkinguna.  Þar er víða vikið að mikilvægi þess að auka þurfi aðhald í ríkisrekstri.  Ég er sammála Jóni um mikilvægi þess að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og sýni ráðdeild og sparnað í sínum rekstri.  Þessu sjónarmiði hef ég ítrekaði haldið fram á Alþingi.

Hins vegar virðist Jón Sigurðsson ekki hafa náð eyrum þeirra sem hann samdi skýrsluna fyrir, því daginn eftir að stefna hans var kynnt fór Samfylkingin að auglýsa áherslumál sín í aðdraganda kosninga og dæmi hver fyrir sig í hversu aðhaldssamar efnahagsaðgerðir flokkurinn hyggst hella sér í að þeim loknum.

Sem dæmi má nefna auglýsingu frá Samfylkingunni í Morgunblaðinu, en þar segja tveir frambjóðendur flokksins, þau Katrín Júlíusdóttir og Guðvarður Hannesson,,Við viljum ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema.”

Skömmu síðar birtist önnur auglýsing frá Samfylkingunni, nú í Fréttablaðinu.  Þar boða Anna Kristín Gunnarsdóttir og Kristján L. Möller nýjar lausnir í atvinnumálum á landsbyggðinni” og segja:  ,,Við viljum bjóða 1200 störf óháð staðsetningu á næsta kjörtímabili.” Væntanlega er samfylkingardúettinn að leggja áherslu á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, enda stendur hvorugt þeirra í atvinnurekstri, að minnsta kosti ekki svo vitað sé.  Í þessu sambandi má minna á að áætlaður kostnaður ríkisins vegna nýlegra tillagna nefndar um fjölgun starfa á Vestfjörðum um 80 til 120 er um 500 milljónir króna á ári.

Samfylkingin birti aftur auglýsingu í Fréttablaðinu, nú um tannlæknakosnað.  Þar segja Róbert Marshall og Steinunn Valdís Óskarsdóttir,,Við viljum tryggja ókeypis tannvernd fyrir börn - Foreldrar eiga ekki að borga svona mikið fyrir tannviðgerðir barna sinna.”

Á dögunum birtist síðan athyglisverð frétt á vefsíðu Morgunblaðsins þar sem fram koma áherslur Samfylkingarinnar í samgöngumálum, en þar sagði:
,,Kristján Möller, alþingismaður segir Samfylkinguna vilja að ríkið kosti gerð Vaðlaheiðarjarðganga svo ekki komi til veggjalds. Kostnaður við gerð ganganna er nær sex miljarðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Fram kemur að Kristján telji að svigrúm til þessa hafi skapast eftir að stækkun álvers var fellt í Hafnafirði. Ennfremur segist hann vilja hann gera stórátak í samgöngumálum í stað stóriðju á höfuðborgarsvæðinu.”

Þá var eftirfarandi haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össuri Skarpéðinssyni í auglýsingu í Morgunblaðinu,,Í vor getur þú kosið biðlistana burt - Við ætlum að byggja 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða á næstu 18 mánuðum.”

Á umræðufundi á Ísafirði á mánudaginn var, sem sjónvarpað var frá í Ríkissjónvarpinu, var fjallað um sjávarútvegsmál.  Fulltrúi Samfylkingarinnar í umræðunni var Össur Skarphéðinsson.  Þó Össur hefði forðast eins og heitan eldinn að nefna að Samfylkingin vildi taka upp fyrningarleið í sjávarútvegi hélt hann fram öllum rökunum fyrir þeirri leið sem stefnu Samfylkingarinnar án þess að nefna hana á nafn.  Össur tók þó sérstaklega fram það nýmæli í stefnu Samfylkingarinnar að aflaheimildir yrðu ekki afturkallaðar nema fullar bætur kæmu fyrir.

Yfirlýsingu Össurar um bótarétt útgerða ber að fagna.  Hins vegar er rétt að minna á í þessu samhengi að varlega áætlað hafa íslenskar útgerðir fjárfest í aflaheimildum sínum fyrir um það bil 300 milljarða króna.  Eru þá vantaldar aðrar fjárfestingar í sjávarútvegi, svo sem í fiskiskipum, tækjum, veiðarfærum og öðrum búnaði.  Ætli Samfylkingin að afturkalla núverandi aflaheimildir og greiða bætur fyrir, er líklegt að kostnaður ríkissjóðs vegna bótagreiðslna verði ríkissjóði ofviða.  Deila má um hversu skynsamleg slík hagstjórn teldist.

Að lokum vil ég nefna að áðurnefndur Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, gerði mér þann greiða að draga samviskusamlega saman helstu stefnumál flokksins á heimasíðu sinni, http://www.agustolafur.blog.is, sem samþykkt voru á landsfundi flokksins.  Þau stefnumál sem hafa mesta þýðingu fyrir ríkissjóð og útgjöld hans eru eftirfarandi:

1. Fella niður tolla af matvælum í áföngum í samráði við hagsmunaaðila.

2. Afnema stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa.

3. Afnema vörugjöld af matvælum.

4. Lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% í 7%. Samfylkingin lagði þessa tillögu fram fyrir jól og bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur kusu gegn þessari tillögu.

5. Fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum.

6. Byggja 300-400 ný hjúkrunarrými á næstu átján mánuðum.

7. Lækka skatta á lífeyrissjóðsgreiðslum úr 35,72% í 10%.

8. Hækka frítekjumark vegna tekna aldraðra í 100.000. kr. á mánuði. Það gildi jafnt um lífeyrissjóðs- og atvinnutekjur.

9. Bæta tannvernd barna m.a. með ókeypis eftirliti.

10. Lengja fæðingarorlofið í eitt ár og tryggja börnum einstæðra foreldra sama rétt og öðrum börnum til samvista við foreldra.

11. Tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi, sem og listnámi.

12. Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

13. Breyta 30% námslána í styrk að loknu námi.

Ég skal fúslega játa að ég er sammála ýmsu sem fram kemur á þessum lista.  Ég leyfi mér hins vegar að efast um að sú stefnumörkun sem hann felur í sér sé í miklu samræmi við varnaðarorð Jóns Sigurðssonar um aðhald í ríkisrekstri sem fram koma í skýrslunni sem hann samdi fyrir Samfylkinguna.

Í fullri vinsemd leyfi ég mér því að benda Jóni Sigurðssyni á það, hér á þessum vettvangi, að einbeita sér fyrst að því að þagga niðri í frambjóðendum og forystu Samfylkingarinnar, áður en hann beinir spjótum sínum að þeim sem undanfarið hafa farið með stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Sigurður Kári.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband