Sorglegur bruni í miðborg Reykjavíkur

Það var sorglegt að horfa upp á gömlu húsin við Austurstræti 22 og Lækjargötu 2 í ljósum logum í gær.  Húsin sem brunnu mynda eina elstu og þekktustu götumynd Reykjavíkur, enda geyma húsin þýðingarmikla sögu borgarinnar.

Húsið við Austurstræti 22 var byggt árið 1801.  Það var Ísleifur Einarsson, dómari við Landsyfirréttinn, sem lét byggja húsið.  Ég minnist þess að minn gamli kennari í réttarsögu við lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Líndal, prófessor emeritus, sagði mér frá þessari merku sögu hússins fyrir mörgum árum þegar við gengum framhjá húsinu, en hann býsnaðist þá yfir því að það hefði á síðustu árum misst alla reisn eftir að það fór að hýsa skemmtanahald í miðborg Reykjavíkur.  Þar bjó einnig Trampe greifi, en á hans tíma þótti húsið eitt hið glæsilegasta í Reykjavík.  Eftir að Jörundur hundadagakonungur handtók greifann settist hann sjálfur þar að um stutta hríð.  Á 19. öldinni hýsti húsið einnig Landsyfirrétt auk þess sem Prestaskólinn hafði þar aðsetur þar til Háskóli Íslands var settur á stofn árið 1911.  Á 20. öldinni rak Haraldur Árnason þar Haraldarbúð og síðar á öldinni fór þar fram starfsemi tískuverzlunarinnar Karnabæjar.  Ætli ég hafi ekki fyrst komið inn í húsið að Austurstræti 22 þegar Karnabær var þar til húsa og móðir mín vildi klæða mig upp.  Á síðari árum hefur húsið verið vettvangur skemmtanahalds.

Húsið við Lækjargötu 2 á sér líka merka sögu.  Það var byggt árið 1852 en eigandi þess um langa hríð var Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali.  Húsið er fyrsta hornhúsið sem reyst var í Reykjavík og mikilvægur hluti af götumynd Lækjargötu.  Þó svo að lengi hafi verið rekin bókaverslunin Eymundsson eftir daga Sigfúsar heitins hefur þar um margra ára skeið verið rekið eitt vinsælasta veitingahús bæjarins, Café Opera.  Af myndum að dæma virðist sem húsið við Lækjargötu 2 hafi ekki orðið jafn illa úti og húsið við Austurstræti 22 sem vekur von um að hægt verði að ráðast í endurbætur á því.  Lítið er hins vegar eftir af húsinu við Austurstæti 22 og verður það væntanlega rifið.  Það verður hins vegar að teljast mikil mildi að hús Hressingarskálans skyldi ekki hafa orðið eldinum að bráð.  Þó er ljóst að mikil menningarlegar og sögulegar minjar hafa glatast.

Nú tekur við tími uppbyggingar.  Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur boðað að hann vilji beita sér fyrir því að hún gangi hratt fyrir sig.  Hins vegar er mikilvægt að vandað verði til verka og að ekki verði rasað um ráð fram við endurbyggingu eins sögufrægasta götuhorns Reykjavíkur.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband