Gleðilegt sumar!

Það verður ekki annað sagt en að sumarið hafi heilsað með stæl, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu.  Sumardagurinn fyrsti hefur ekki alltaf verið jafn veðursæll og í dag, a.m.k. minnist ég þess að veðrið hafi ekki alltaf verið í samræmi við tilefnið þennan dag, því gjarnan hefur sumarið hafist með roki, rigningu og jafnvel snjókomu.

En sumarið hefur haft fleira gott í för með sér, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn.  Í dag birtir Morgunblaðið niðurstöður skoðanakönnunar Capacent Gallup sem gerð var dagana 10. - 16. apríl.  Könnunin sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn bætir verulega við sig fylgi og fengi 40,8% atkvæða ef kosið væri nú og ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka.  Það sem er ekki síst ánægjulegt við niðurstöður könnunarinnar er að Sjálfstæðiflokkurinn virðist vera í mikilli sókn hjá konum, en mun fleiri konur ætla að kjósa flokkinn nú en áður.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að vel heppnaður landsfundur Sjálfstæðisflokksins og sú stefna sem þar var mótuð eiga sinn þátt í þessari fylgisaukningu.  Ég held einnig að kjósendur séu farnir að sjá í gegnum loforðaflaum og gylliboð stjórnarandstöðuflokkanna og hafi áttað sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn er líklegastur til þess að efla lífskjör fólksins í landinu.

Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins hófst formlega við setningu landsfundarins.  Frá þeim tíma höfum við frambjóðendur flokksins verið víða á fundum og mannamótum og verið vel tekið, enda er meðbyrinn mikill. 

Sjálfur hef ég verið mikið á ferðinni í dag.  Ég fór í Skátamessu í Hallgrímskirkju í morgun með Sölku og þaðan lá leiðin á sumarhátíð ÍTR við Ingunnarskóla í Grafarholti.  Fjöldi fólks var á báðum stöðum þar sem upphafi sumars var fagnað.  Ég kíkti líka við á sumarhátíð í Grafarvogi og Vesturbæ, auk þess sem við sjálfstæðismenn opnuðum tvær glæsilegar kosningaskrifstofur í Reykjavík.  Þá fyrri opnuðum við í Húsi verzlunarinnar en þá síðari í Landsbankahúsinu við Langholtsveg.  Kosningaskrifstofurnar eru glæsilegar og fullt var út úr dyrum á báðum stöðum.  Áður höfðu verið opnaðar kosningaskrifstofur flokksins í Árbæ og í Breiðholti.  Á laugardag klukkan 14.00 verður síðan opnun kosningaskrifstofu okkar í JL-húsinu og á sunnudag klukkan 16.00 opnar kosningaskrifstofa okkar í Hverafold 5 í Grafarvogi.

Það dylst engum að grasrótarhreyfingin í Sjálfstæðisflokknum er gríðarlega fjölmenn og sterk.  Slíkt er gríðarlega mikilvægt og uppörvandi fyrir okkur sem erum í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Gleðilegt sumar!

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband