Meirihluti vill bjór og léttvín í búðir

Allt frá því ég tók sæti á Alþingi hef ég ásamt nokkrum félögum mínum úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Birgi Ármannssyni og Bjarna Benediktssyni, lagt fram frumvarp sem heimilar sölu á léttvíni og bjór í búðum.

Frumvarpið hefur mætt mikilli andúð ýmissa flokka og stjórnmálamanna á Alþingi, einkum vinstrimanna sem ekki aðhyllast viðskiptafrelsi.  Hafa andstæðingar frumvarpsins, með Ögmund Jónasson, þingflokksformann Vinstri grænna í fararbroddi, látið sem vind um eyru þjóta skoðanir almennings, en oftar en einu sinni hafa skoðanakannanir sýnt að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur því að heimilað verði að selja þessar vörur í matvöruverslunum.

Í Fréttablaðinu í dag er birt skoðanakönnun sem sýnir að tæp 58% svarenda eru fylgjandi þessari breytingu.  62% karla eru henni hlynntir, en 53,2% karla.

Frumvarpið hefur fram til þessa ekki náð fram að ganga á Alþingi.  En við leggjum ekki árar í bát.  Við sem erum talsmenn þessarar sjálfsögðu breytingu munum leggja frumvarpið fram á Alþingi þar til að það verður samþykkt sem lög frá Alþingi.  Vonandi gerist það fyrr en síðar.

Um helgina lýsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir stuðningi sínum við þessum áformum okkar.  Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um viðskipta- og neytendamál segir meðal annars:

,,Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum.”

Á komandi kjörtímabili munum við flutningmenn frumvarpsins leggja frumvarpið fram á nýjan leik á grundvelli þess sterka umboðs sem landsfundurinn veitti okkur.  Skoðanakönnun Fréttablaðsins styrkir okkur í þeirri trú að meirihluti þjóðarinnar sé okkur einnig sammála.

Baráttan okkar gegn afturhaldsöflunum heldur því áfram.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband