Rífandi stemning á landsfundi Samfylkingarinnar!

Eins og ég hef áður líst í pistli á þessari heimasíðu minni þá hófst landsfundur Sjálfstæðisflokksins á fimmtudaginn var og lauk á lauk á sunnudag.  Fundurinn var að mínu mati hinn glæsilegasti og markaði hann formlegt upphaf kosningabaráttu okkar sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar.

En það eru fleiri sem gleðjast yfir landsfundum sínum.  Samfylkingin hélt landsfund sinn um helgina, nánar tiltekið á föstudag og laugardag.  Fulltrúar Samfylkingarinnar sem hafa tjáð sig um landsfundinn hafa ekki haldið vatni yfir því hversu vel tókst til.  Mikið hefur verið lagt upp úr því af hálfu Samfylkingarinnar að halda því fram að fundurinn hafi verið sá fjölmennasti í sögu hennar, hann hafi verið magnaður og að stæll hafi verið yfir slitum hans.  Hefur Samfylkingarfólk varla náð andanum yfir því hversu mikil eindrægni og samstaða hafi ríkt á fundinum og glimrandi góð stemming sem veiti flokknum glæsilegt veganesti inn í kosningarnar.

Fyrir okkur sem stöndum utan Samfylkingarinnar er eitthvað furðulegt við þessar lýsingar.  Ég er hræddur um að sjálfstæðismenn hefðu ekki hoppað um af kæti, eins og Samfylkingarfólks er sagt hafa gert, ef fjölmiðlar hefðu birt skoðanakannanir sem sýndu 18% fylgi flokksins meðan á landsfundinum stóð, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur alltaf miðað Samfylkinguna við Sjálfstæðisflokkinn og sagt að hún ætti að vera sambærilegur Sjálfstæðisflokknum að stærð.  Ég er hræddur um að okkur hefði frekar runnið kalt vatn milli skinns og hörunds að fá slíkan vitnisburð.

Ekki er heldur trúlegt að skrif Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum formanns Alþýðuflokksins, og Stefáns Jóns Hafstein, fyrrum formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hafi verið til þess fallin að rífa upp móralinn á fundinum, en þeir virðast hafa nú efasemdir um að skynsamlegt hafi verið að stofna Samfylkinguna.  Að minnsta kosti hafi markmiðið sem stefnt var að með stofnun hennar ekki náðst, þ.e. að sameina vinstri menn.  Sú niðurstaða blasir við þegar skoðanakannanir sýna Steingrím J. Sigfússon og Vinstri græna trekk í trekk stærri en flokk hinna sameinuðu vinstimanna.  Ekki er laust við að maður skynji ákveðinn uppgjafartón í skrifum þessara lykilmanna innan Samfylkingarinnar.

Þá bendir ýmislegt til þess að landfundur Samfylkingarinnar hafi ekki verið sá stærsti í sögu hennar.  Eins og Vef-Þjóðviljinn bendir á í pistli sínum í dag þá hefur verið erfitt að fá upplýst hjá Samfylkingunni hversu margir greiddu atkvæði á fundinum í kjöri framkvæmdastjórnar flokksins.  En Vef-Þjóðviljinn lét leyndina ekki aftra sér frá því að upplýsa málið, því einhver úr þeirra röðum lagði það mikla erfiði á sig að hlusta á upptökur af landsfundinum.  Upptökurnar leiða í ljós að 454 atkvæði hefðu verið greidd í kjörinu og að kosningaþátttaka hafi við 72,8%.  Af því má álykta að 624 fulltrúar hafi átt sæti á landsfundi Samfylkingarinnar.  Sú tala er í nokkru ósamræmi við yfirlýsingar Samfylkingarfólks um að vel á annað þúsund manns hafi sótt landsfundinn.  Þær eru líka í ósamræmi við fullyrðingar um að fundurinn hafi verið sá fjölmennasti í sögu flokksins, því eins og Vef-Þjóðviljinn upplýsir þá hlaut Ágúst Ólafur Ágústsson 839 atkvæði í varaformannskjöri á landsfundi flokksins árið 2005.  Deildar meiningar eru reyndar um það hvort þau hafi öll verið heiðarlega fengin, en þar til annað sannast virðast staðhæfingar Samfylkingarinnar um að fundurinn hafi verið sá stærsti í sögunni ekki standast.  Fundurinn árið 2005 virðist hafa verið mun fjölmennari.

Það vekur auðvitað líka athygli að forysta flokks sem á hátíðardögum talar um mikilvægi lýðræðis og lýðræðislegra vinnubragða skyldi ekki beita sér fyrir því að þeir landsfundarfulltrúar sem þó mættu á fundinn skyldu ekki fá að greiða atkvæði um formann og varaformann flokksins.  Í staðinn var látið nægja að leyfa þeim að klappa saman lófunum, líkt og gert var áður í ýmsum löndum Austur-Evrópu sem seint verða talin útverðir lýðræðislegra vinnubragða.  Því er óljóst með hversu sterkt umboð formaður og varaformaður Samfylkingarinnar hafa frá flokksmönnum sínum í aðdraganda kosninga.

Það sem mér fannst markverðast á við landsfund Samfylkingarinnar var hversu mikinn áhuga fjölmiðlar sýndu tveimur norrænum stjórnarandstæðingum, Svíanum Mónu Sahlin og Dananum Helle Thorning-Schmidt.  Heimsókn þeirra varpaði skugga á annað sem fram fór á landsfundi Samfylkingarinnar.  Ég fæ hins vegar ekki séð hvernig sú athygli á að hjálpa Samfylkingunni í komandi kosningum, enda kemur hún þeim ekki við.

Sigurður Kári


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband