Landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur í dag

Í dag verður 37. landsfundur Sjálfstæðisflokksins settur í Laugardalshöll.  Dagskráin á fundinum er með hefðbundnu sniði en í upphafi hans flytur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, setningarræðu sína.  Vafalaust er að í ræðu sinni muni formaðurinn gera grein fyrir þeim málefnum sem Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á í aðdraganda komandi alþingiskosninga.  Ef ég þekki formanninn rétt mun hann einnig hvetja sjálfstæðismenn og -konur um allt land til að taka höndum saman og tryggja flokknum glæsilega útkomu í kosningunum.

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins er afar merkilegir og magnaðir fundir.  Fyrir utan það að vera stærsta lýðræðissamkoma Íslands kenyr saman á Landsfundu flokksfólk af öllu landinu og markar stefnu fyrir flokkinn.  Gera má ráð fyrir að landsfundarfulltrúar í þetta skiptið verði í kringum 2000 og því má búast við að Laugardalshöllin verði full fram á sunnudag.  Á landsfundinum verður unnið mikið og gagnlegt málefnastarf í öllum málaflokkum, ráðherrar flokksins sitja fyrir svörum auk þess sem sjálfstæðismenn gera sér glaðan dag.

Sjálfur hef ég unnið að undirbúningi að landsfundarályktun um skóla- og fræðslumál.  Sú vinna hefur verið ánægjuleg, enda getur Sjálfstæðisflokkurinn státað af glæsilegum árangri á sviði menntamála allt frá því að flokkurinn tók við yfirstjórn menntamála árið 1991.  Óumdeilt er að frá þeim tíma hafi átt sér stað bylting í menntamálum Íslendinga.

Áður en setningin hefst mun ég verða gestur á tveimur fundum.  Sá fyrri er hádegisfundur Röskvu í Háskóla Íslands með frambjóðendum um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands og um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  Síðan mun ég halda suður í Reykjanesbæ þar sem ég mun halda erindi á merku málþingi skólans um sérkennslu í íþróttum á Íslandi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband