Margrét Sverrisdóttir, Framsóknarflokkurinn og Evrópa

Skríbentarnir á Vef-Þjóðviljanum hitta oftar en flestir naglann á höfuðið.  Vef-Þjóðviljinn hefur einnig frá stofnun gengið hvað harðast fram í því að veita stjórnvöldum og stjórnmálamönnum aðhald, ekki síst með því að rifja upp þeirra eigin orð um ýmis málefni.

Í grein dagsins gerir Vef-Þjóðviljinn frétt Ríkissjónvarpsins þann 10. apríl sl. að umræðuefni, en í fréttinni sagði eftirfarandi:

..Íslandshreyfingin vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax. Aðrir flokkar vilja fara sér hægar. Þetta kom fram á málefnafundi Sjónvarpsins á Selfossi í kvöld.”

Vegna fréttarinnar sér Vef-Þjóðviljinn ástæðu til að rifja upp ummæli Margrétar Sverrisdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins og núverandi varaformanns Íslandshreyfingarinnar, í Morgunblaðinu þann 16. október 2003.  Þá sagði Margrét:

,,Með tali um upptöku evrunnar er verið að reyna að hraða þróun ESB í átt til evrópsks risaveldis með sameiginlegri mynt, en minna hugsað um efnahagslegan ávinning. Ég vara við þessum þrýstingi og leyfi mér að kalla það landráð ef menn vilja ganga inn í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og afhenda valdaklíku stærstu fimm Evrópuþjóðanna fullveldi og sjálfstæði Íslands.”

Þegar þessi ummæli eru lesin fer ekkert á milli mála að höfundur þeirra, Margrét Sverrisdóttir, er grjótharður andstæðingur þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.  Raunar er Margrét svo sannfærður andstæðingur aðildar að hún kallar talsmenn hennar landráðamenn og sakar þá um að vilja afhenda valdaklíkunni í Brussel fullveldi og sjálfstæði Íslands!  Þetta eru stór orð en afstaðan er skýr.  Af ummælunum að dæma verður að ætla að afar mikið þyrfti til að koma til þess að Margréti Sverrisdóttur myndi snúast hugur varðandi afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Það má halda því fram með góðum rökum að aðild að Evrópusambandinu hafi síst orðið álitlegri kostur fyrir Ísland frá því að Margrét Sverrisdóttir lét ummælin falla árið 2003.  Síðan þá hafa reyndar nokkrar Austur-Evrópuþjóðir gerst aðilar að Evrópusambandinu, þjóðir sem standa Íslandi langt að baki í efnahagslegu tilliti.  Því er líklegt að Evrópusambandið þurfi á næstu árum að eyða miklu púðri í byggja upp innri markað, efnahag og atvinnulíf þessara þjóða á næstu misserum og árum.  Efast má um að sú staðreynd geri aðild Íslands að Evrópusambandinu eftirsóknarverðari nú en en hún var áður.

Margrét Sverrisdóttir er nú varaformaður Íslandshreyfingarinnar og mun skipa efsta sæti flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna fyrir komandi Alþingiskosningar.  Í ljósi þess verður að ætla að hún hafi eitthvað að segja um stefnumörkun flokksins í mikilvægum málum, þar á meðal Evrópumálum.  Nú liggur fyrir staðfesting á því að hún og flokkurinn hennar vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu strax.  Margrét Sverrisdóttir skuldar almenningi því skýringar á því hvað olli fullkominni umpólun hennar í afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Framsóknarflokkurinn kynnti á dögunum stefnuskrá sína fyrir komandi kosningar.  Þar kemur fram að flokkurinn setur Evrópusambandsaðild ekki á dagskrá.  Það er að mínu mati fagnaðarefni.  Stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum hefur verið heldur flöktandi á síðustu misserum, enda hafa ýmsir forsvarsmenn flokksins daðrað við aðild á meðan aðrir hafa verið henni algerlega mótfallnir.  Er þar skemmst að minnast ræðu Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs árið 2006 þegar hann spáði því að Ísland yrði orðið aðili að Evrópusambandinu árið 2015.  Í svipaðan steng hefur Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, tekið.  Á sama tíma hefur Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, alfarið hafnað aðild Íslands að sambandinu.  Nú er stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum orðin skýrari.  Flokkurinn telur að hagsmunum Íslands sé best borgið í gegnum EES-samninginn.  Ég er sammála því mati.

Sigurður Kári.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband