Sama hvaðan gott kemur

Furðulegar fréttir hafa á síðustu dögum verið fluttar af framgöngu forsvarsmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Fyrir nokkrum dögum var upplýst að Vinstri grænir hefðu látið framleiða kosningabarmmerki úr áli sem frambjóðendur flokksins og stuðningsmenn hans munu bera stoltir fram að kosningum.  Í fréttaviðtali Stöðvar 2 við Stefán Pálsson, einn helsta talsmann flokksins, kom reyndar fram að barmmerkin eru búin til úr svokölluðu góðu áli, en ekki vondu áli, hver sem munurinn á þessu tvennu er.

Furðulegri frétt um framgöngu Vinstri grænna birtist hins vegar í Fréttablaðinu í vikunni.  Þar kom fram að vinstri grænir hefðu óskað eftir 300.000 kr. fjárstyrk frá Alcan vegna kosningabaráttu flokksins.  Ekki er vitað hvort við þessari beiðni hafði orðið, en hún sýnir að forsvarsmenn eru annað hvort veruleikafirrtir eða kunna ekki að skammast sín.  Beiðni þeirra um fjárstyrk frá Alcan er álíka smekkleg og ef Samfylkingin myndi óska eftir framlögum frá Bændasamtökunum í kosningasjóð sinn eða ef Frjálslyndiflokkurinn óskaði eftir fjárstyrk frá Alþjóðahúsinu í sinn kosningasjóð.

Vinstri grænir hafa fram til þessa lagt sig mjög fram um að sýna fram á að þeir væru samkvæmir sjálfum sér og í raun allt að því heilagir þegar kemur að ýmsum málaflokkum.  Það að Vinstri grænir séu reiðubúnir til þess að þiggja fé frá álfyrirtæki, og það sem meira er, sækjast sérstaklega eftir því, sýnir hversu einbeittir þeir eru í trúnni.  Þegar á reynir er þeim sama hvaðan gott kemur.

Að öðru.  Í vikunni fékk ég kosningablað Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður inn um lúguna, en blaðið ber heitið ,,Reykjavík”.  Kennir þar ýmissa grasa en mestu púðri er eytt í opnuviðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformann, þar sem reynt er að undirstrika hversu samhent og samstíga þau eru í öllum sínum aðgerðum.  Það vekur hins vegar óneitanlega mikla athygli að í blaðinu er ekki minnst einu orði á varaformann flokksins, Ágúst Ólaf Ágústsson, og heldur ekki birtar af honum myndir.  Það virðist sem Samfylkingin ætli sér ekki að flagga Ágústi Ólafi mikið fyrir þessar kosningar, þó hann skipi annað sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

Sigurður Kári

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband