Kastljósið og baráttan gegn fíkniefnasölum

Í þessari viku hafa áhorfendur Kastljóssins fengið tækifæri til þess að sjá einstakar myndir af aðgerðum lögreglu gegn grunuðum fíkniefnasölum.  Umfjöllun Kastljóssins sýnir hversu erfitt og hættulegt starf lögreglumanna getur á köflum verið.  En hún sýnir einnig hversu árangursríkar slíkar aðgerðir geta verið þegar einstakar deildir lögreglunnar leggja saman krafta sína.

Í umfjölluninni hefur komið fram að aðgerðir lögreglunnar byggi á miklu samstarfi lögregluyfirvalda einstakra umdæma, fíkniefnalögreglunnar, sérsveitar lögreglunnar og greiningardeildar ríkislögreglustjóra.  Óhætt er að segja að þær svipmyndir sem birst hafa landsmönnum í umfjöllun Kastjóssins séu áhrifaríkar og sýni mikilvægi þessara deilda fyrir starsemi löggæslu í landinu sem ætlað er að tryggja öryggi borgaranna.

Þegar ég horfði á þessa umfjöllun Kastjóssins rifjaðist upp fyrir mér framganga þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrir um það bil einu ári síðan.  Þá var til umfjöllunar frumvarp Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, til breytinga á lögreglulögum.  Frumvarpið mælti meðal annars fyrir um það að heimila embætti ríkislögreglustjóra að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem hefði það að markmiði að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. 

Þessi áform dómsmálaráðherra mættu mikilli andstöðu þingmanna stjórnarandstöðunnar, einkum þingmanna Samfylkingarinnar, og raunar ýmissa annarra aðila í þjóðfélaginu, sem reyndu eftir fremsta megni að gera tillögur ráðherrans tortryggilegar með alls kyns útúrsnúningum og uppnefnum.  Er þar skemmst að minnast þess að þingmenn á borð við Össur Skarphéðinsson, Ágúst Ólaf Ágústsson og Björgvin G. Sigurðsson, tóku varla þátt í umræðunni án þess að tala um njósnadeildir, leyniþjónustu eða leynilögreglu Björns Bjarnasonar.

Eftir umfjöllun Kastjóssins hafa þessir kappar látið lítið fyrir sér fara, enda ekki nema von.  Umfjöllun Kastljóssins sýnir fram á mikilvægi samstarfs þessara deilda lögreglunnar og mikilvægi þess að lögreglan hafi þau úrræði sem nauðsynleg eru til þess að meta og greina þá hættu sem stafar af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi svo hana megi uppræta, eins og tillögur Björns Bjarnasonar höfðu að markmiði.

Úr því sem komið er geri ég ekki ráð fyrir að áðurnefndir þingmenn hafi mikinn áhuga á því að ræður þeirra á Alþingi og í fjölmiðlum um þessi mál verði rifjuð upp.  En það vakna auðvitað upp spurningar um hvort þeir og félagar þeirra í Samfylkingunni, þingmennirnir Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Valdimar Leó Friðriksson, sem nú er reyndar fallinn fyrir borð og genginn til liðs við Frjálslyndaflokkinn, hefðu greitt þessum tillögum atkvæði sitt hefðu þeir gert sér grein fyrir mikilvægi þessara úrræða í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.

Það þarf kannski ekki að taka það sérstaklega fram, en allir þessir þingmenn greiddu atkvæði á móti því að veita lögreglunni þau úrræði sem upplýst er um í umfjöllun Kastljóssins.  Hver og einn verður síðan að meta hver hafði málstaðinn með sér í málinu og hver ekki.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband