Upphafið að þjóðareign á auðlindum

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, ritar grein í Morgunblaðið í dag sem ber yfirskriftina ,,Upphafið að þjóðareign á auðlindum.” Tilefni greinarskrifanna eru fullyrðingar fyrrum flokksbróður hans, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í viðtali í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins þar sem Össur mun hafa haldið því fram að Alþýðuflokkurinn sálugi hafi fyrstur lagt fram tillögur um að lögfesta ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar.

Í greininni kemur skýrt fram að Hjörleifur er ekki sáttur við söguskýringar Össurar og telur þær rangar.  Þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings rekur Hjörleifur umræðu sem átti sér stað á Alþingi fyrir nær aldarfjórðungi og segir að fyrsta tillaga þessa efnis hafi komið frá þingmönnum Alþýðubandalagsins í desember 1983 þegar til umræðu var stjórnarfrumvarp Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem lagði grunninn að núverandi stjórnkerfi fiskveiða.

Í grein Hjörleifs kemur fram að þingmenn Alþýðubandalagsins hafi á þeim tíma lagt fram breytingatillögu við frumvarp Halldórs Ásgrímssonar.  Flutningsmenn tillögunnar voru Steingrímur J. Sigfússon, núverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Geir Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson.  Fyrsti málsliður tillögunnar hljóðaði svo:

,,Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindir innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendingar.”

Skemmst er frá því að segja að tillaga þeirra félaga var felld, en ástæðan fyrir þessari upprifjun Hjörleifs virðist vera sú að reyna að sýna fram á að gamla Alþýðubandalagið hafi frá upphafi verið í fararbroddi stefnumörkunar sem hafði það að markmiði að þjóðnýta auðlindir hafsins, en ekki Alþýðuflokkurinn eða jafnaðarmenn.  Kemur þetta raunar skýrt fram í niðurlagi greinarinnar, en þar segir:

,,Lengra verður þessi saga ekki rakin.  Hún tekur af tvímæli um hverjir það voru sem höfðu frumkvæði að því að ákvæðið um þjóðareign á sjávarauðlindum var tekið inn í íslenska löggjöf.  Þeir hinir sömu hafa lengi barist fyrir því að slík ákvæði verði sett í stjórnarskrá lýðveldisins og það sjónarmið hefur átt vaxandi skilningi að mæta.  Þegar það gerist verður að tryggja að slíkt ákvæði hafi merkingu en með því sé ekki verið að innsigla þá einkavæðingu auðlindarinnar sem reynt hefur verið leynt og ljóst að festa í sessi undanfarna tvo áratugi.”

Ekki ætla ég að fara að blanda mér í deilur þeirra Össurar og Hjörleifs um það hvort fulltrúar Alþýðuflokksins eða Alþýðubandalagsins eigi ,,heiðurinn” af því að hafa fyrst sett fram hugmyndir um svokallaða þjóðareign á náttúruauðlindum.  Þeir verða að gera þann ágreining upp sín á milli.

Hins vegar er vert að rifja upp nokkrar staðreyndir málsins vegna greinar Hjörleifs Guttormssonar í Morgunblaðinu í dag.

Ákvæði um sameign þjóðar eða þjóðareign á auðlindum voru fyrst lögfestar í stjórnarskrá Sovétríkjanna sálugu.  Í kjölfar þess að eignarréttur var afnuminn í ráðstjórnarríkinu voru allar auðlindir færðar til ríkisins með þeim hörmulegu afleiðingum sem allir þekkja og óþarft er að rekja hér frekar.  Sambærileg ákvæði hafa hins vegar ratað inn í stjórnarskrár ýmissa fyrrum leppríkja Sovétríkjanna, s.s. Búlgaríu, Rúmeníu og Eistlands, svo nokkur dæmi séu tekin.

Hins vegar er rétt að benda á að það er sannleikskorn í því hjá Össuri Skarphéðinssyni að Alþýðuflokkurinn hafi fyrstur flokki sett fram hugmyndir um sameign eða þjóðareign á náttúruauðlindum.  Í stefnuskrá Alþýðuflokksins sem samþykkt var á 37. flokksþingi flokksins í október 1976 gat meðal annars að líta þá stefnu flokksins að Ísland allt yrði þjóðareign.  Forsendum að baki hugmyndinni um þjóðnýtingu alls lands var lýst þannig:

,,Skilgreining eignarréttarins í íslenskum lögum er sprottin úr þjóðfélagi og hugmyndaheimi liðins tíma, og er um margt í andstöðu við þjóðarhag og hugsjónir jafnaðarstefnunnar.  Tilfinnanlegast er þetta hvað varðar eignarrétt á landi og landgæðum.  [...] Það er gagnstætt öllu réttlæti að einstakir landeigendur geti hirt stórgróða vegna þess eins að alþjóðarþörf hafi gert lönd þeirra verðmæt án nokkurs tilverknaðar þeirra sjálfra.”

Í stefnuskrá Alþýðuflokksins var ekki gerður greinarmunur á þjóðnýtingu lands annars vegar og auðlinda sjávar hins vegar.  Lögð var áhersla á að þessar hugmyndir yrðu lögfestar í stjórnarskrá með svohljóðandi ákvæði:

,,Íslenska þjóðin öll, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á Ísland allt, gögn þess og gæði og miðin umhverfis það.  Alþingi fer með umráðarétt yfir þessari eign, en getur með lögum veitt einstaklingum, fyrirtækjum og félagsheildum, til dæmis sveitarfélögum, tiltekinn rétt til þessara gæða.”

Í stefnuskrá Alþýðuflokksins var ríkinu ætlar stórt hlutverk í atvinnurekstri, en þar sagði:

,,Áætlunarbúskapur er lykillinn að þjóðhollri nýtingu fiskimiðanna.
Mikilvægustu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eiga að vera almenningseign.
[...] Fiskimið eru auðlind af því tagi, sem ekki verður nýtt skynsamlega nema með víðtækum áætlunarbúskap.
[...]
Vegna þess hve mikið veltur á útgerð og fiskvinnslu bæði fyrir þjóðarheildina og fyrir einstök byggðarlög, eiga mikilvægustu fyrirtæki fyrirtæki í þessum greinum að vera almenningseign með einum eða öðrum hætti og yfirráð yfir þeim jafnan í höndum heimamanna á hverjum stað.”

Ekki ætla ég eigna Össuri Skarphéðinssyni þessar róttæku og sósíalísku þjóðnýtingar- og miðstýringarhugmyndir Alþýðuflokksins frá árinu 1976, enda var Össur þá líklega flokksbundinn Alþýðubandalagsmaður.  Þær skýra hins vegar hugsanlega þá áherslu sem Samfylkingin hefur lagt á að tekin verði upp svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi sem mælir fyrir um að ríkið geri aflaheimildir upptækar bótalaust, enda er sú hugmyndafræði sem fyrningarleiðin byggir á er samkynja þeirri sem Alþýðuflokkurinn setti fram árið 1976.

Deilur hafa staðið um núverandi stjórnkerfi fiskveiða um margra ára skeið.  Hvað sem þeim deilum líður verður ekki framhjá því litið að sjávarútvegurinn, sem fyrir tíma núverandi kerfis var rekin á gengisfellingum og öðrum sértækum úrræðum, er nú blómleg atvinnugrein sem stendur á traustum fótum.  Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem hefur átt mikinn þátt í því að skapa þá velsæld og framfarir sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum.  Sem betur fer var hugmyndafræði Alþýðuflokksins, Hjörleifs Guttormssonar, Steingríms J. Sigfússonar og annarra róttækra vinstri manna ekki hrint í framkvæmd.  Óhætt er að fullyrða að staða þessarar undirstöðuatvinnugreinar væri önnur í dag ef sú hefði orðið raunin.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband