Marktæk undirskriftasöfnun?

Síðustu daga hefur maður gengið undir manns hönd til þess að gera undirskriftasöfnunina á vefsíðunni http://www.kjosum.is/ tortryggilega, þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að synja nýju Icesave-lögunum staðfestingar og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir sem það gera eiga það flestir eða allir sameiginlegt að fylgismenn eða félagar í Samfylkingunni eða Vinstri grænum, þeim stjórnmálaflokkum sem felldu tillögur stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur á Alþingi í gær.

Viðbrögð þessara talsmanna ríkisstjórnarflokkanna bera það með sér að innan herbúða þeirra hafi gripið um sig mikil örvænting og ótti við að þeir tugir þúsunda undirskrifta sem safnast hafa á örskömmum tíma muni leiða til þess að forseti Íslands synji lögunum staðfestingar og vísi þeim til þjóðarinnar.

Það vill ríkisstjórnin ekki sjá.

Og öllu er nú tjaldað til.  Vefsíðan átti að vera öðruvísi útbúin, persónuverndarsjónarmið eru sögð fótum troðin og ég veit ekki hvað.  Lengst gekk Teitur Atlason, álitsgjafi í Svíþjóð í Kastljósi kvöldsins, þar sem hann hélt því fram að undirskriftasöfnunin væri ómarktæk vegna þess að einhverjir aðstandendur hennar væru að hans mati öfgamenn.

Mér fannst broslegt að heyra þessa röksemd, ekki síst úr því hún kom úr munni Teits Atlasonar, sem seint verður talinn til hófsömustu og dagfarsprúðustu álitsgjafa þessa lands, bæði þegar kemur að skoðunum og framsetningu þeirra.

En gott og vel.

Það er sjálfsagt að gera athugasemdir við það hvernig staðið er að undirskriftasöfnunum á Íslandi.  Rafræn söfnun undirskrifta á netinu er hvorki jafn traust né örugg eins og skriflegir listar sem fólk undirritar sjálft með eigin hendi.

En svona hefur undirskriftum verið safnað hér á landi og það fyrirkomulag sem nú er viðhaft verið samþykkt sem fullnægjandi aðferð, hvað sem um hana má segja.  Þess vegna er undirskrifarsöfnunin á http://www.kjosum.is/ alveg jafn marktæk og aðrar undirskriftasafnanir sem efnt hefur verið til á undanförnum árum.

Fram til þessa hafa íslenskir vinstrimenn aldrei gengið jafn langt og nú í að véfengja slíkar undirskriftasafnanir.

Það gerðu þeir ekki, og treystu sér líklega ekki til þess, meðan undirskriftarsöfnun InDefence stóð yfir og leiddi til þess að Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta Icesave-lögin þann 5. janúar 2010.

Og ekki gerðu þeir það árið 2004 þegar Róbert Marshall, nú þingmaður Samfylkingarinnar, en þá formaður Blaðamannafélags Íslands, stóð fyrir sambærilegri undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar.

Og það heyrðist auðvitað ekki múkk frá sama fólki þegar Björk Guðmundsdóttir og félagar hennar söfnuðu undirskriftum á vefsíðunni http://www.orkuaudlindir.is/, þar sem skorað var á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.

Þá sögðu þeir sem hæst hafa nú í gagnrýninni ekki neitt.

Ekki einu sinni Teitur Atlason.

Hvers vegna ætli það sé?

Sigurður Kári


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband