Aðför ríkisstjórnarinnar að ferðaþjónustunni

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar, við tilraunum íslenskra fyrirtækja til að auka umsvif sín og um leið að skapa störf fyrir fólkið í landinu og auknar tekjur fyrir þjóðarbúið, eru óskiljanleg.

Í hvert sinn sem glittir í atvinnusköpun á Íslandi virðist uppnám skapast innan ríkisstjórnarinnar og maður gengur undir manns hönd til þess að koma í veg fyrir uppbyggingu og verðmætasköpun.

Nýverið kynnti Icelandair áform sín um að auka umsvif fyrirtækisins. Þessi auknu umsvif áttu m.a. að felast í því að fjölga flugvélum, farþegum og áfangastöðum. Forsvarsmenn fyrirtækisins áformuðu að hin auknu umsvif myndu skapa 200 ný störf innan félagsins og leiða til 17% aukningar í áætlunarflugi og fjölgun ferðamanna til Íslands. Með öðrum orðum var kynnt umfangsmesta sumaráætlun í rúmlega 70 ára sögu fyrirtækisins, sem sannarlega yrði mikil búbót fyrir þjóðarbúið.

Þeir hagsmunir sem hér eru í húfi eru gríðarlegir. Fyrir utan 200 ný störf hefðu umsvif á Keflavíkurflugvelli aukist verulega, bæði í starfsmannahaldi og veltu, en önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu hefðu jafnframt notið góðs af auknum umsvifum. Nægir þar að nefna að áætlað hefur verið að 10% fjölgun ferðamanna jafngildi aukningu gjaldeyristekna um 15 milljarða króna.

En nú eru þessi áform í algjöru uppnámi og alls ekki víst að af þeim verði. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin ætlar sér að hækka skatta á ferðaþjónustuna í landinu. Þessar skattahækkanir munu hækka gjöld á farþega, sem þó eru ærin fyrir, og þar með draga úr áhuga þeirra á því að ferðast til Íslands. Með því skekkir ríkisstjórnin ekki eingöngu samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart samkeppnislöndunum, heldur kastar hún samhliða 15 milljarða króna tekjum á glæ, til þess að geta náð í 100 milljónir króna í aukna skatta. Hún hirðir aurinn, en kastar krónunni.

Skattahækkunarstefna ríkisstjórnarinnar er ekkert annað en aðför að ferðaþjónustunni í landinu. Í stað þess að styðja við bakið á gamalgrónum fyrirtækjum, sem á erfiðum tímum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu og auknum gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið, leggur ríkisstjórnin nú stein í götu þeirra og kemur í veg fyrir að af slíkum áformum geti orðið.

Gangi þessi skattahækkunaráform eftir munu þau valda miklu tjóni. Fólk í atvinnuleit verður af þessum nýju störfum. Ríkið verður af skatttekjum, en þarf þess í stað að greiða atvinnuleysisbætur. Ferðaþjónustan verður af kærkominni vítamínsprautu með tilheyrandi tekjutapi og þjóðarbúið glatar auknum gjaldeyristekjum sem það þarf svo sárlega á að halda. Og það nöturlegasta við þetta allt saman er að skattahækkanirnar sem ríkisstjórnin nú boðar munu á endanum ekki skila ríkinu neinum auknum tekjum í ríkissjóð, heldur þvert á móti.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku atvinnulífi ber stjórnvöldum skylda til þess að styðja við bakið á fyrirtækjunum í landinu, en ekki stinga þau í bakið. Þeim ber skylda til að greiða götu þeirra sem hafa styrk, getu og vilja til þess að vaxa. Það er því sorglegt að horfa upp á núverandi ríkisstjórn gera allt sem í hennar valdi stendur til að draga mátt úr atvinnulífinu um leið og vaxtarbroddar, sem um munar, eru að myndast.

Með slíka ríkisstjórn við völd er borin von að Ísland nái sér aftur á strik.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband