Landsdómur: Verður ríkið skaðabótaskylt?

Mikil leynd hefur hvílt yfir störfum þingmannanefndarinnar sem undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, er ætlað að gera tillögur um viðbrögð Alþingis við því sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er hins vegar sagt frá að líklegt sé að lagt verði til að gefin verði út ákæra á hendur fyrrverandi ráðherrum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þeir dregnir fyrir landsdóm.

Verði niðurstaðan sú að höfða skuli slík sakamál mun landsdómur fá það hlutverk að skera úr um það hvort þeir sem ákærðir verða skuli sæta refsingu, þ.e. sektum eða fangelsi, vegna embættisfærslna sinna og þeirrar vanrækslu sem Rannsóknarnefnd Alþingis taldi að þeir hefðu sýnt af sér.

Þetta mál er að mörgu leyti flókið og erfitt og ekki síður persónulegt.

Þó svo að afar margir taki undir þá niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis að forystumönnum þessarar ríkisstjórnar hafi orðið á í messunni og þeir gerst sekir um vanrækslu í störfum sínum, þá eru mjög skiptar skoðanir meðal fólks úr öllum flokkum um það hvort sú vanræksla réttlæti að með ráðherrana fyrrverandi skuli farið sem sakamenn og þeir dæmdir til refsingar, þ.e. greiðslu fjársektar eða fangelsisvistar, eða ekki.

Ákvörðun um að ákæra getur ekki lögum samkvæmt falið neitt annað í sér.

Verkefni þeirra Alþingismanna sem sæti eiga nefndinni er því ekki öfundsvert, ekki frekar en þeirra alþingismanna sem taka þurfa afstöðu til niðurstöðu hennar.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli sem hafa fengið minni athygli í opinberri umræðu en þær verðskulda.

Ákvörðun Alþingis um að ákæra ráðherrana fyrrverandi, svo ekki sé talað um ef  þeir verða dæmdir, kann að leiða til þess að íslenska ríkið baki sér skaðabótaskyldu gagnvart erlendum kröfuhöfum sem töpuðu stórkostlegum fjármunum í hruninu.

Það blasir við að réttarstaða þeirra erlendu kröfuhafa, sem vilja krefja íslenska ríkið um skaðabætur vegna vanrækslu æðstu ráðamanna í aðdraganda hrunsins, verður ógnarsterk ef sjálft Alþingi Íslendinga ákveður að ákæra ráðherrana fyrrverandi, svo ekki sé talað um ef ákæran leiðir til sakfellingar.

Viðbúið er að slíkar skaðabótakröfur yrðu stjarnfræðilega háar.

Þingmannanefndin hlýtur að taka slík álitamál og fleiri til alvarlegrar skoðunar áður en hún tekur ákvörðun um hvort leggja skuli til við Alþingi að ákæra verði gefin út.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband