Órólega deildin

Ögmundur Jónasson tók sæti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í gær, í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.  Skipan Ögmundar í embætti ráðherra er mikill búhnykkur fyrir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem einnig situr í ríkisstjórninni í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.

Ögmundur var gestur Kastljóss Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem m.a. var fjallað um órólegu deildina í þingflokki Vinstri grænna, en þar fer Ögmundur fremstur í flokki.

Ég hjó eftir því að Ögmundur sagði að þeir þingmenn sem skipuðu órólegu deildina ættu það sameiginlegt að vera miklir hæglætismenn.

Það má vel vera að mikið sé til í því hjá Ögmundi.

Það eru hins vegar aðrir mannkostir og mikilvægari sem ég tel að sameini liðsmenn órólegu deildarinnar.

Liðsmenn órólegu deildarinnar hjá Vinstri grænum eiga það nefnilega sameiginlegt að mínu mati að þeirra ásetningur er í grunninn sá að vilja fylgja samþykktri stefnu eigin flokks og að standa við þau kosningaloforð sem flokkur þeirra gaf fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Það sama verður ekki sagt um hinn arminn innan þingflokks Vinstri grænna, sem ekki hefur enn fengið formlegt nafn, en er leiddur af Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins.

Liðsmenn þess arms eiga það sameiginlegt að vera orðnir uppiskroppa með kosningaloforð sem hægt er að svíkja.

Fyrir þessa staðfestu sína þurfa Ögmundur, Jón og hinir liðsmenn órólegu deildarinnar nú að gjalda með uppnefningum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband