Alþýðubandalagið tekur völdin

Það fór eins og hér var spáð.

Ögmundur Jónasson og Guðbjartur Hannesson tóku í dag sæti í ríkisstjórninni á kostnað Kristjáns Möller, Álfheiðar Ingadóttur, Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússonar.

Þessar breytingar þýða að hin hreina vinstristjórn er nú orðin enn vinstrisinnaðari en hún var fyrir breytingar.

Raunar má fullyrða að sú ríkisstjórn sem tók við völdum í dag sé róttækasta vinstristjórn Íslandssögunnar og líklega sú vinstrisinnaðasta í sögu Norðurlandanna.

Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga sér rætur í harðlínukjarna Alþýðubandalagsins, að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra undanskilinni, sem klauf Alþýðuflokkinn á sínum tíma eins og frægt varð.

En þó Jóhanna hafi aldrei verið félagi í Alþýðubandalaginu verður henni seint skipað á stall með leiftrandi hægrikrötum.

Það  liggur því fyrir að nú er það gamla Alþýðubandalagið sem stýrir landinu.

Slíkt hefði þótt óhugsandi á árum áður en er nú því miður staðreynd.

Með brotthvarfi Kristjáns Möller úr ríkisstjórninni hefur krötunum í stjórnarráðinu verið úthýst.

Kratar eru nú landlausir og orðnir að hækju Alþýðubandalagsins sem stýrir landinu í þeirra skjóli.

x x x

Ríkisstjórnin snéri aftur til þings í dag eftir sumarfrí.  Stór orð hafa fallið af vörum ráðherra ríkisstjórnarinnar um að mikilvæg mál bíði úrlausnar á Alþingi.

Ekkert þessara mála var á dagskrá Alþingis í dag eins og við í stjórnarandstöðunni höfðum gert ráð fyrir.

Ríkisstjórnin virðist ekki hafa getað komið sér saman um það hvaða mál ætti að ráðast í.

Eina málið á dagskrá þingsins var munnleg skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar.

x x x

Skýrsla forsætisráðherra um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar var ekki rismikil.  Forsætisráðherranum er reyndar vorkunn því það er lítið hægt að segja um eitthvað sem ekkert er.

Sannleikurinn er sá að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið verklaus frá því hún tók við og verður það áfram.

Forsætisráðherrann flutti reyndar skýrslu sem bendir til þess að hvorki hún né ríkisstjórnin séu í nokkrum tengslum við umhverfi sitt.

Hún sagði eigin árangur og ríkisstjórnarinnar svo gríðarlega góðan að eftir honum væri tekið um allan heim.  Raunar mátti skilja forsætisráðherrann svo að útlendingar dauðöfunduðu okkur Íslendinga hreinlega af því hversu ljómandi vel allt gengi hér.  Kreppunni væri lokið, allir væru bjartsýnir og í raun væri allt í himnalagi á Íslandi.

Ég er ekki viss um að þær fjölskyldur sem nú eiga um sárt að binda, svo sem vegna fjárskorts og atvinnuleysis, víðs vegar um landið taki undir þessa lýsingu forsætisráðherrans.  Það sama á segja um forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja sem berjast í bökkum og þurfa að grípa til örþrifaráða til þess að forða sér frá gjaldþroti.

Vel má vera að Jóhanna Sigurðardóttir hafi á fyrri stigum síns pólitíska lífs verið í góðum tengslum við fólkið í landinu.

Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að þau tengsl séu nú að engu orðin, enda boðaði hún engar aðgerðir um það sem máli skiptir, þ.e. endurreisn efnahagslífsins, atvinnusköpun, lausn á skuldavanda almennings og lífskjarasókn.

Segja má að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi komist nær kjarna málsins en forsætisráðherrann í fyrri hluta ræðu sinnar í dag.  Sá hluti ræðunnar fjallaði um sérsvið ráðherrans, jarðfræði.

x x x

Það er ekkert skrýtið að almenningur hafi síðustu daga fylgst í forundran með forystumönnum ríkisstjórnarinnar verja öllum sínum tíma og kröftum í að reyna að bjarga því sem eftir er af þessu stjórnarsamstarfi með því að skipta út ráðherrum.

Atburðir síðustu daga endurspegla að helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að bjarga eigin lífi, en ekki að leysa þau brýnu vandamál sem geysa um allt samfélagið.

Það kemur því ekkert á óvart að heimilin og fyrirtækin í landinu telji sig nú vera búin að fá endanlega staðfestingu á því að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hugsa fyrst og fremst um það að vinna í eigin þágu, en ekki í þágu fjölskyldnanna, heimilanna og atvinnulífsins.

x x x

Við sem vorum viðstödd þingsetninguna í dag var ljós sú mikla spenna sem ríkir innan Samfylkingarinnar í kjölfar ráðherraskiptanna.

Það logar greinilega allt í illdeilum innan Samfylkingarinnar og milli stjórnarflokkanna.

Ákvörðun Kristjáns Möller, fráfarandi samgönguráðherra, um að heimila skráningu herþotna hollenska fyrirtækisins ECA-program á Keflavíkurflugvelli, að því er virðist í fullkominni andstöðu og án samráðs við samstarfsflokkinn ber þess skýrt merki.

Það sama má segja um yfirlýsingar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, í dag, en þingmaðurinn var afar hreinskilin þegar hún upplýsti hlustendur Ríkisútvarpsins um að hún og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafi beinlínis verið andsnúnir því að Ögmundur Jónasson yrði ráðherra á ný.

Því er ljóst að Ögmundur Jónasson situr nú í ríkisstjórn í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar.

x x x

Steingrímur J. Sigfússon hefur á undanförnum misserum haft mikla þörf fyrir að ræða hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins.

Nú held ég að það sé kominn tími til þess að við sjálfstæðismenn setjumst niður með Steingrími og ræðum um hugmyndafræði Alþýðubandalagsins.

Það stefnir að minnsta kosti í athyglisverðan vetur í íslenskum stjórnmálum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband