Faglegt?

Þegar Gylfi Magnússon var skipaður í embætti efnahags- og viðskiptaráðherra var sagt að sú skipan væri fagleg.

Framganga og embættisfærslur Gylfa Magnússonar í tengslum við gengistryggðu lánin og ársgömul lögfræðiálit lögmannsstofunnar Lex og lögfræðings Seðlabanka Íslands um ólögmæti þeirra eru hins vegar hvorki faglegar né boðlegar.

Þær eru þvert á móti ófaglegar og óboðlegar.

Það er auðvitað ekki verjandi að á sama tíma og venjulegt fólk, sem tók gengistryggð lán, barðist í bökkum í samskiptum sínum við lánafyrirtækin og reyndi að komast hjá gjaldþrotum og nauðungasölum vegna þeirra, hafi Gylfi Magnússon og ríkisstjórnin legið á og leynt lögfræðiálitum um ólögmæti lánanna.

Og margt bendir til þess að með því að leyna álitunum hafi ríkisstjórnin bakað íslenska ríkinu fjárhagslegu tjóni og jafnvel skaðabótaábyrgð.

Hlutur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra í þessu máli hefur hins vegar enn ekki verið upplýstur.

Ég hef tekið eftir því að bæði Jóhanna og Steingrímur hafa haldið því fram að hvorki þau sjálf né ráðuneyti þeirra hafi fengið álitin í hendur.

Með því eru þau Jóhanna og Steingrímur að mínu mati einfaldlega að reyna að koma sér undan ábyrgð á formsatriðum.

Það skiptir nefnilega ekki öllu máli hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi fengið lögfræðiálitin boðsend í ráðuneyti sín.

Stóra spurningin er sú hvort þau vissu af þessum lögfræðiálitum, efni þeirra og niðurstöðum.

Þeirri spurningu hafa hvorki Steingrímur né Jóhanna svarað.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður trúi því að Gylfi Magnússon hafi ekki upplýst forsætisráðherra og fjármálaráðherra um lögfræðiálitin og niðurstöður þeirra.

Það þarf enginn að segja mér að ábendingar lögfræðinga og Seðlabanka Íslands hafi ekki borið á góma í samskiptum ráðherranna, til dæmis í tengslum við endurskipulagningu bankakerfisins eða í tengslum við aðgerðir í þágu skuldugra heimila.

Og það er kannski þess vegna sem þau Steingrímur og Jóhanna keppast nú við að lýsa yfir stuðningi við Gylfa Magnússon.

Líklega vita þau að Gylfi Magnússon ætlar ekki að láta þeim eftir að fórna sér einum svo þau sjálf geti setið áfram í embættum sínum eins og ekkert hafi í skorist.

Líklega sættir Gylfi sig ekki við að þurfa að bera einn ábyrgð á þessu hneykslismáli sem samráðherrar hans bera jafn mikla ábyrgð á.

Það skyldi þó ekki vera?

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband