,,Jóhanna ætlar að sitja heima"

Allir sem hafa komið að uppeldi smábarna kannast við það þegar þau fara í fýlu þegar þau fá ekki það sem þau vilja.  Venjulega er þó hægt að tala börnin til.  Þeim rennur fljótt reiðin og frekjukastið tekur enda.

Þessi hugsun flaug mér í hug þegar ég sá aðalfyrirsögnina á forsíðu Fréttablaðsins í dag:

,,Jóhanna ætlar að sitja heima"

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hvergi á byggðu bóli þekkist það að forsætisráðherra lýðræðisríkis taki ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt er til samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár viðkomandi ríkis.

Ég tala nú ekki um þegar greidd eru atkvæði um lög sem forsætisráðherrann sjálfur og ríkisstjórn hans hefur sjálfur lagt fram, mælt fyrir og samþykkt.

Í tilviki íslenska forsætisráðherrans lagði hann auk þess sjálfur til með sérstakri lagasetningu að þjóðaratkvæðagreiðslan skyldi fara fram á morgun, 6. mars.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu var svo upplýst að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, væri um það bil að slást í hópinn með Jóhönnu Sigurðardóttur og ætlaði líka að sitja heima.

Framganga forystumanna ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera algjört einsdæmi.  Einsdæmi sem er þeim ekki til mikils sóma.

Samfylking og Vinstrihreyfingin grænt framboð, hafa árum saman haft það á stefnuskrám sínum að auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna í okkar stjórnskipulagi.

Loksins þegar flokkunum verður að ósk sinni hafa flokkarnir hvorki getu né burði til þess að standa við þá lýðræðisást sem þeir hafa predikað árum saman og formenn þeirra ætla að sitja heima.

Þessi framkoma er auðvitað yfirgengileg.

Hún minnir óneitanlega á viðbrögð smábarna sem ekki fá það sem þau vilja.

Hún helgast að mínu mati af tvennu:

  • Þjóðaratkvæðagreiðslan á morgun fer fram í óþökk stjórnvalda.
  • Jóhanna og Steingrímur hafa játað sig sigruð. Þau vita að stríðið sem þau sjálf hófu og lögðu pólitískt líf sitt að veði fyrir er tapað. Hagsmunir þeirra og þjóðarinnar fara ekki saman og það geta þau ekki sætt sig við.

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, er síðan annar kapítuli.

Jóhanna og Steingrímur hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að reyna að tryggja að sem fæstir taki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, með því að segja hana marklausan skrípaleik, þó í húfi séu einhverjir mestu hagsmunir sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir.

Upplýsingabæklingur til almennings barst seint og illa.

Og ríkisstjórnin hefur látið sér nægja að minna þjóðina á atkvæðagreiðsluna í smáauglýsingum dagblaðanna.

Íslenskir fjölmiðlar gætu gert margt vitlausara en að setja sig í samband við sérfræðinga frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, til þess að spyrja þá hvort framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave á Íslandi samræmdist þeim reglum sem krafist er að farið sé eftir þegar efnt er til lýðræðislegra kosninga.

Fyrir þá sem ekki vita hefur ÖSE haft með höndum kosningaeftirlit í Evrópu um árabil.

Ég er ekki viss um að kosningaeftirlitsmenn ÖSE gæfu ríkisstjórn Íslands háa einkunn að þessu sinni.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband