Nýja Ísland

Síðustu vikur hefur almenningur á Íslandi horft upp á aðgerðir í bankakerfinu sem hafa leitt til, og munu leiða til þess, að menn í viðskiptalífinu, sem bera mikla ábyrgð á því efnahagshruni sem hér varð, og sæta jafnvel rannsóknum, fá umfangsmiklar afskriftir himinhárra skulda sinna, en halda fyrirtækjum sínum eins og ekkert hafi í skorist. Nægir þar að nefna mál tengd Jóhannesi Jónssyni og Högum og Ólafi Ólafssyni og Samskipum og jafnvel fleiri fyrirtækjum.

Eigendur smærri fyrirtækja sem lent hafa í rekstrarvanda í kjölfar efnahagshrunsins kannast fæstir við að hafa hlotið sambærilega meðferð í bankakerfinu og eigendur stórfyrirtækjanna.

Á sama tíma hækkar höfuðstóll lána venjulegs fólks sem á enga von um að fá sambærilega meðferð í bankakerfinu. Heimilin í landinu hafa einfaldlega þurft að sætta sig við að skuldavanda þeirra sé slegið á frest, að minnsta kosti á meðan verið er að afskrifa skuldir útrásarvíkinganna.

Venjulegu fólki misbýður

Það er engin furða að venjulegu fólki skuli misbjóða þessi vinnubrögð. Með þessari málsmeðferð og verklagi senda bankarnir eftirfarandi skilaboð út í samfélagið: Eftir því sem þú skuldar meira, því meiri fyrirgreiðslu færðu í bankakerfinu og því meiri möguleika áttu á að halda eignum þínum.

Þetta er það „Nýja Ísland" sem hin norræna velferðarstjórn Jóhönnu og Steingríms býður Íslendingum upp á nú þegar hún fagnar ársafmæli sínu. Jafnræðissjónarmið virðast ekki gilda lengur og engin leið er að átta sig á því eftir hvaða reglum er farið við afskriftir skulda, endurfjármögnun og endurskipulagningu fyrirtækja. Þó virðist sem á skuldamálum þeirra aðila sem mest ítök höfðu í bankakerfinu fyrir bankahrun sé tekið með silkihönskum á meðan varnarlaust og venjulegt fólk, sem ekkert hefur til sakar unnið, þarf að sætta sig við að vera tekið mun fastari tökum.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki megi gera neitt fyrir neinn. Það er hins vegar grundvallaratriði að jafnræði ríki, sömu reglur gildi fyrir alla, reglurnar séu gagnsæjar og að þeim sé beitt með sanngjörnum og skynsamlegum hætti. Því er ekki að heilsa um þessar mundir.

Svör forsætisráðherra

Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar fyrir helgi sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, að sér fyndist óeðlilega að málum staðið, en ríkisstjórnin gæti ekki gripið til neinna aðgerða. Það væri eftirlitsnefndar og Bankasýslu ríkisins að bregðast við.

Í Kastljósi sjónvarpsins á dögunum var Jóhanna innt álits á því sem er að gerast í bankakerfinu. Þá sagði hún meðal annars:

„Veistu það að það er margt sem ég hef séð hérna í fréttunum sem ég er yfir mig hneyksluð á og alveg sammála fólkinu í landinu með það." Svo bætti hún við: „Já, ég hef margsinnis bara verið agndofa yfir sjónvarpinu, að sjá þessar fréttir."

Ekki gera ekki neitt

Af framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur síðustu daga og vikur virðist það því miður hafa farið framhjá henni að það er hún sjálf sem er forsætisráðherra í þessu landi, en ekki einhver annar.

Misbjóði forsætisráðherranum það sem er að gerast í bankakerfinu eða annars staðar í þjóðfélaginu nægir ekki að hún hneykslist bara með okkur hinum, lýsi sig sammála fólkinu í landinu og haldi svo áfram að horfa á sjónvarpið. Forsætisráðherrann getur ekki skýlt sér á bak við embættismenn og stofnanir sem þeir starfa við.

Henni og ríkisstjórninni ber að grípa til raunverulegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þeir hlutir sem almenningi misbýður haldi áfram. Það telur núverandi forsætisráðherra sig því miður ekki geta gert og virðist auk þess hvorki hafa vilja né burði til þess að grípa til aðgerða sem allir sjá að nauðsynlegt er að ráðast í. Hún ætlar ekki að gera neitt. Á meðan ná þeir sem síst skyldi fram vilja sínum í bankakerfinu og almenningi er áfram misboðið.

Forsætisráðherra sem þannig bregst við þeim alvarlegu aðstæðum sem uppi eru hlýtur að velta því alvarlega fyrir sér hvort hún og ríkisstjórn hennar eigi eitthvert raunverulegt erindi lengur við fólkið í landinu.

Höfundur er varaþingmaður og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband