Eru Vinstri grænir umhverfisverndarsinnar?

Vinstri grænir hafa fram til þessa gefið sig sérstaklega út fyrir að vera umhverfisverndarsinnar.

Í dag kom í ljós hversu trúir samvisku sinni þingmenn Vinstri grænna eru og hversu mikla virðingu þeir bera í raun fyrir umhverfinu og náttúru Íslands.

Það gerðist þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um svokallað skötuselsfrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.

Ég ætla að láta vera í bili að gagnrýna að með því frumvarpi sé fyrsta skrefið stigið við innleiðingu á fyrningarleið í sjávarútvegi og benda þess í stað á annað athyglisvert efnisatriði þessa frumvarps.

Í frumvarpinu, sem sjávarútvegsráðherrann lagði sjálfur fram, er lagt til að þessum sama sjávarútvegsráðherra verði veitt heimild til að úthluta 80% hærri heildarafla skötusels en fiskifræðingarnir hjá Hafrannsóknarstofnun ráðleggja.

Með öðrum orðum gengur þetta frumvarp meðal annars út á það að heimila hinum vinstri græna sjávarútvegsráðherra að veita sjálfum sér ákvörðunarvald um að hefja ofveiði úr einum fiskistofni við Íslandsstrendur.

Oft hafa vinstri grænir komið mér á óvart og sjaldnast skemmtilega.

En ekki átti ég von á því að þingmenn stjórnmálaflokks, sem á tyllidögum tala eins og hvítskúraðir kórdrengir um mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og grænnar atvinnustefnu, stæðu að lagasetningu um ofveiði í náttúru Íslands.

Ef þetta er sú umhverfisverndarstefna sem Vinstri grænir ætla að hrinda í framkvæmd ættu þeir sem kusu þennan flokk vegna meintrar afstöðu hans til umhverfismála að snúa sér að hægri grænum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband