Kastljósið á Jóhönnu

Framganga Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins síðastliðinn þriðjudag var mjög athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Það er auðvitað eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að nefna hér ,,árangur" ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna við að reysa skjaldborgir um heimilin í landinu og velferðarbrýr.  Það sama á við aðgerðir í efnahagsmálum, atvinnumálum, svikin í sambandi við stöðugleikasáttmálann, aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja og svo mætti lengi telja.

Um þessa þætti hefur Jóhanna haldið sömu ræðuna svo mánuðum skiptir.  Og árangurinn sýnir að það er ekkert að marka það sem hún hefur haft fram að færa í þessum málaflokkum fram að þessu.  Og þá breytir engu þó Jóhanna flytji sömu ræðuna aftur og aftur.

Það voru önnur umræðuefni sem vöktu meiri athygli.

x x x

Í fyrsta lagi var augljóst að forsætisráðherra Íslands dauðlangaði að nota tækifærið til þess að húðskamma Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, fyrir að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

Vandi Jóhönnu Sigurðardóttur í því máli er hins vegar sá að þjóðin er sammála Ólafi Ragnari, en ósammála Jóhönnu.

x x x

Í öðru lagi vakti það verðskuldaða athygli að forsætisráðherra Íslands skyldi afneita Svavari Gestssyni, aðalsamningamanni hennar eigin ríkisstjórnar, í viðtali í Kastljósinu.

Af viðbrögðum Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra,  í DV strax að viðtali loknu að dæma er ljóst að Steingrímur J. Sigfússon er allt annað en sáttur við ummæli Jóhönnu um aðalsamningamann íslensku ríkisstjórnarinnar.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur væntanlega heldur ekki tekið ummælum Jóhönnu fagnandi þegar hún gaf Svavari einkunn fyrir störf sín í þágu þeirrar ríkisstjórnar sem þær báðar eiga sæti í.

Það er því hætt við því að andrúmsloftið á næsta ríkisstjórnarfundi verðí ansi rafmagnað.

x x x

Það er útaf fyrir sig hárrétt hjá forsætisráðherranum að það hefði auðvitað verið skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að fá vanan samningamann í milliríkjadeilum til þess að semja fyrir Íslands hönd eða vera ríkisstjórninni til ráðgjafar í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga um Icesave.

En það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvað vakir fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að nefna það nú að skynsamlegra hefði verið að fá aðra og reyndari menn til að gæta hagmuna Íslands í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga.

Ég tel að Jóhanna og Samfylkingin séu að átta sig á því að ríkisstjórnin sé búin stefna Icesave-málinu í algjört óefni.  Spunameistarar flokksins hafi ráðlagt henni að finna blóraböggla í Icesave-málinu og kenna þeim um ófarir ríkisstjórnarinnar í stað þess að axla ábyrgð sjálf.

Það gerði Jóhanna í Kastljósinu og beitti Albaníuaðferðinni frægu.

Hún benti á Svavar Gestsson en alþjóð skyldi að með því reyndi hún að koma allra ábyrgð á málinu yfir á fjármálaráðherrann Steingrím J. og samstarfsflokkinn Vinstri græna.

Steingrímur beitti síðan afbrigði af Albaníuaðferðinni á Alþingi í gær þegar ummæli Jóhönnu um hans aðalsamningamann  voru borin undir hann.

Þá húðskammaði Steingrímur J. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sakaði þá um að stunda mannaveiðar!

Þær mannaveiðar hófu ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Það gerði Jóhanna Sigurðardóttir.

Það þýðir ekkert fyrir Steingrím J. Sigfússon að kveinka sér undan því að aðalsamningamaður ríkisstjórnarinnar, Svavar Gestsson, sé nefndur í sömu andrá og þegar rætt er um Icesave-málið.  Hjá því verður einfaldlega ekki komist eins og málið er vaxið.

Ef einhver ætti að hafa skilning á því að rætt sé um Svavar Gestsson í tengslum við Icesave-málið þá er það Steingrímur.

Ég minnist þess að minnsta kosti ekki að stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon hann hafi farið að tilmælum Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hann bað stjórnarandstöðuna í miðju efnahagshruninu um að persónugera ekki vandann.

Á þau tilmæli hlustaði Steingrímur ekki þá, eins og allir muna.

x x x

Í þriðja lagi fylgdist ég agndofa á forsætisráðherra Íslands lýsa hneykslun sinni á afskriftum skulda í bankakerfinu og því að menn sem bera mikla ábyrgð á því efnahagshruni sem hér varð sé gert kleift að halda fyrirtækjum sínum eins og ekkert hafi í skorist.

,,Veistu það að það er margt sem ég hef séð hérna í fréttunum sem ég er yfir mig heyksluð á og alveg sammála fólkinu í landinu með það", sagði Jóhanna og bætti við  ,,Já, ég hef margsinnis bara verið agndofa yfir sjónvarpinu, að sjá þessar fréttir".

Af framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi Sjónvarpsins virðist það hafa farið fram hjá henni að það er hún sjálf sem er forsætisráðherra í þessu landi, en ekki einhver annar.

Misbjóði forsætisráðherranum það sem er að gerast í þjóðfélaginu nægir ekki að hún hneykslist bara með okkur hinum, lýsi sig sammála fólkinu í landinu og haldi svo áfram að horfa á sjónvarpið.

Forsætisráðherranum ber að grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þeir hlutir sem almenningi misbýður haldi áfram.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband