Steingrímur hótar forsetanum

Mikil taugaveiklun hefur nú augljóslega gripið um sig innan ríkisstjórnarinnar og meðal stjórnarliða vegna þeirrar ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að taka sér nokkurra daga frest til þess að ákveða hvort hann eigi að staðfesta Icesave-lög ríkisstjórnarinnar eða synja þeim staðfestingar.

Það sést best á hótunum Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar og þingmanns Vinstri grænna, í garð forseta Íslands.

Í dag lýsti hann því yfir í viðtali við Bloomberg fréttaveituna að synji forsetinn Icesave-lögunum staðfestingar og vísi þeim til þjóðarinnar þýði það endalok ríkisstjórnarinnar.

Hótun Björns Vals Gíslasonar í garð forsetans getur vart verið skýrari, en hún ber með sér hversu taugastrekktur formaður hans, Steingrímur J. Sigfússon, er orðinn yfir afdrifum Icesave-málsins.

Björn Valur hefur tekið sér það hlutverk í íslenskum stjórnmálum að vera ,,his masters voice".  Hann er afar hollur húsbónda sínum.  Nánu sambandi þeirra má lýsa þannig að þegar Steingrímur fær sér kók, þá ropar Björn Valur.

Samband þessara fóstbræðra er með þeim hætti að allltaf má skyggnast inn í hugarheim Steingríms J. Sigfússonar með því að hlusta á hvað Björn Valur Gíslason hefur til málanna að leggja.

Þegar Steingrímur  er kominn í vandræði eða mislíkar þróun mála er Birni Val att út á foraðið.

Nú hefur hann verið sendur út af örkinni til þess að koma hótunum Steingríms á framfæri við Ólaf Ragnar.

Þessar hótanir eru auðvitað til marks um það hversu miklu þessi ríkisstjórn er reiðubúin að fórna fyrir völdin.

Þau skipta meira máli í huga norrænu vinstri-velferðarstjórnarinnar en vilji 70% landsmanna.

Þau skipta meira máli en vilji yfir 60.000 Íslendinga sem undirritað hefur áskorun til forseta Íslands.

Hagsmunir Samfylkingar og Vinstri grænna skipta greinilega mun meira máli en hagmunir þjóðarinnar og framtíðarkynslóða hennar.

Þess vegna hefur Steingrímur J. Sigfússon ákveðið að koma þessum hótunum á framfæri við forsetann.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband