Hvenær verður kosið?

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave liggja fyrir.  Í þriðja skiptið hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar verið gerð afturreka með mál sem þau hafa lagt ofuráherslu á að fá samþykkt og lagt pólitíska framtíð sína að veði fyrir.

Það gerðist fyrst þegar þau lögðu Svavarssamninginn fyrir Alþingi, án þess að hafa fyrir honum meirihlutastuðning.  Það kom í ljós þegar þau voru gerð afturreka með samninginn gegn eigin vilja.

Það gerðist aftur þegar fólkið í landinu hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu Icesave-samningnum sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms, landaði.  98% þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði gegn þeim samningi.

Og nú hefur þjóðin í þriðja skiptið gert ríkisstjórnina afturreka í Icesave-málinu og hafnað með afgerandi hætti lögum sem þau lögðu fram á Alþingi, börðust fyrir og samþykktu.

Vandi Jóhönnu og Steingríms

Forsætisráðherra þjóðarinnar og fjármálaráðherranum hafa verið mislagðar hendur um flest.  Það finna heimilin og fyrirtækin í landinu á eigin skinni á degi hverjum. 

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar er aðeins enn ein birtingarmynd þess vanda sem ríkisstjórnin á við að etja.  Ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er ófær um að leysa þau verkefni sem henni hafa verið falin. 

Það sjá allir.

En vandi ríkisstjórnarinnar er víðtækari.  Hann snýr ekki einungis að íslensku þjóðinni heldur nær hann ekki síður út fyrir landssteinana.

Hvernig er til dæmis hægt að ætlast til þess að ráðamenn annarra þjóða sem við eigum í samskiptum og samningaviðræðum við, svo sem um aðild Íslands að Evrópusambandinu, geti tekið þessa ríkisstjórn Íslands alvarlega og tekið mark á yfirlýsingum hennar þegar staðfest er að hún nýtur ekki stuðnings eigin þjóðar og logar auk þess í innbyrðis átökum?

Og hversu trúverðugt er að fela Jóhönnu og Steingrími, eftir allt sem á undan hefur gengið, það verkefni að taka til varna fyrir Íslands hönd í hugsanlegum málaferlum við Breta og Hollendinga og halda í þeim fram málstað sem þau hafa fram til þessa ekki haft neina einustu sannfæringu fyrir og lögðu meira að segja til að við Íslendingar tækjum á okkur 500 milljarða króna ólögvarða kröfu frekar en að láta reyna á réttarstöðu okkar?  Myndi það ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar betur að fela öðrum þetta verkefni?

Það blasir við að nú ber þessu ágæta fólki skylda til að horfast í augu við veruleikann þá stöðu sem það er komið í.  Ríkisstjórnin getur ekki setið og látið eins og ekkert hafi í skorist.  Henni ber að boða nú þegar til kosninga í landinu.

Gjá milli þings og þjóðar

En krafan um kosningar snýr ekki bara að ríkisstjórninni.  Hún snýr að einnig að Alþingi.  Drjúgur meirihluti alþingismanna greiddi atkvæði sitt með Icesave-lögunum.  Þjóðin hafnaði þeim hins vegar með afgerandi hætti.  Það sýnir að gjá hefur myndast milli þings og þjóðar.  Þá gjá þarf að brúa og Alþingi þarf að endurheimta það traust sem nauðsynlegt er og augljóslega skortir.  Það verður aðeins gert í almennum þingkosningum.

Kjósa þarf um framtíðina

Í síðustu alþingiskosningum var kosið um fortíðina.  Nú þarf þjóðin að horfa fram veginn.  Stjórnmálaflokkarnir þurfa að leggja fyrir þjóðina þá stefnu sem þeir vilja byggja endurreisn þessa samfélags á til framtíðar og gefa henni tækifæri til að kjósa um framtíðina og ákveða hvert skal stefna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fer með þingrofsréttinn.  Nú skuldar hún þjóðinni svör við því hvenær hún hyggst óska lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og hvernær verður kosið til Alþingis?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband