Ofurskattar og yfirboð

Nú er hafin einkennileg samkeppni milli stjórnmálamanna á vinstrikantinum.

Sú samkeppni gengur út á það hver þorir að ganga lengst í skattheimtu gagnvart fólki á Íslandi.

Á mánudaginn lagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri grænna, til að tekjuskattur á tekjur yfir einni milljón króna yrði 60-70%.  Lilja hefur greinilega verið í læri hjá Indriða H. Þorlákssyni því henni tókst finna skattinum nýtt og ferskt nafn, ,,stríðsskatt".

Og það var eins og við manninn mælt.

Fram á sjónarsviðið braust Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi ganga lengra og yfirbauð Lilju.  Hún sagðist treysta því að ríkisstjórnin myndi strax leggja fram lagafrumvarp sem tryggði að ríkið tæki 70-80% í skatta af tekjum yfir 1.200 þúsund krónum.

Og undir þessi sjónarmið hafa Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, tekið.

Það kemur mér ekki á óvart.

Tekjur sem nema einni milljón króna á mánuði eru vissulega háar. 

Þrátt fyrir það sé ég enga réttlætingu fyrir þeirri skattpíningu sem þingkonurnar tala fyrir.  Slíkir ofurskattar eru óskynsamlegir og skaðlegir og munu engu skila öðru en meiri óánægju í samfélaginu, landflótta auk þess sem þeir hafa letjandi áhrif á getu fólks og vilja til þess að auka tekjur sínar.

Nái þær hins vegar vilja sínum fram er mikilvægt að átta sig á því að slík ofurskattlagning myndi ekki einungis ná til Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, og Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og ýmissa annarra bankamanna sem vilji stendur til að greiði enn hærri skatta en þeir gera nú.

Fleiri fengju að finna fyrir því og þá ekki einungis þeir ríkisforstjórar sem starfa í umboði núverandi ríkisstjórnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem sumum íslenskum vinstrimönnum er mjög í nöp við um þessar mundir, væri einn þeirra, svo dæmi sé tekið.

Forstjórar stærstu fyrirtækja landsins myndu væntanlega flestir verða þessum ofursköttum að bráð og líklega einhverjir millistjórnendur einnig.  Sjómenn, læknar, verkfræðingar, flugstjórar, lögfræðingar og einhverjir fjölmiðlamenn einnig svo dæmi séu tekin.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar hugmyndir um ofurskatta eru settar fram, að því er virðist í fyllstu alvöru.

Þá er ekki síður mikilvægt að hafa í huga hver reynsla þeirra ríkja hefur verið sem farið hefur þessa leið í skattheimtu í gegnum tíðina.

Þegar Bítlarnir nutu hvað mestra vinsælda um heim allan voru þeir John, Paul, George og Ringo ekki þeir stóreignamenn sem flestir héldu.  Ástæðan var sú að þeir þurftu að greiða 97% af tekjum sínum í ríkissjóð.

Það leiddi auðvitað til þess að þeir hrökluðust frá Bretlandi, en sömdu í tilefni af aðför breskra skattyfirvalda að sér óðinn Taxman, sem naut mikilla vinsælda.

Sama má segja um tekjuhæstu afreksmenn Svíþjóðar í íþróttum og listum.  Meðan skattpíningin var sem mest þar í landi voru helstu stjörnur Svía á öllum sviðum með lögheimili í furstadæminu Mónakó eða í sambærilegum lágskattasvæðum.

Verst úti í skattkerfi Svía varð rithöfundurinn Astrid Lindgren sem var gert að greiða 102% tekna sinna til sænska ríkisins.

Grein sem Lindgren ritaði í Expressen árið 1976 um þessa ofurskattlagningu varð til þess að skattkerfinu í Svíþjóð var breytt.

En nú, rúmum þrjátíu árum síðar, skjóta sambærilegar hugmyndir upp kollinum á Íslandi og það þarf engum að koma á óvart að þær komi af vinstrivængnum.

Og þó svo að ég sé þeirrar skoðunar að íslenskum vinstrimönnum séu mislagðar hendur um flest, þá mega þeir eiga það sem þeir eiga, þ.e. ákaflega fjörugt ímyndunarafl þegar kemur að því að kokka upp aðferðir til þess að hækka skatta á fólkið sitt.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband